Lög Alþýðufylkingarinnar í Norðausturkjördæmi (AfNA)

1. júní 2017 —

 1. Félagið heitir Alþýðufylkingin Norðausturkjördæmi og er kjördæmisráð Alþýðufylkingarinnar í kjördæminu skv. lögum flokksins. Heimili og varnarþing er á Akureyri.
 2. Aðild að félaginu eiga allir skráðir félagar í Alþýðufylkingunni, sem eiga lögheimili í Norðausturkjördæmi. Félagið starfar samkvæmt lögum og markmiðum Alþýðufylkingarinnar og vinnur að framgangi stefnu og málefna flokksins á félagssvæðinu, svo sem með starfi félaga innan fjöldahreyfinga (þ.á.m. stéttarfélaga), á fjöldasamkomum og í kröfugöngum, en einnig undirbúningi fyrir alþingiskosningar. Félagsmenn í einstökum sveitarfélögum eða byggðarlögum geta stofnað með sér aðildarfélög skv. lögum flokksins. Fara þau með staðbundin mál, þ.m.t. framboð til sveitarstjórna, í samráði við stjórn kjördæmisráðsins.
 3. Aðalfundur skal haldinn árlega á haustmánuðum og skal boðað til hans skriflega og/eða með rafrænum samskiptum með þriggja vikna fyrirvara. Aðalfundur telst löglegur sé löglega til hans boðað. Auk þess skulu haldnir félagsfundir eftir þörfum að frumkvæði stjórnar eða samkvæmt ósk fimmtungs félagsmanna.
 4. Aðalfundur kýs þriggja manna stjórn félagsins og skiptir hún með sér verkum. Að auki skal kjósa einn varamann í stjórn. Stjórn félagsins ber ábyrgð á starfsemi þess og framkvæmir samþykktir aðalfundar og félagsfunda. Stjórnin skipar starfshópa og boðar til umræðufunda um þau mál sem snerta stefnumörkun og störf hreyfingarinnar. Aðalfundur kýs enn fremur:
  1. Tvo skoðunarmenn reikninga.
  2. Tvo fulltrúa í miðstjórn flokksins. Þessir fulltrúar mega vera í stjórn félagsins en ekki í aðalstjórn og/eða framkvæmdanefnd flokksins, enda væru þeir þá þegar í miðstjórninni.
 5. Kosningar skv. 4. grein skulu vera skriflegar og leynilegar.
 6. Í aðdraganda kosninga til Alþingis ákveður aðalfundur eða félagsfundur, sem sérstaklega er boðað til hvernig staðið skuli að röðun á framboðslista flokksins í kjördæminu. Fundurinn getur eftir atvikum ákveðið að fela stjórn félagsins eða sérstaklega kjörinni uppstillingarnefnd þetta hlutverk. Framboðslisti skal borinn undir félagsfund eins fljótt og auðið er áður en framboðsfrestur rennur út.
 7. Félagið heldur utan um félagatal flokksins í kjördæminu í samstarfi við ritara flokksins. Félagið innheimtir árgjald af félögum í kjördæminu í samstarfi við gjaldkera flokksins. Reikningsár félagsins er almanaksárið.
 8. Almennt ræður einfaldur meirihluti við atkvæðagreiðslur á fundum félagsins. Falli atkvæði jafnt ræður atkvæði formanns. Til að lagabreyting skoðist samþykkt þarf þó 2/3 hluta greiddra atkvæða.
 9. Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi. Lög þessi öðlast þegar gildi en skulu eftir atvikum samræmd lögum flokksins á aðalfundum.

Samþykkt á stofnfundi félagsins 26. nóvember 2016.