Ályktanir Alþýðufylkingarinnar

16. febrúar 2013 —

Staða og verkefni Alþýðufylkingarinnar

Landsfundur 6.-7. október 2018

Þó að Alþýðufylkingin hafi ekki flegið feitan gölt í kosningaúrslitum undanfarin ár, verður að meta mikilvægi flokksins eftir fleiri mælistikum.

Eftir efnahagshrunið 2008 hefur Alþýðufylkingin, ein flokka, varpað ljósi á orsakir kreppunnar og sett fram raunhæfa alhliða stefnu, sem beinir stéttabaráttunni að uppgjöri við auðvaldsskipulagið og barist gegn aðild að ESB, Nató og öðrum stuðningi við heimsvaldastefnuna.

Alþýðufylkingin hefur afhjúpað hvernig kapítalisminn viðheldur ójöfnuði í samfélaginu og efnahagslegu ójafnvægi, sýnt fram á mikilvægi félagsvæðingar fjármálakerfisins og annarra innviða samfélagsins og sett fram nokkuð ítarlega stefnu í umhverfismálum, heilbrigðismálum og fleiri málaflokkum.

Alþýðufylkingin hefur á fáum árum opinberað byltingarsjónarmið á flestum sviðum, í stefnuskrám, fjölda ályktana, kosningabaráttu, útgáfustarfi, innan fjöldahreyfinga og á öðrum vettvangi. Þar hafa þau vakið verðskuldaða athygli og fengið talsverðar undirtektir, þó að fjölmargir, sem hafa tekið undir stefnuna, hafi kosið að verja atkvæði sínu á annan hátt af „taktískum“ ástæðum.

Alþýðufylkingunni hefur þó ekki tekist að virkja nægilegan fjölda til virkrar þátttöku í starfi flokksins, til að byggja upp öflugan forystukjarna. Það hefur komið niður á árangri flokkssins og tiltrú á mikilvægi hans. Það hefur aftur komið niður á virkni félaganna, samstöðu og frumkvæði.

Alþýðufylkingin verður að breyta um áherslur og leggja vinnu í innri uppbyggingu til að geta skapað sér verðugan sess í íslenskri pólitík. Áherslan verður að vera á að festa í sessi öflugan kjarna af félögum, sem byggja upp þekkingu sína og pólitíska vitund með námi og starfi bæði innan flokksins og út á við. Flokkurinn verður að læra að takast á við veikleika sína og bæta úr þeim, og allir virkir félagar verða að taka þátt í því. Það skapar okkur nýjan og sterkari grundvöll til að fá nýja félaga og stuðningsfólk til liðs við okkur.

Þó að Alþýðufylkingin muni, að óbreyttu, ekki leggja áherslu á þátttöku í kosningum á næstunni, mun hún áfram verða í fararbroddi í málefnastarfi og byltingarsinnaðri stefnumótun, ásamt því að taka þátt í stéttabarátunni, og framsækinni baráttu á mörgum sviðum.

Kreppa er óhjákvæmilegur hluti kapítalismans! 10 ár frá hruni.

Landsfundur 6.-7. október 2018

Árið 2008 tröllreið kreppa kapítalismans íslensku þjóðfélagi. Ekki í fyrsta skipti og heldur ekki í síðasta skipti, en á eftirminnilegan hátt. Þegar hin svokallaða millistétt – skuldsett vinnandi fólk – sá eignir sínar brenna upp og ríkisstjórnina ráðalausa, var sem hulu væri svipt af fólki, það þyrptist á mótmælafundi og felldi að lokum ríkisstjórnina. Aðalbyltingin í Búsáhaldabyltingunni var að allur almenningur þættist geta komið fram og krafist réttar síns án þess að skeyta um álit borgarastéttarinnar.

Þótt ljóst sé að kreppa fylgir kapítalisma alltaf og óhjákvæmilega, óðu uppi aðrar og tækifærissinnaðri skýringar á eðli vandans: Sumar lutu að klaufaskap, sumar að kynhormónum – sumar að siðferði. En slæmt siðferði er ekki ástæða kreppu og hruns í kapítalismanum, heldur er það líka eðlilegur fylgifiskur hans, rétt eins og kreppan: Kapítalismi laðar fram slæmt siðferði og góður kapítalismi er í besta falli tálsýn.

Hin stóra takmörkun sósíalískra byltingarsinna veturinn 2008-2009 var að þeir voru of fáir og of illa skipulagðir til þess að geta komið fram sem byltingarsinnaður, sósíalískur valkostur við ríkjandi ástand. Það var því á sinn hátt eðlilegt að fram sprytti urmull framboða sem boðuðu allskyns umbætur, en voru flest meira og minna tækifærissinnuð og flest smáborgaraleg í eðli sínu. Hér má telja með Vinstri-græn, sem voru pólitísk jómfrú, varkár í yfirlýsingum og stefnu og óspjölluð af reynslunni.

Ríkisstjórnin sem tók við af hrunstjórninni var auðvaldssinnuð í gegn. Því til stuðnings nægir að nefna endurreisn bankakerfisins, harða baráttu fyrir því að fá að borga IceSave-skuldirnar og svo auðvitað umsóknina að Evrópusambandinu. Fordæmalaus tækifæri til félagsvæðingar voru látin ónotuð – og þótt sýta megi það, var það líka eðlilegt, þar eð raddir sósíalismans voru of veikar til að geta haft áhrif.

Þegar útséð var um að nokkru yrði þokað í sósíalíska átt, tók hópur sig til og stofnaði Alþýðufylkinguna. Á þeim tæpu 6 árum sem síðan eru liðin hefur Alþýðufylkingunni ekki tekist að vinna nein vígi af borgarastéttinni eða handbendum hennar, þótt að vísu hafi byggst upp harðsnúinn og vaxandi hópur félaga í flokknum, ásamt betri og betri stefnuskrá í stórum og litlum málum þjóðfélagsins. Þá hefur flokknum tekist að koma málstað sósíalismans inn í umræðuna í kringum kosningaþátttöku.

Hvað hefur breyst á þessum tíu árum? Sá efnahagslegi bati sem hefur sést hefur í fyrsta lagi komið til vegna ferðamannastraums og breyttrar hegðunar fiskistofna. Í öðru lagi hefur hann ekki skilað sér nema til hluta landsmanna, meðan drjúgur hluti situr í versta húsnæðisvanda síðan áður en Breiðholt var byggt, og sér ekki fyrir endann á honum enn. Heilbrigðiskerfi og menntakerfi eru í sárum eftir grófan niðurskurð. Öryrkjar sitja enn með óbættan hlut. Á meðan baða hinir ríku sig í gróða og mikill ójöfnuður geisar.

Á tíu ára afmæli hrunsins blasa enn við verkefni sem við erum því miður orðin vön: Þörfin fyrir að byggja upp byltingarsinnaðan flokk, sem getur í alvörunni tekið forystu í baráttunni fyrir þjóðfélagi þar sem velferð og réttlæti ná til allra. Alþýðufylkingin skorar á alla sósíalista að taka þátt í þessu verkefni, til þess að mannsæmandi þjóðfélag geti orðið að veruleika á okkar dögum.

Sigrumst á víti heimilisleysis og ótryggs húsnæðis

Landsfundur 6.-7. október 2018

Fjöldi heimilislausra hefur aukist stöðugt yfir lengri tíma og eru nú 349 manns heimilislausir samkvæmt skýrslu Velferðarráðs Reykjavíkur 2017.

Stöðug fjölgun heimilislausra yfir langan tíma er merki vangetu núverandi samfélagsgerðar til að:

  1. Koma í veg fyrir að einstaklingar missi fótfestu í lífi sínu. Sú fótfesta byggir á stoð sem kapítalískt samfélag ræðst gegn úr ýmsum áttum. Stór hluti fólks á hverjum tímapunkti hefur ekki og er ólíklegt til að fá örugga atvinnu. Enda er það í hag auðvaldsins að hafa slíku ótryggu vinnuafl til að dreifa, sem þarf að sætta sig við lág laun og léleg kjör, og sem í leiðinni dregur úr samningamætti stöðuga vinnuaflsins. Gróðadrifni fasteignamarkaðurinn blæs upp verð húsnæðis að því marki að á almennum markaði kostar leiga eða útborgun af húsnæðisláni einn til tvo þriðju, jafnvel meira, af mánaðarlaunum láglaunastarfsmanns.
  2. Koma stoð undir þá einstaklinga sem hafa misst þessa fótfestu. Manneskjur sem hafa engan fjárhagslegan stöðugleika og ýmist treysta sér ekki til eða hreinlega geta ekki leigt eða keypt heimili. Eins á manneskja sem búin er að missa heimili og er jafnvel háð fíkniefnum erfitt með að feta sig á vinnumarkaðinum. Ofan á bætast heilbrigðis- og geðræn vandamál sem spretta af því að lifa við heimilisleysi sem koma enn frekar í veg fyrir fjárhagslegt öryggi manneskjunnar.

Úrræðin gegn heimilisleysi verða ekki aðeins að vera til þess að hjálpa þeim sem nú þegar eru heimilislausir heldur líka til þess að fyrirbyggja heimilisleysi til að byrja með. Enda dugar ekki að þurrka gólfið meðan enn rennur úr krananum.

Slík úrræði hjálpa ekki aðeins þeim sem eru eða eiga á hættu að verða heimilislausir, heldur nýtur öll alþýðan góðs af þeim. Skref í áttina að öruggu húsnæði fyrir alla eru:

  1. Réttur til atvinnu og réttur til húsnæðis.
  2. Að fasteignir, yfir höfuð, séu teknar úr markaðskerfinu og leigðar eða þeim úthlutað þannig að enginn þurfi að hafa áhyggjur af því að geta ekki borgað leigu eða lánsútgjöld um mánaðarmótin
  3. Félagsvæðing hagkerfisins, sem leiðir af sér styttri vinnutíma, hærri laun fyrir þau lægst launuðu, mannsæmandi meðferð á vinnustöðum og lægra húsnæðisverð.

Búsetuúrræðin sem nú eru til staðar rúma aðeins um 150 manns eða varla helming heimilislausra. Bæta þarf aðstöðu til að allir heimilislausir geti átt öruggt húsaskjól hverju sinni. Einnig er skortur á gistiúrræði sem er opið allan sólarhringinn.

Ásamt skammtímaúrræðum þarf langtímaúrræði sem miða að endurhæfingu og aðlögun. Einn af dragbítum endurhæfingar heimilislausra er glæpavæðing eiturlyfjanotkunar. Eiturlyfjanotkun ætti að teljast til heilbrigðisvanda og viðeigandi meðferð gefin af heilbrigðiskerfinu.

Kapítalisminn er stærsta umhverfisógnin

Landsfundur 6.-7. október 2018

Landsfundur Alþýðufylkingarinnar, haldinn í Reykjavík 6.-7. október 2018, áréttar að meðan þjóðfélagið er keyrt áfram af gróðadrifnu markaðskerfi, sem gerir endalausar kröfur um síaukinn hagvöxt sé tómt mál að tala um uppfyllingu markmiða Parísarsamkomulagsins og annarra skuldbindinga Íslendinga hvort sem er hérlendis eða á alþjóðavettvangi. Fundurinn hafnar öllu daðri við olíuvinnsluhugmyndir og mengandi þungaiðnað og hvetur stjórnvöld til fara raunhæfar leiðir til að minnka losun koltvísýrings en þá þarf að koma til félagsvæðing þjóðfélagsins þar sem hagsmunir samfélagsins en ekki auðmanna eru hafðir í fyrirrúmi.

Alþýðufylkingin berst fyrir því að undið verði ofan af umhverfisógninni og komið á sjálfbæru samfélagi sem ekki gengur á rétt komandi kynslóða með græðgi fámennrar auðstéttar. Landsfundurinn hvetur íslenskan almenning til þess að taka umhverfismálin föstum tökum og vinna að því að gripið verði til viðunandi viðbragða við þeim vanda sem óbilgirni markaðshyggjunnar hefur skapað í heiminum. Til þess að bjarga jörðinni út úr vítahring mengunar og sóunar auðstéttarinnar er mikilvægt að skilningur vaxi, bæði hjá almenningi og innan umhverfishreyfinga, á því að kapítalisminn verður aldrei grænn.

Stéttabarátta, ekki stéttasamvinna!

Landsfundur 6.-7. október 2018

Frá stofnun hefur Alþýðufylkingin tekið fortakslausa afstöðu með verkafólki, fólkinu sem vinnur við undirstöðustörf þjóðfélagsins á lægstu laununum.

Hnignunarsaga ASÍ frá því er hagfræðingarnir náðu þar völdum sýnir svo ekki verður um villst að árangur í kjarabaráttu launafólks næst ekki með stéttasamvinnu. Eina leiðin til að ná fram raunverulegum kjarabótum er stéttabarátta.

Landsfundur Alþýðufylkingarinnar haldinn 6.-7. október 2018 krefst þess að ný forysta ASÍ standi þétt upp við bakið á stéttarfélögum sambandsins í komandi kjarabaráttu þeirra í vetur og skorar á forystu félaganna að hvika hvergi í þeirri baráttu.

Koma verður í veg fyrir félagsleg undirboð og niðurrif á réttindum verkafólks, þar sem erlent verkafólk og ungt fólk verður harðast úti. Skammtímaráðningar og starfsmannaleigur, sem ekki lúta lögum íslensks vinnumarkaðar eru meðal verkfæra auðvaldsins í þessu skyni.

Uppræta verður starfsmannaleigur, sem ekki lúta íslenskum lögum og -kjarasamningum, og hafa það eina hlutverk að lifa sníkjulífi á erlendu verkafólki og halda því í ómanneskjulegum aðstæðum. Þetta verður að setja að skilyrði í samningum á vinnumarkaði í vetur.

Ályktun gegn heimsvaldastefnu og stríðsstefnu

Landsfundur 6.-7. október 2018

Spenna á alþjóðavettvangi vex stig af stigi. Umfangsmikil NATO-æfing við Ísland í þessum mánuði, 10 herskip, 6000 sjóliðar, landgöngusveitir æfa landgöngu á Suðurnesjum og aðrir æfa sig í Þjórsárdal. Bandaríkin boða aukin hernaðarumsvif á N-Atlantshafi.

Heræfingin við Ísland er undanfari gríðarlegrar NATO-æfingar í Noregi í haust – Trident Juncture. Þar sem taka þátt 40 þúsund hermenn, 70 herskip, 130 flugvélar og þúsundir stríðsökutækja og skriðdreka. Mesta heræfing í Skandinavíu í marga áratugi. Í september var mikil æfing í Úkraínu með þátttöku 3000 frá NATO. Úkraína og Noregur eiga landamæri að Rússlandi. Rússar hafa þegar svarað með 300 þúsnd manna heræfingu í Austur-Síberíu, með þátttöku Kínverja.

Hvað er að gerast? Þetta eru ekki átök kapítalisma og sósíalisma heldur átök auðvaldsblokka. Undir átökunum liggur gróðadrifin heimsvaldastefna, á tíma hnattvæðingar. Tvær tilhneigingar einkenna þróun síðustu tíma:

A) Annars vegar er taflið um heimsviðskiptin, þar sem Bandaríkin með bandamönnum sínum (ESB, Japan) eru á hröðu undanhaldi fyrir nýjum keppinautum, fyrst og fremst Kína í bandalagi við Rússland og önnur nýmarkaðsríki (BRICS). Viðskiptataflið harðnar viðskiptastríð er staðreynd.

B) Hins vegar er svo hernaðartaflið um hnöttinn þar sem ófriðarský hrannast upp. RÚV segir okkur eins og venjulega – og hefur það eftir vestrænu sjónvarpsrisunum – að því valdi vondir einræðisherrar eins og Saddam Hussein, Gaddafi, Assad og nú síðast Pútín, en árásarhneigðin hefur undanfarna áratugi fyrst og fremst komið frá Bandaríkjunum og NATO eftir að kaflaskipti urðu um 1990 með falli Sovétríkjanna. Þá tóku Bandaríkin stefnu á „einpóla heim“ með miðju í Wall Street. NATO þandi sig um alla Austur-Evrópu í áföngum að landamærum Rússlands. Árið 2001 lýstu svo Bandaríkin og NATO yfir svokölluðu „stríði gegn hryðjuverkum“ sem hefur staðið linnulaust síðan í Stór-Miðausturlöndum og valdið gríðarlegri upplausn og flóttamannavanda.

Síðustu fimm ár hafa stórveldaátökin magnast hraðar. Annars vegar er það af því stórveldið Rússland er aftur komið upp á fæturna og ver hagsmuni sína af kappi, hins vegar af því hvað Kína (og önnur nýmarkaðsríki) sækir hratt fram á heimsmarkaði. Við því eiga Bandaríkin og gömlu heimsveldin fyrst og fremst eitt svar: Vígvæðingu. Eins og stundum áður er Rússagrýlan mjög notadrjúg til að kynda undir vígvæðingu, en höfum þá í huga að NATO er eina hernaðarbandalag heims og hernaðarútgjöld Rússa voru árið 2016 aðeins 1/12 af herútgjöldum NATO-ríkja.

Eftir tímabundinn ósigur sósíalismans og með fullkomnari tökum heimsvaldasinna á helstu áróðurs- og heilaþvottatækjum hafa mestu morðingjar heimsins náð að dulbúa hernaðarútrásir sínar sem leiðangra til stuðnings „mannréttindum“ ellegar sem stuðning við „uppreisnir gegn harðstjórn“. Meirihluti svokallaðra vinstri flokka á Vesturlöndum, þ.á.m. á Íslandi, hafa keypt megnið af þessum áróðri.

Fyrir andheimsvaldasinna er allra verst að sama gildir um þá vestrænu friðarhreyfingu sem hefur stundum hefur barist hatrammlega gegn stríðsöflunum (nefnum Víetnam, Írak) en er nú nánast lömuð. Friðarhreyfingin hefur að undanförnu gengið fram undir merkjum ópólitískrar friðarhyggju og siðferðilegrar mannréttindahyggju, en hefur sleppt hugtakinu „heimsvaldastefna“ úr orðaforða sínum.

Baráttan gegn heimsvaldastefnunni er æpandi nauðsyn. Að öðrum kosti blasa við fleiri svæðisbundin stríð og stigmögnun þeirra í átt að stórstyrjöld.

Höfnum markaðsvæðingu í heilbrigðiskerfinu

Landsfundur 6.-7. október 2018

Heilbrigðiskerfi Íslands á nú í vök að verjast, eins og það hefur reyndar gert lengi. Öfl markaðsvæðingar sækja stöðugt á og vilja leyfa meiri einkarekstur, enda gefur það meira í aðra hönd fyrir þau sjálf. Mikilvægt er að fólk sem lætur sér annt um heilbrigðismál í landinu, um velferð og jöfnuð sjúklinga og um hvernig opinberu fé er ráðstafað, standi saman gegn öllum áformum um frekari markaðsvæðingu og snúi við þeirri þróun sem verið hefur, með því að félagsvæða á nýjan leik starfsemi sem þegar hefur verið markaðsvædd.

Tekið hefur verið eftir viðspyrnu heilbrigðisráðherra gegn frekari markaðsvæðingu. Vera má að þar fylgi hugur máli, en þá rekst ráðherrann á þann vegg sem ríkisstjórnarsamstarf með tveim helstu spillingarflokkum Íslands er – og sá veggur lifir ekki sjálfstæðu lífi, heldur er hann rökrétt afleiðing af tækifærisstefnu Vinstrigrænna. Auðvitað fer þessi andstaða fyrir lítið í meirihlutasamstarfi með opinberum markaðshyggjuflokkum. En ekki hvað?

Markaðsvæðing er líka hluti af þeirri hægrisinnuðu efnahagsstefnu sem landið fylgir, og mun fylgja meðan ekki veljast forystuöfl sem stefna á félagsvæðingu. Þannig er aðild landsins að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) beinlínis Þrándur í Götu fyrir félagsvæðingu, fyrir utan að á henni byggist sjálf tilvera Sjúkratrygginga Íslands, með þeirri markaðsvæðingarumgjörð sem hún byggist á, sem er hindrun fyrir félagslega reknu heilbrigðiskerfi. Ef tilskipanir frá EES standa félagslega reknu heilbrigðiskerfi fyrir þrifum, skorum við á stjórnvöld að skrá Ísland úr EES sem skjótast.

Á sama tíma og peningar fossa úr sameiginlegum sjóðum út í einkarekstur, leka þök og deildum er lokað vegna fjárskorts í opinbera kerfinu. Sú ömurlega staða sem Landspítali og aðrar opinberar heilbrigðisstofnanir eru í, er bein afleiðing hægristjórnar í heilbrigðismálum sem hefur verið ríkjandi óslitið síðan fyrir aldamót.

Íslensk alþýða ætti að fylkja sér um þær kröfur, að sporna gegn frekari markaðsvæðingu í heilbrigðiskerfinu og að endurreisa það félagslega rekna heilbrigðiskerfi sem við bjuggum eitt sinn við og eigum að eignast aftur, með félagsvæðingu.

Verjum fullveldi Íslands í orkumálum

Landsfundur 6.-7. október 2018

Landsfundur Alþýðufylkingarinnar 2018 skorar á Alþingi að hafna innleiðingu 3. orkupakka Evrópusambandsins. Með innleiðingu hans yrði haldið áfram markaðsvæðingu orkumála á Íslandi og landið missti yfirráð yfir eigin orkuauðlindum og ráðstöfun þeirra.

Acer, orkustofnun Evrópusambandsins, yrði æðsta stjórnvald í orkumálum, og úrskurðir í málaflokknum yrðu í höndum stofnana ESB. Ísland gæti ekki brugðist við síðari breytingum á málaflokknum heldur þyrfti aðeins að sætta sig við þær.

Með innleiðingu 3. orkupakkans myndi verð hækka á raforku til almennings, en áhrif kapítalískra stórfyritækja myndu aukast. Miklar líkur eru á að rafstrengur yrði lagður til landsins til að tengjast evrópska dreifikerfinu. Það myndi enn hækka verð til almennings og auka þrýsting á virkjun alls sem hreyfist hér á landi.

Breytingar í orkumálum hér á landi ættu frekar að lúta að því að vinda ofan af þeirri markaðsvæðingu, sem þegar hefur verið innleidd, og stefna að því að málaflokkurinn verði félagslega rekinn að öllu leyti.

Stjórnmálaályktun

Landsfundur 11.-12. mars 2017

Nú þegar umsvif og velta aukast í hagkerfinu, kemur glögglega í ljós hvernig markaðskerfi auðvaldins sér um sína.

Undanfarinn áratug hefur íslenskt samfélag gengið í gegnum samdráttar- og þensluskeið og allir þeir flokkar, sem komið hafa að stjórn landsins á þessu tímabili, hafa sameinast um að standa vörð um hagsmuni auðstéttarinnar.

Á þenslutímum makar fjármálaauðvaldið krókinn með auknum umsvifum, spákaupmennsku og aukinni skuldsetningu. Þegar blaðran springur er gróða spákaupmannanna komið í skjól, en skuldunum velt yfir á herðar almennings, um leið og lífskjör alþýðunnar versna á öllum sviðum og velferðin er skorin niður.

Þegar svo umsvif aukast á ný, er þess betur gætt en nokkru sinni fyrr að hagnaður þeirra fari aðeins á fáar hendur, en stærri hluti vinnandi alþýðu situr eftir í fátæktargildru.

Það þykir vart í frásögur færandi þó opinberir íhaldsflokkar fylgi þessari stefnu og tryggi framgang hennar, en yfirlýstir vinstriflokkar hafa hins vegar haft lykilhlutverk í baráttunni fyrir að tryggja hagsmuni auðstéttarinnar. Á árunum 2009-2013, þegar auðvaldið var lamað vegna kreppunnar, komu hinir meintu vinstri flokkar til skjalanna og skáru niður fé til velferðarmála meira en nokkru sinni, ráku þúsundir fátæks fólks út á götu og hjálpuðu spákaupmönnunum að sölsa undir sig eignir þess. Þeir hlóðu undir erlenda auðhringa, veittu þeim skattfrelsi og afslátt í umhverfismálum, og komu bönkunum aftur til einkaaðila til að féfletta þjóðina.

Þegar túristabólan springur, er líklegast að aftur verði leitað til svokallaðra vinstriflokka eða annarra álíka, til að velta kostnaðinum yfir á alþýðuna, og rétta hag auðstéttarinnar á ný.

Til að rjúfa þennan vítahring er nauðsynlegt að gera róttæka stefnubreytingu, sem felur í sér að hagkerfið miðist við verðmætasköpun, aukinn jöfnuð og að grunnþarfir allra verði uppfylltar.

Stórt skref í þá átt er félagsvæðing innviða samfélagsins, þar sem fjármálakerfið er meðtalið. Innviðir samfélagsins verða að vera félagslega reknir, þannig að enginn geti haft af þeim gróða. Það er eina leiðin til að auka jöfnuð og lífsgæði allra í samfélaginu. Það skapar einnig möguleika á að koma böndum á hagvaxtarkröfu kapítalismans, sem að óbreyttu ógnar öllum lífsskilyrðum á jörðinni.

Alþýðufylkingin beitir sér fyrir breytingum í þessum anda, og kallar allar vinnandi stéttir til liðs við þá baráttu. Stéttabaráttan gegn auðvaldinu þarf að ná til allra kima samfélagsins og byggjast á samstöðu verkalýðsstéttarinnar.

Húsnæðisvandinn

Landsfundur 11.-12. mars 2017

Húsnæðisvandinn heldur áfram að aukast og bitnar verst á þeim lægst launuðu. Framboð af húsnæði á höfuðborgarsvæðinu er fjarri því að nægja og ferðaþjónustan tekur of stóran hlut af því. Stærsti vandinn er sá að markaðurinn er látinn stjórna húsnæðismálum almennings.

Samfylkingin og Vinstri græn hafa gagnrýnt svokallaða lánaleiðréttingu frá árinu 2014. Það má til sanns vegar færa að skipting leiðréttingarinnar hafi ekki verið sanngjörn, eða eftir þörfum. Það stafar m.a. af því að ríkisstjórn Samfylkingar og VG var á árunum á undan búin að láta reka láglaunafólk út á götu, þannig að það hafði ekki nein lán til að leiðrétta.

Sannleikurinn er sá að húsnæðisvandi hrunsins var aukinn fremur en leystur af eftirhrunsstjórn Samfylkingar og VG.

Í fyrsta lagi með því að láta byggingaiðnaðinn stöðvast, í stað þess að halda áfram þeim verkefnum sem voru í gangi, á félagslegum forsendum. Þannig hefði mátt koma í veg fyrir landflótta og húsnæðisskort og tryggja félagslega lausn fyrir fleiri í húsnæðismálum.

Í öðru lagi með því að láta bankana reka þúsundir láglaunafjölskyldna út á götuna og styrkja síðan braskarana til að sölsa undir sig eignir þeirra. Á sama tíma gat hálaunafólk fengið milljónir og jafnvel tugmilljónir niðurfelldar af lánum. Láglaunafólkið hefur síðan þurft að þræla fyrir okurleigu og okurvöxtum til að freista þess að halda sér undir þaki.

Við þetta bætist að litlar sem engar skorður eru settar við útleigu íbúðarhúsnæðis til ferðamanna, sem ýtir undir frekari hækkanir húsaleigu og rýrir framboð leiguhúsnæðis fyrir almenning.

Eina leiðin til lausnar á húsnæðisvandanum er sú að losa íbúðarhúsnæði undan stjórn markaðarins og tryggja öllum skýlausan rétt til heimilis með félagslegri fjármögnun.

Ályktun um innflutning á kjöti

Landsfundur 11.-12. mars 2017

Landsfundur Alþýðufylkingarinnar 2017 mótmælir harðlega tilburðum landbúnaðarráðherra til að auka innflutning á kjöti til landsins, til þess eins að auka gróða kaupmanna.

Þessi áform grafa ekki aðeins undan íslenskum landbúnaði, heldur eru þau tilræði við lýðheilsu á Íslandi og heilbrigði búfjár í landinu.

Ráðherra Viðreisnar virðist ætla með ráðherravaldi sínu að ryðja burt einni hindruninni fyrir ESB-aðild, þ.e. að opna landið fyrir innfluttu kjöti svo skaðinn sé skeður þegar næsta lota ESB-aðildar hefst, og minna verði úr vörnum andstöðunnar. Þau áform verður að stöðva.

Verkalýðsmálaályktun

Landsfundur 11.-12. mars 2017

Alþýðufylkingin slær því föstu að stéttarfélögin séu mikilvægustu samtök alþýðu í stéttabaráttunni. En staða verkalýðshreyfingarinnar hefur veikst mjög á seinni árum. Það er alþjóðlegur vandi, t.d. hefur stéttarfélagsaðild í Evrópu minnkað um nærri helming undanfarin 30 ár. Þar ræður mestu hnignun sósíalískra flokka og framrás frjálshyggjunnar, ennfremur hnattvæðing auðmagnsins með frjálsu flæði fjármagns, atvinnu og vinnuafls milli landa og svæða án þess að lög og reglur tryggi hagsmuni vinnandi fólks.

Einn helsti tilgangur hnattvæðingar auðmagnsins er að brjóta niður sk. „reglufargan“, einkum áunnin réttindi verkalýðshreyfingarinnar, og tryggja auðvaldinu sem allra ódýrast vinnuafl. Markaðsfrelsi og flæði ESB/EES birtir hnattvæðinguna í okkar umhverfi. Það er grundvallarverkefni verkalýðshreyfingarinnar að tryggja að erlent farandverkafólk sé á íslenskum kjörum, bæði vegna hagsmuna þess og íslensks launafólks.

Lægð íslenskrar verkalýðsbaráttu orsakast ennfremur af langvarandi stéttasamvinnu sem á sér traustast aðsetur í ASÍ-forustunni. Hún hefur tekið sér það hlutverk að sundra launafólki, m.a. með því að setja inn í kjarasamninga það ákvæði að þeir séu uppsegjanlegir ef aðrar starfsstéttir á eftir knýja fram eitthvað umfram ASÍ-línuna – sem er auðvitað er vopn í höndum andstæðinganna. Stéttasamvinnan birtist líka í lífeyrissjóðakerfinu sem er innmúraður hluti íslensks fjármálakerfis og bindur verkalýðshreyfinguna við verðtryggingu og vaxtaokur bankavaldsins.

Íslensk verkalýðshreyfing er lítilþæg í kjaramálum og skortir auk þess nær alveg stefnu í þjóðfélagsmálum. En frá því að hafa áður kratíska forustu einkennist verkalýðshreyfingin nú af forustuleysi, jafnvel umkomuleysi – þar sem vinstri flokkar okkar daga láta hana afskiptalausa og sýna henni ekki einu sinni áhuga.

Verkföll og kjaraátök síðustu ára eru samt merki um baráttugetu og baráttuvilja í launþegahreyfingunni – í samtökum kennara, heilbrigðisstétta, sjómanna o.fl. Atvinnurekendavaldið, ASÍ-forusta og aðrir forkólfar stéttasamvinnustefnunnar líta á þessa baráttu sem vandamál og hafa staðið fyrir sk. SALEK-viðræðum (hófust 2013) til að koma böndum á slíkt. Samkvæmt hinu nýja „módeli“ á „Þjóðhagsráð“ að reikna fyrirfram út „eðlileg laun“ út frá „stöðu atvinnuveganna“ og sé það bindandi viðmið fyrir samningsaðila og þessu fylgir stóraukið vald ríkissáttasemjara. Launastefnan skal vera samhæfð og miðstýrð. Eftir að slíkt næði fram að ganga yrði samningsréttur stéttarfélaga aðeins svipur hjá sjón.

Að hrinda því tilræði við samningsréttinn sem felst í SALEK er aðeins fyrsta skref af mörgum sem taka þarf til að endurreisa verkalýðshreyfinguna til baráttu gegn æ grófara arðráni og fyrir þjóðfélagslegum markmiðum launafólks.

Kreppa auðvaldsins, heimsvaldastríð og nauðsyn byltingar

Landsfundur 28.-29. nóvember 2015

Almenn kreppa auðvaldins hefur nú farið dýpkandi um árabil og möguleikar þess til vaxtar og þróunar eru tæmdir. Að sama skapi verður afætueðli auðvaldsskipulagsins alls ráðandi og átök fara harðnandi milli stórvelda og bandalaga þeirra um auðlindir og áhrifasvæði. Í þeim átökum er mannslífum fórnað í stórum stíl og velferð fólksins um allan heim höfð að skiptimynt.

Auðvaldsskipulagið getur ekki lifað án þess að þenjast út efnahagslega þannig að gróðinn fari stigvaxandi frá ári til árs. Til að tryggja það er ráðist að kjörum almennings og velferð, og gróðanum safnað á æ færri hendur gegnum fjármálakerfið sem tekur til sín vaxandi hluta gróðans.

Vaxandi fátækt og minnkandi kaupmáttur almennings ýtir undir vítahring kreppunnar sem ógnar vistkerfum jarðarinnar og sjálfri siðmenningunni. Þverstæður kapítalismans verða stöðugt ljósari. Þrátt fyrir aukna tækni og margföldun á framleiðni vinnunnar þá eykst þrældómurinn, fátæktin og félagslegt óöryggi. Þrátt fyrir aukna þekkingu á umhverfi og náttúru eykst umhverfisvá á flestum sviðum, þannig að sífellt stærri svæði jarðarinnar verða óbyggileg, hlýnun af manna völdum er að fara úr böndunum og vistkerfum hrakar.

Að óbreyttu heldur áfram glundroði og upplausn samfélaga. Styrjaldir heimsvaldasinna magnast og leysa upp samfélagsinnviði heilla heimshluta.

Enn sem komið er hefur alþýðan lítið náð að spyrna við þessari þróun. Til að hindra að hún haldi áfram er hins vegar nauðsynlegt að fólkið taki til sinna ráða og sameinist um stefnu sem miðar að því að svipta auðstéttina sínum efnahagslegu og pólítísku yfirráðum í samfélaginu og endurreisa það á félagslegum forsendum. Pólitísk og félagsleg skipulagning með þetta markmið er lífnauðsyn fyrir íslenskt samfélag eins og alls staðar annars staðar. Framtíð mannkyns og siðmenningar er í húfi.

Verjum samningsrétt verkalýðsfélaganna

Landsfundur 28.-29. nóvember 2015

Nýlega bárust fréttir af svokölluðu rammasamkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins um breyttar aðferðir við gerð kjarasamninga þar sem aukin miðstýring verði í forgrunni.

Samkvæmt lögum er samningsréttur verkafólks í höndum einstakra stéttarfélaga. Þetta samkomulag er lítt dulbúin árás á samningsrétt verkalýðsfélaganna og gróf tilraun til að grafa undan honum.

Það er ekki langsótt að halda því fram að samkomulag þetta sé brot á lögum um stéttafélög og vinnudeilur enda koma fram í því hugmyndir um breytingar á þeim lögum.

Allt er þetta gert undir því yfirskini að þannig megi ná betri árangri í bættum kjörum og betri hagstjórn. Reynslan sýnir hins vegar að stéttasamvinnustefnan hefur aldrei skilað neinum árangri til bættra kjara fyrir verkafólk. Það hefur aldrei náð neinu fram án baráttu. Við óbreytt ástand eru lágmarkskjör alþýðunnar hins vegar stillt við hungurmörk til að tryggja auðstéttinni hámarksgróða.

Sú breyting sem helst þarf að gera á vinnumarkaðsmódelinu er að losna við sjálftöku fjármálaauðvaldsins út úr raunhagkerfinu og styðja baráttu vinnandi fólks fyrir réttlátum hlut.

Ályktun um heilbrigðis- og velferðarmál

Landsfundur 28.-29. nóvember 2015

Landsfundur Alþýðufylkingarinnar 2015 lýsir beiskri gremju yfir þeirri hörðu sveltistefnu sem íslenska heilbrigðiskerfið hefur verið rekið eftir um langt árabil og miðar að vaxandi einkavæðingu. Undirmönnunarstefnan: að þræla starfsfólkinu út við vinnu sem krefst vandvirkni og árvekni - sparar kannski aurinn, en kastar krónunni, því hún er þjóðinni dýrkeypt. Nirfilshátturinn: að endurnýja ekki tækjakost Landspítala og annarra sjúkrahúsa sem skyldi, heldur nota biluð og jafnvel úrelt tæki - er sama marki brennd. Niðurníðslustefnan: að spara í viðhaldi húsa - þýðir að sjúkrahúsin liggja undir skemmdum og miklu dýrara verður að laga þau heldur en ef þeim hefði verið við haldið samfellt. Áformin um að byggja fokdýrt, nýtt háskólasjúkrahús á óhentugum stað - áform sem líta út fyrir að vera óstöðvandi - virðast klikkuð, en skiljast þegar fjármögnunin er tekin með í reikninginn: að brasksjóðir atvinnurekenda- og verkalýðsaðalsins fái tækifæri til að fjárfesta í byggingum og leigja þær svo ríkinu með öruggum tekjum áratugi fram í tímann - það er hvöt sem við berum kennsl á. Þar ræður ágirnd og gróðafíkn fjármagnsins för, en ekki hagsmunir sjúklinga eða almennings.

Sjúkrahús verður ekki rekið án þess að hafa nóg af hæfu starfsfólki. Það hefur verið ótrúlegt að sjá aðfarir sitjandi ríkisstjórnar í kjaradeilum við heilbrigðisstéttir: lækna, hjúkrunarfræðinga, ljósmæður, geislafræðinga, sjúkraliða ásamt fleiri stéttum úr BHM, SFR og fleiri stéttarfélögum. Það þarf ekki glöggan skilning til að sjá að ríkisstjórn sem þrjóskast við að veita þessum stéttum tímabærar og verðskuldaðar launaleiðréttingar, sem setur lög á verkföll í heiðarlegri kjarabaráttu vinnandi fólks, sem hýrudregur ljósmæður og sjúkraliða í verkfalli, sem hikar ekki við að beita fyrir sig sjúklingum sem hún ber sjálf ábyrgð á, þegar öllu er á botninn hvolft, en er auk þess sem bíræfin að segja verkfallsfólk taka gísla, slík ríkisstjórn stjórnar í fullum fjandskap við hagsmuni alþýðunnar, hvort sem alþýðan er heilbrigðisstarfsfólk, sjúklingar, aðstandendur sjúklinga eða bara fólk sem vill hafa þokkalegt heilbrigðiskerfi í landinu.

Borgaralegir stjórnmálaflokkar tönnlast á því að endurreisa íslenska heilbrigðiskerfið. Ekki er þó sýnt að neinn þeirra sé líklegur til að gera það. Eftir stendur, að sú endurreisn er eitt mest aðkallandi hagsmunamál þjóðarinnar. Við höfum ekki efni á að láta heilbrigðiskerfið drabbast niður. Það þarf ekki bara að endurreisa Landspítalann, heldur líka hin sjúkrahúsin í landinu, ásamt heilsugæslunni - auk systurkerfis heilbrigðiskerfisins, velferðarkerfisins, þar sem aldraðir, öryrkjar og fleiri þjóðfélagshópar sem þurfa sérstakan stuðning, liggja óbættir hjá garði. Lykillinn að því að endurreisa þessa máttarviði þjóðfélagsins er félagsvæðing heilbrigðis- og velferðarkerfisins, sem og félagsvæðing fjármálakerfisins. Sú síðastnefnda losar um fjármagn, sem núna rennur úr opinberum sjóðum í óseðjandi hít gróðadrifins fjármálakerfis, og væri betur komið í þágu heilsu og velferðar. Félagsvæðing heilbrigðis- og velferðarkerfisins mundi beina fjármunum mest þangað sem þjónustunnar er mest þörf ásamt því að stórdraga úr einkarekstri í heilbrigðiskerfinu og skrúfa fyrir að hið opinbera borgi fyrir gróða sem er tekinn út úr einkarekinni starfsemi. Fyrsta flokks heilbrigðisþjónusta er mannréttindi, og á að vera í boði fyrir alla án endurgjalds.

Húsnæðiskreppan

Landsfundur 28.-29. nóvember 2015

Stefna íslensku auðstéttarinnar er að nota húsnæðisþörf fólksins sem féþúfu sem gefur af sér hámarksgróða. Í meira en 30 ár hefur almenningur borgað margfalt fyrir íbúðir sínar með okurvöxtum.

Ríkisstjórnin sem sat kjörtímabilið 2009-2013 sá þá lausn helsta á skuldavanda almennings að reka þá fátækustu út á götuna og neyða þá til að borga himinháa húsaleigu m.a. með því að hindra aðgang að lánsfé nema til braskara.

Hlutfall leigjenda hefur hækkað úr um 15% í 25-30% á örfáum árum. Það er ekki vegna óska þessa fólks um að verða leigjendur heldur er það þvingað til þess svo hægt sé að féfletta það enn frekar.

Þannig er stór hluti þjóðarinnar fastur í fátæktargildru og ofurseldur leiguþrældómi. Ungt fólk getur ekki flutt úr foreldrahúsum. Þetta er ein meginástæða þess að fjöldi ungs fólks hefur flutt úr landi á þessu ári þó að margt af því hafi getað fengið vinnu hér.

Eina leiðin út úr húsnæðiskreppunni er sú sem Alþýðufylkingin hefur boðað, með félagsvæðingu fjármálakerfisins. Skref í þá átt gæti verið að allir geti fengið vaxtalaust lán að vissri upphæð af samfélagslegu eigin fé til húsnæðiskaupa.

Að sama skapi þarf að vera nægt framboð á félagslegu húsnæði án fjármagnskostnaðar til að uppfylla þörf fyrir leiguhúsnæði.

Ályktun um stríðið gegn fíkniefnum og áhrif þess á Íslandi

Landsfundur 28.-29. nóvember 2015

Bandaríkin voru fyrsta land heimsins, sem lýsti yfir stríði gegn fíkniefnum á 7. áratug síðustu aldar en önnur lönd fylgdu fljótlega á eftir. Á Íslandi voru sett lög um bann við fíkniefnum rétt fyrir 1970 en núverandi löggjöf byggir á heildarlögum nr. 65 frá 1974 með síðari tíma breytingum.

Nú eru 41 ár liðin frá því að núverandi fíkniefnalöggjöf var samþykkt á Alþingi og enn geisar fíkniefnastríðið sem aldrei fyrr. Á meðan fíkniefnaneytendur eru dæmdir glæpamenn um aldur og eilífð, og einhver versti HIV faraldur í Evrópu geisar meðal íslenskra sprautusjúklinga, er fíkniefnamarkaðurinn, bæði innflutningur, dreifing og sala, í höndum glæpalýðs, sem einskis svífst og veltir tugmilljörðum árlega - skattfrjálst!

Á sama tíma hafa nokkrar þjóðir, svo sem Hollendingar, Portúgalir og Svisslendingar tekið upp svokallaða skaðaminnkunarstefnu. Í þessum löndum og fleiri er litið á fíkniefnavandann sem heilbrigðismál en ekki glæpamál, t.d. eru sprautufíklar meðhöndlaðir sem sjúklingar en ekki glæpamenn, og ungmenni missa ekki æruna ævilangt þó að þau hafi í fórum sínum eitthvað lítilræði af t.d. kannabis.

Stríðið gegn fíkniefnum hefur á heimsvísu drepið fleiri og kostað skattborgarana meira en árásarstríð Bandaríkjanna í Afganistan og Írak samanlagt.

Stríðið gegn fíkniefnum minnir um margt á bannárin, bæði hérlendis og vestanhafs, þegar áfengi var bannað, með öllum þeim hörmungum sem banninu fylgdu.

Nýgengi HIV-smits á Íslandi hefur minnkað frá því að toppnum - eða botninum - var náð á árunum 2011-2012. Þetta á sennilega einnig við um nýgengi meðal sprautusjúklinga og er það m.a. afleiðing af skaðaminnkunarstarfi Rauða kross Íslands, sem skipulagði átakið Frú Ragnheiði án stuðnings og jafnvel í óþökk íslenskra heilbrigðisyfirvalda.

Þjóðfélag, sem lítur á sjúklinga sem glæpamenn, er þjóðfélag án mannúðar. Það verður að afglæpavæða neyslu fíkniefna og líta á fíkniefnavandann sem heilbrigðisvandamál. Alþýðufylkingin mun beita sér fyrir skaðaminnkun og mannúðarstefnu í fíkniefnamálum.

Hið þríeina stríð gegn borgaralegum mannréttindum og frelsi

Landsfundur 28.-29. nóvember 2015

Á undanförnum árum og áratugum hafa Bandaríkin lýst yfir stríði gegn fíkniefnum og hryðjuverkum og hafið stríð gegn internetinu án sérstakrar stríðsyfirlýsingar. Önnur lönd, sem höll eru undir bandarísk heimsyfirráð, hafa fylgt í kjölfarið en enn fremur taka mörg önnur lönd þátt í þessum sömu stríðum, hvert með sínum formerkjum og nægir þar að nefna þátttöku Rússlands og Kína í stríðinu gegn internetinu.

Stríðið gegn fíkniefnum drepur milljónir sjúklinga á hverju ári, stimplar neytendur sem glæpamenn og leyfir glæpaklíkum að einoka markaðinn, oft með skelfilegum afleiðingum fyrir saklausa borgara. Það er í nafni þessa stríðs sem íslensk ungmenni eru gerð ærulaus, finnist þau með korn af kannabis í fórum sínum.

Stríðið gegn hryðjuverkum drepur hundruð þúsunda saklausra borgara árlega, heldur þjóðum í herkví og takmarkar gróflega frelsi flugfarþega, sem eru meðhöndlaðir sem glæpamenn við vopnaleit. Það var í nafni þessa stríðs sem ráðamenn Íslands gerðust stríðsglæpamenn í Írak.

Stríðið gegn internetinu veldur því að fólk eins og Chelsea Manning situr í fangelsi, Edward Snowden er landflótta og Julian Assange má sig hvergi hræra af ótta við að verða framseldur til Bandaríkjanna - fyrir það eitt að leka upplýsingum. Í nafni öryggis, bannhyggju og forvarna er aðgangi almennings að upplýsingum eða að koma frá sér upplýsingum lokað eða reynt að loka víðsvegar í heiminum. Það er í nafni þessa stríðs þegar íslenskir ráðamenn ætla að loka fyrir aðgang almennings að hluta internetsins.

Öll þessi stríð ber að sama brunni: Að skerða borgaraleg réttindi. Þess vegna má líta á þessi þrjú stríð sem þrjár greinar á sama meiði, þ.e. stríð gegn frelsi borgaranna.

Alþýðufylkingin mun beita sér fyrir því að Ísland dragi sig út úr stríðinu gegn fíkniefnum og stríðinu gegn hryðjuverkum, m.a. með úrsögn úr NATO og gerbreyttri afstöðu til stefnu Vesturlanda í málefnum Miðausturlanda, og að á Íslandi verði sérstakt skjól fyrir upplýsingaveitur internetsins.

Ályktun um útþenslu Nató

Framkvæmdastjórn 21. september 2015

Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar fordæmir áform um frekari útþenslu á starfsemi hernaðarbandalagsins Nató.

Nató er stærsta ógnin við friðsamlega sambúð þjóða og hefur kynt undir ófriði um allan heim undafarna áratugi, ýmist í eigin nafni eða einstök ríki bandalagsins.

Innrásir Natóríkja og íhlutun í löndum Arabaheimsins hafa leitt af sér samfélagslega tortímingu í mörgum löndum og vakið upp drauga sem erfitt verður að kveða niður.

Áframhaldandi útþensla Nató til austurs og íhlutun þess í Úkraínu er samtímis brot á fyrri samningum og mjög háskaleg ógnun við heimsfrið.

Þeim fjármunum sem íslensk stjórnvöld ætla að bæta við í útþenslu Nató væri betur varið til annarra verkefna. Það eina rétta væri að að Ísland segði sig úr Nató og snéri baki við glæpaverkum bandalagsins.

Ályktun um málefni Rússlands og Úkraínu

Framkvæmdastjórn 3.9. 2015

Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar mótmælir harðlega stefnu ríkisstjórnar Íslands varðandi málefni Rússlands og Úkraínu.

Málið snýst ekki um viðskiptahagsmuni þeirra sem selja matvæli til Rússlands. Það er hins vegar forkastanlegt að ríki sem kennir sig við lýðræði og mannréttindi skuli án gagnrýni styðja ólöglega valdatöku fasista í Kænugarði í febrúar 2014.

Fasistastjórnin í Úkraínu gengur erinda heimsvaldasinna, með Evrópusambandið og Bandaríkin í fararbroddi, og brýtur mannréttindi á eigin borgurum, ekki síst þeim rússneskumælandi.

Viðskiptabann Evrópusambandsins og Bandaríkjanna gegn Rússlandi er óréttmætt og þjónar einungis þeim tilgangi að auka spennu og kynda undir átökum. Íslandi ber því að hætta stuðningi við viðskiptabannið og taka aftur upp eðlileg samskipti við Rússland, sem áratugum saman hefur sýnt Íslandi vinsemd.

Ályktun um verkalýðsmál

Framkvæmdastjórn 3.9. 2015

Alþýðufylkingin leggst eindregið gegn hugmyndum Samtaka atvinnulífsins og ASÍ-forystunnar um það sem þeir kalla „nýjar leiðir í kjarasamningum til að tryggja frið á vinnumarkaði og raunverulegar kjarabætur“.

Hið nýja „vinnumarkaðsmódel“, eins og það er kallað er ekkert annað en aðför atvinnurekenda að verkfalls- og samningsrétti launafólks, með fullum stuðningi verkalýðsforystunnar í landinu.

Alþýðufylkingin harmar að ASÍ-forystan skuli enn vera við „stétt-með-stétt“ heygarðshornið og skorar á forystu BSRB að láta ekki teyma sig út í fúafenið.

Ályktun til stuðnings Landverndar og gegn rányrkju

8. maí 2015, framkvæmdastjórn

Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar tekur undir baráttu Landverndar og fleiri samtaka gegn rányrkju á íslenskri náttúru til orkuframleiðslu og sérstaka áherslu ber að leggja á baráttu gegn lagningu rafmagnssæstrengs til Skotlands. Slíkur strengur mundi auka þrýsting á að allt verði virkjað sem mögulegt er og auk þess er hefði hann í för með sér stórhækkun á orkuverði til íslenskra heimila.

Á fyrsta áratug aldarinnar var raforkuframleiðslan í landinu tvöfölduð og fyrir fáum árum hafði Íslandsbanki áform um að fjármagna aðra tvöföldun fram til 2024. Þar með væru allir möguleikar tæmdir og kannski gott betur. Þessir tilburðir eru ekki til þess að uppfylla vaxandi orkuþörf heldur fyrst og fremst til að uppfylla þörf fjármagnseigenda og fjármálafyrirtækja til að koma fjármagni í ávöxtun. Fyrir því verður að verja íslenska náttúru með öllum ráðum.

Ályktun um verkfallsrétt

Alþýðufylkingin 1. maí 2015

Alþýðufylkingin varar við hugmyndum fjármálaráðherra um endurskoðun á verkfallsréttinum,sem eru ekkert annað en illa dulbúin ósk íhaldsaflanna um afnám þessa sama réttar. Minna má á að Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, hótaði flugumferðastjórum lögum á verkfallsréttinn árið 2001 og aðrar stéttir hafa fengið svipaðar hótanir gegnum árin.

Verkfallsrétturinn er eina vopnið, sem bítur í kjarabaráttu launafólks. Honum er aldrei beitt nema í neyð og bitna verkföll alltaf á báðum aðilum hvað svo sem formaður Sjálfstæðisflokksins heldur fram. Þá hljóta verkföll alltaf að bitna með beinum eða óbeinum hætti á ótengdum aðilum, enda getur hreinlega ekki hjá því farið að víðtækar verkfallsaðgerðir einnar eða fleiri stétta hafi víðtæk áhrif í þjóðfélaginu, enda væru verkföll þá til lítils ef þau hefðu ekki áhrif og mynduðu því ekki þrýsting úr sem flestum áttum á viðsemjendur, hverjir sem þeir eru.

Ályktun um verkföll

Framkvæmdastjórn 17. apríl 2015

Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar lýsir yfir fullum stuðningi við boðun verkfalla hjá verkalýðsfélögunum í landinu og hvetur til að þeim verði fylgt eftir til sigurs.

Efnahagslegur og félagslegur ójöfnuður í landinu hefur vaxið jafnt og þétt undanfarna áratugi og er orðinn algerlega óþolandi. Þar vegur ekki þyngst mismunur milli starfsgreina heldur ójöfnuður milli vinnandi fólks og auðstéttarinnar sem mergsýgur samfélagið.

Nýlegir atburðir varpa skýru ljósi á viðhorf auðstéttarinnar til þeirra sem skapa henni auðinn. Sannleikurinn er hins vegar sá að hún kemst ekki af án verkafólksins en við komumst betur af án auðstéttarinnar.

Í því ljósi ættu öll verkalýðsfélög í landinu að sameinast í baráttu fyrir stórfelldum launahækkunum þeirra lægst launuðu og miklu átaki til aukins jafnaðar. Eignarhald HB Granda og annarra auðfyrirtækja á atvinnutækjum og uppsöfnuðu auðmagni er ekki sjálfgefið.

Ályktun um viðræðuslit við ESB

Framkvæmdastjórn 18. mars 2015

Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar lýsir yfir stuðningi við að aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði slitið. Því fyrr, þess betra. Þótt við styðjum efnislega ákvörðun Gunnars Braga Sveinssonar, gagnrýnum við málsmeðferðina. Það hlýtur að teljast til meiriháttar utanríkismála að slíta aðildarviðræðum við ESB og því ætti ráðherra ekki að gera það einn. Málsmeðferðin hefur ekki bara þann galla að gera lýðræðislegt gildi ákvörðunarinnar hæpið, heldur mistekst fyrir vikið líka að kveða umsóknina niður í eitt skipti fyrir öll. Betur hefði farið á að lýsa því yfir fyrir kosningar að þetta stæði til. Fyrir síðustu Alþingiskosningar lýstu talsmenn Alþýðufylkingarinnar því yfir í viðtölum að við mundum umsvifalaust slíta viðræðunum ef við fengjum til þess fylgi. Íslenskir kjósendur geta treyst því í næstu kosningum, eins og þeim síðustu, að atkvæði greitt Alþýðufylkingunni er atkvæði fyrir fullveldi Íslands.

Ályktun vegna nýafstaðinna borgarstjórnarkosninga

Framkvæmdastjórn 4. júní 2014

Alþýðufylkingin þakkar þeim 219 Reykvíkingum sem greiddu henni atkvæði á laugardaginn. Sem kunnugt er, náðum við ekki manni kjörnum í borgarstjórn, en við erum ánægð með að hafa vakið athygli á stefnu okkar, félagsvæðingunni.

Við munum því halda ótrauð áfram að koma málstaðnum á framfæri og byggja upp eina sósíalíska flokk á Íslandi. Næst verðum við betur undirbúin og bjóðum áhugasömum að ganga til liðs við okkur: Látið ekki ykkar eftir liggja, sósíalisminn byggist ekki upp af sjálfu sér heldur aðeins í gegn um vinnu og baráttu, og nóg er af því framundan.

Ályktun um skaðaminnkunarstefnu í eiturlyfjamálum

Framkvæmdastjórn 25. maí 2014

Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar lýsir yfir stuðningi við þingsályktun þá sem Alþingi samþykkti þann 16. maí sl. og óskum þingflokki Pírata og öðrum flutningsmönnum til hamingju með hana. Það er löngu tímabært að endurskoða hvernig tekið er á fíkniefnavandanum á Íslandi og þar hlýtur skaðaminnkun að vera bæði mannúðlegri og árangursríkari nálgun heldur en refsistefna. Fíkn er sjúkdómur, ekki glæpur, og ber því fyrst og fremst að meðhöndla sem heilbrigðisvandamál.

Stjórnmálaályktun

Landsfundur 8.-9. nóvember 2013

Á meðan öll ráðandi öfl í samfélaginu láta í veðri vaka að kreppan sé liðin hjá heldur hún áfram að veikja hag þeirra fátæku. Kreppan er ekki liðin hjá og að öllum líkindum á hún eftir að dýpka talsvert.

Þessi kreppa er ekki bara efnahagskreppa, heldur er auðvaldskerfið í alhliða kreppu, sem er bæði efnahagsleg, pólitísk og siðferðisleg og leiðir af sér mestu vistkreppu sem mannkynið hefur nokkurn tíma staðið frammi fyrir.

Orsök þessa alls er arðránið sem efnahagskerfi kapítalismans byggist á. Vaxandi kapítal þarf á vaxandi fjárfestingartækifærum að halda og til að svo megi verða er slakað á kröfum í umhverfismálum, skorin niður velferðin og kjör almennings. Þetta höfum við séð undanfarin ár og það heldur áfram á meðan orsakir kreppunnar eru enn alls ráðandi. Samfylkingin og Vinstrigræn fengu sögulegt tækifæri á síðasta kjörtímabili, en notuðu það fyrst og fremst til að sanna auðvaldinu tryggð sína í verki með stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar, metniðurskurði í velferðarmálum og á margan annan hátt að velta afleiðingum kreppunnar yfir á alþýðuna.

Stærsta kosningaloforð núverandi ríkisstjórnar er dæmt til að verða svikið þar sem ekki stendur til að gera þær breytingar á fjármálakerfinu sem létt geta vaxtaokrinu af almenningi. Það mun valda miklum vonbrigðum eins og krataflokkarnir hafa þegar gert vegna síðustu ríkisstjórnar sem engu breytti. Framundan má því búast við pólitískri ólgu og upplausn, sem vakið getur upp hættu á fasisma og hvers konar ógn.

Eina leið samfélagsins út úr þeim kreppufarvegi sem það er í felst í stefnu Alþýðufylkingarinnar um aukið vægi hins félagslega í samfélaginu á kostnað markaðsstýringar og að efla hagsmunabaráttu alþýðunnar. Fyrir þeirri stefnu verður að nást breið samstaða meðal vinstra fólks og alls almennings. Til að ná málefnalegri samstöðu er heiðarleg umræða nauðsynleg, hvort sem hún nær til einstakra afmarkaðra mála eða almennrar stefnu. Það er á ábyrgð allra vinstri manna að leitast við að byggja upp slíka samstöðu. Alþýðufylkingin mun ekki skorast undan þeirri ábyrgð.

Ályktun um heilbrigðismál

Landsfundur 8.-9. nóvember 2013

Fyrsta flokks heilbrigðisþjónusta er krúnudjásn hvers siðmenntaðs þjóðfélags sem vill kenna sig við velferð.

Íslensk heilbrigðisþjónusta er nú að molna niður og borgaralegir stjórnmálaflokkar virðast ekki eiga aðrar lausnir fyrir hana heldur en að kenna hver öðrum um, þó þeir eigi allir sinn skerf af sökinni í gegn um margar undangengnar ríkisstjórnir í röð. Þótt kerfið þoli kannski aukið álag í einhverjar vikur eða mánuði, gerir það það ekki í mörg ár. Þegar svo er komið að álagið á kerfinu og þeim sem starfa við það er þegar búið að valda dauða fólks sem hefði mátt bjarga, þá er orðið of seint að afstýra slysi. Slysið er byrjað og það þarf að stöðva það áður en meira illt hlýst af.

Landsfundur Alþýðufylkingarinnar, haldinn í Friðarhúsi 8.-9. nóvember 2013, ályktar að það eigi tafarlaust að veita heilbrigðiskerfinu það fjármagn sem þarf til þess að endurreisa þjónustu sjúkrahúsa á landsbyggðinni, til að endurreisa þjónustu Landspítalans og til að endurreisa heilsugæsluna. Þar með talið er mikið fé sem vantar til tækjakaupa og til að hækka laun heilbrigðisstétta og ráða fleira fólk til að létta álagi af þeim sem fyrir eru.

Lykillinn að endurreisn heilbrigðiskerfisins er félagsvæðing. Annars vegar í heilbrigðiskerfinu sjálfu, hins vegar í hagkerfinu almennt. Í heilbrigðiskerfinu sjálfu þýðir félagsvæðing að öll heilbrigðisstarfsemi sé félagslega rekin, af hinu opinbera eða öðrum félagslegum öflum, svo fjármunir og mannafli nýtist betur, þannig að „hagur almennings og samfélagsins í heild verði í öndvegi, viðkomandi starfsemi lúti lýðræðislegum ákvörðunum og stefnumörkun og enginn geti haft hana sér að féþúfu“, eins og segir í stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar. Það þarf að ormahreinsa kerfið til að losa það við afætur sem fleyta rjómann: Hið opinbera þarf sjálft að veita kerfinu fjármálaþjónustu til að spara því vaxtakostnað. Kerfið þarf sjálft að eiga húsnæðið sem það starfar í, frekar en að leigja af einkafyrirtækjum. Félagslega reknar heilbrigðisstofnanir ættu sjálfar að taka sig saman um að flytja inn eða framleiða lyf og önnur hjúkrunargögn og miðla þeim. Aðkeyptri þjónustu ætti að halda í lágmarki og ekki úthýsa öðru en gróðasólgnum krumlum auðvaldsins.

Það borgaralega og andfélagslega viðhorf hefur um árabil ríkt á Íslandi að líta á almannaþjónustu, á borð við heilbrigðiskerfið, sem byrði á þjóðfélaginu, en ekki sem lífskjarabætandi og útgjaldasparandi mannréttindi. Það er byrði að lifa við slæma heilsu og fá ekki þau bjargráð sem þarf til að batna eða lifa með reisn. Það er byrði fyrir þjóðfélagið ef fjölda fólks er haldið í slæmri heilsu eða bágum kjörum vegna þess að ríkið vilji „spara“ eða þykist ekki „hafa efni á“ að reka almennilegt heilbrigðiskerfi.

Það eru gömul sannindi að betra er heilt en vel gróið. Þess vegna ber að leggja mikla áherslu á að byggja upp heilsugæsluna, þar sem fyrst er tekið á móti fólki sem þarf hjálp lækna eða annars heilbrigðisstarfsfólks, og bæta þarf lýðheilsu, forvarnir og aðrar fyrirbyggjandi ráðstafanir sem forða fólki frá veikindum. Þjónusta tannlækna og sálfræðinga ætti að vera félagsleg og gjaldfrjáls, eins og önnur heilbrigðisþjónusta.

Ályktun um rafmagnssæstreng

Landsfundur 8.-9. nóvember 2013

Landsfundur Alþýðufylkingarinnar, haldinn 8.-9. nóvember 2013, hafnar alfarið framkomnum hugmyndum um lagningu rafmagnssæstrengs mili Íslands og Skotlands. Jafnvel þó að slík sæstrengslögn væri tæknilega möguleg þá myndi fjárfesting af þeirri stærðargráðu kalla á stórfellda rányrkju á íslenskum orkuauðlindum og stórhækkun á raforkuverði innanlands. Ennfremur sýnir reynslan að framkvæmdir af þessu tagi verða notaðar til að auka einkavæðingu í raforkumálum þannig að gróðinn af aukinni veltu verði einkavæddur en kostnaðinum af fjárfestingunni velt yfir á almenning. Mikilvægt er að koma í veg fyrir þessa framkvæmd sem fyrst þar sem erfiðara er að stöðva hana á síðari stigum.

Ályktun um lífeyrismál

Landsfundur 8.-9. nóvember 2013

Lífeyriskerfið á Íslandi er tímasprengja. Frá árinu 1970 hefur því verið haldið fram að sjóðssöfnun og ávöxtun lífeyrissjóðanna sé haldreipi samfélagsins og trygging fyrir því að hægt verði að greiða lífeyri til aldraðra og öryrkja.

Kreppan hefur þó sýnt forsmekkinn af veruleikanum. Þó að iðgjöld hafi verið hækkuð er nú hvatt til frekari hækkana, jafnvel í allt að 20% af launum til að standa undir lífeyrisskuldbindingum. Það mun þó heldur ekki duga því að drjúgur hluti fjárins mun óhjákvæmilega halda áfram að glatast með töpuðum fjárfestingum í kreppunni, enda eru þeir notaðir sem ruslafata fyrir ónýt verðbréf þegar þörf krefur. Öruggustu fjárfestingar lífeyrissjóðanna felast í því að féfletta sjóðfélagana sjálfa gegnum okur á húsnæðislánum og spyrja má hvort það sé ekki dýrkeyptur lífeyrir. En gróðinn af vaxtaokrinu á sjóðfélögunum fer að miklu leyti í súginn í spákaupmennsku á fjármálamörkuðum, enda eru fjárfestingatækifæri í verðmætaskapandi starfsemi aðeins brot af því sem lífeyrissjóðirnir þurfa. Til að fjárfestingar sjóðanna í atvinnufyrirtækjum skili nægilegri ávöxtun til að standa undir lífeyri er nærtækt ráð að lækka laun. Þannig sitja „verkalýðsforingjarnir“ báðu megin við borðið og meta yfirleitt hagsmuni lífeyrissjóðanna meira en kjarabætur.

Nú þegar nálgast að lífeyrissjóðirnir hafi starfað sem nemur einni starfsævi og eigi því að hafa náð fullum styrk koma veikleikar þeirra í ljós með skerðingu lífeyris sem aðeins mun aukast, sérstaklega hjá láglaunafólki. Lífeyrissjóðirnir hafa hins vegar alltaf aukið ójöfnuð, bæði með því að framlengja launaójöfnuð fram á grafarbakkann með ójöfnum greiðslum úr sjóðunum, og einnig með því að þeir sem fá háar greiðslur úr lífeyrissjóðum losna undan margvíslegum skerðingum sem greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins eru ofurseldar.

Alþýðufylkingin berst fyrir því að komið verði á samræmdu félagslegu lífeyriskerfi sem tryggi öllum sömu upphæð til framfærslu sem þess þurfa með, hvort sem ástæðan er öldrun, örorka, veikindi, atvinnuleysi eða annað. Reynt verði að skapa öllum skilyrði til að virkja starfsfærni sína í þágu samfélagsins. Starfslok verði sveigjanleg og að nokkru háð vilja hvers og eins. Þessi stefna er nauðsynleg til að skapa jöfnuð og samstöðu í samfélaginu og vinda ofan af eyðileggjandi spákaupmennsku.

Ályktun um húsnæðismál

Landsfundur 8.-9. nóvember 2013

Stærsti kostnaðarliður íslenskra alþýðuheimila er húsnæðiskostnaður. Þar hefur kreppan líka komið einna harðast niður á flestum. Stærsti hluti húsnæðiskostnaðar eru vextir. Það á jafnt við hvort sem folk býr í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði.

Undanfarna áratugi hefur hátt í 90% þjóðarinnar búið í eigin húsnæði, sem yfirleitt hefur verið ódýrara þrátt fyrir háan vaxtakostnað, en einnig vegna þess hve leigumarkaðurinn er ótryggur. Í upphafi kreppunnar tapaði stór hópur almennings aleigunni við hækkun á lánum og lækkun á húsnæðisverði. Þeir ríku og tekjuháu fengu háar upphæðir afskrifaðar af lánum, en þúsundir þeirra sem verst standa hafa verið hraktir út á leigumarkaðinn sem stígur lóðbeint upp í verði en fjárfestar safna fasteignum. Þannig eru sveiflur á fasteignamarkaði alltaf notaðar til að auka arðránið á alþýðunni.

Húsnæði er grunnþörf sem samfélagið verður að tryggja aðgang allra að án þess að það íþyngi fólki fjárhagslega. Eina leiðin til þess er að allir eigi rétt á félagslegri fjármögnun íbúðarhúsnæðis að vissu marki, fjármögnun sem væri fengin með samfélagslegu eigin fé. Það myndi spara mikið fé og gæti verið skref í átt að félagsvæðingu fjármálakerfisins.

Ályktun um umhverfismál

Landsfundur 8.-9. nóvember 2013

Umhverfismálin eru brýnustu úrlausnarefni samtímans. Vistkerfum jarðarinnar er ógnað í sífellt vaxandi mæli úr öllum áttum þannig að lífsskilyrði á jörðinni eru í mikilli hættu.

Vandamálin birtast m.a. í rányrkju á auðlindum, auknu magni gróðurhúsalofttegunda í andrúmslofti og súrnun sjávar, þynningu ósonlagsins og mikilli uppsöfnun þrávirkra úrgangsefna sem komið er fyrir í mörgum af fátækustu löndum heims. Helstu orsakir umhverfisvandans stafa af sókn auðstéttarinnar eftir hámarksgróða. Með því að auka framleiðslu stöðugt er gengið hratt á auðlindir jarðarinnar á kostnað komandi kynslóða. Víða er stór hluti framleiðslu og flutninga knúinn áfram með jarðefnaeldsneyti, sem hefur undanfarnar tvær aldir safnað svo miklu af gróðurhúsalofttegundum í andrúmsloftið að hlýnun jarðar er komin að bráðum hættumörkum.

Með alþjóðavæðingu auðmagnsins er framleiðsla flutt heimshorna á milli eftir því hvar vinnuaflið er ódýrast og umhverfisvernd er minnst. Þetta kostar mikla flutninga með hráefni og síðar með vörur á markað. Einnig hefur þetta í för með sér að samfélag sem verður háð viðkomandi starfsemi hefur tilhneigingu til að slaka á kröfum í umhverfismálum til að missa ekki frá sér störf. Eins er umhverfisverndarsinnum oft stillt upp frammi fyrir spurningunni hvort þeir vilji stuðla að atvinnuleysi og á hverjum það bitni.

Ráðandi stéttir reyna að stilla upp umhverfismálunum þannig að lausn þeirra sé einstaklingsbundin og ráðist af hugkvæmni og samvisku hvers og eins við sorpflokkun o.fl. Einnig reyna þær að auka forréttindi sín með því að binda rétt til mengunar við kvóta sem gengur kaupum og sölum. Þannig reynir auðstéttin að kaupa sig frá vandanum sem þó heldur áfram að aukast.

Öll helstu umhverfisvandamál og ógnanir við vistkerfi heimsins eiga sér frumorsök í eðli og hagsmunum auðstéttarinnar og kröfu hennar um sífelldan hagvöxt og hámarksgróða. Aukin velta í hagkerfinu knýr fram aukna ásókn í auðlindir og orkunotkun til að byggja undir hagvöxtinn. Þetta er tilfellið þó svo að offramleiðsla hafi verið á heimsvísu undanfarna áratugi. Lausnir umhverfisvandamálanna verða að byggjast á samfélagslegum lausnum og ákvörðunum, bæði pólitískum og tæknilegum, sem ekki stjórnast af gróðamöguleikum auðmanna.

Til að stemma stigu við aðsteðjandi umhverfisvanda er nauðsynlegt að losa samfélagið undan oki hins gróðadrifna fjármálakerfis. Þegar fjármálakerfið verður rekið á félagslegum grunni án þess að soga til sín öll verðmæti úr hagkerfinu verður svigrúm til að auka fjölbreytni í atvinnu og verðmætasköpun, sem þá þarf ekki að standa undir himinháum fjármagnskostnaði. Þannig minnkar þörfin fyrir orkufreka flutninga með vörur heimshorna á milli.

Framleiðsla miðast meira við þarfir fólksins en ekki þarfir auðmagnsins fyrir sífellt auknar fjárfestingar til að ávaxta aukinn gróða.

Þetta er lykillin að því að vinda ofan af umhverfisógninni og koma á sjálfbæru samfélagi sem ekki gengur á rétt komandi kynslóða með græðgi fámennrar auðstéttar. Vaxandi hreyfing í samfélaginu tekur umhverfismálin alvarlega og vinnur ötult starf til lausnar á þeim. Til að auka árangur þess og til að bjarga jörðinni út úr vítahring mengunar og sóunar auðstéttarinnar er mikilvægt að skilningur vaxi innan umhverfishreyfingarinnar á því að kapítalisminn verður aldrei grænn.

Kosningabaráttan 2013

Miðstjórn 29. maí 2013

Nýliðin kosningabarátta hefur undirstrikað mikilvægi Alþýðufylkingarinnar. Þó að kjörfylgið hafi verið með minna móti í þetta sinn þá náði málflutningur samtakanna til mikils fjölda og vakti athygli og hrifningu langt út fyrir þann hóp sem kaus þau núna. Sérstaða Alþýðufylkingar felst í því að sýna fram á einu færu leiðina til að skapa aukinn jöfnuð og jafnvægi í samfélaginu. Með félagsvæðingu fjármálakerfisns og annarra innviða samfélagsins skapast möguleikar á að auka lífsgæði alls almennings mikið og koma í veg fyrir síendurteknar kreppur kapítalismans. Það er eina leiðin til að gangvirki samfélagsins fari að snúast um þarfir fólksins en ekki gróðatækifæri auðmanna.

Mikilvægt er að Alþýðufylkingin styrkist bæði inn á við og út á við og haldi áfram að byggja sig upp um allt land. Nú þegar krataflokkarnir hafa glatað öllum trúverðugleika með þjónkun við auðvaldið er ný hægristjórn tekin við. Líklegt er að margt færist í kunnuglegt horf frá því fyrir kreppu með tilraunum til að auka veltuna í hagkerfinu með miklum fjárfestingaáformum, náttúruspjöllum og einkavæðingu. Þannig geta auðmennirnir um skeið skarað eld að eigin köku og tekið mikinn gróða útúr samfélaginu en látið fólkið um að borga skuldirnar eins og dæmin sanna. Að sama skapi er líklegt að styttra líði fram að næsta hruni en flesta grunar og þá verði skuldasúpan erfiðari í maga en nokkru sinni fyrr.

Þá skiptir öllu máli að til sé afl sem vísar leiðina að raunverulegum breytingum sem ekki ná aðeins til yfirborðsins. Það er Alþýðufylkingin.

Ályktun um ESB

Framhaldsstofnfundur 16. febrúar 2013

Þegar ríkisstjórnin sótti um aðild Íslands að Evrópusambandinu var látið að því liggja að það væri sakleysisleg athugun á því hvað væri í boði í samningaviðræðum. En síðan hefur milljörðum verið eytt í aðlögun að Evrópusambandsaðildinni og mútur í formi styrkja til að afla málinu fylgis. Hvergi er hins vegar talað um að aðild að sambandinu muni kosta tugi milljarða í aðildargjald.

Svo virðist sem beðið sé eftir hentugu tækifæri til að afgreiða málið þegar þjóðin hefur fengið upp í kok af áróðri og þá verði notað sem rök að svo miklu hafi verið eytt í aðildarundirbúninginn að ekki megi láta það fara til spillis. Einnig talar Samfylkingin um aðild að ESB eins og um sé að ræða lausn á gjaldmiðilsvanda.

Aðild að Evrópusambandinu snýst hins vegar hvorki um gjaldmiðil eða möguleika á styrkjum. Þegar allt kemur til alls snýst hún um sjálfstæði þjóðarinnar og möguleika hennar á að taka lýðræðislegar ákvarðanir um framtíð sína. Kjarninn í regluverki ESB snýst um frjálshyggju og markaðsvæðingu. Allt skal keypt og selt á markaði sem mögulegt er. Þannig vilja auðmenn ESB komast yfir samfélagsleg gæði á Íslandi, auðlindir, vinnuafl og fyrirtæki, eins og í Grikklandi og öðrum ríkjum ESB. Það mun auka enn á ójöfnuð og torvelda okkur sem þjóð að breyta því og vinda ofan af markaðsvæðingunni.

Ályktun um friðarmál

Framhaldsstofnfundur 16. febrúar 2013

Nú þegar 10 ár eru liðin frá innrás Bandaríkjanna, Bretlands og fleiri ríkja í Írak hafa allar verstu spár komið fram. Íraska samfélagið hefur þurft að líða miklar þjáningar og allir innviðir þess eru í rúst. Fyrir 10 árum reis upp öflug hreyfing um allan heim gegn stríðinu og fyrir friði. Þessi hreyfing hefur síðan látið mikið undan og að sama skapi hafa heimsvaldaríkin farið með vaxandi yfirgangi og ofbeldi með minnkandi mótspyrnu. Þetta á ekki aðeins við í Írak og Afganistan, heldur einnig Líbýu, Sýrland og víðar.

Kreppa kapítalismans skapar vaxandi stríðshættu um allan heim. Það er því nauðsynlegt að efla friðarhreyfinguna svo hún verði fær um að beita sér gegn stríðsátökum á byrjunarstigi.

Ályktun um umhverfis- og auðlindamál

Framhaldsstofnfundur 16. febrúar 2013

Þrátt fyrir nýsamþykkta rammaáætlun um raforkunýtingu hér á landi og þá almennu skoðun að auðlindir þjóðarinnar skuli vera sameign, hefur Íslandsbanki uppi áform um fjármögnun á tvöföldun raforkuframleiðslu á Íslandi næsta áratuginn. Þar með yrðu tæmdir möguleikar á frekari raforkuvinnslu í landinu. Á sama tíma eru uppi áform um að leggja sæstreng til Skotlands til að flytja út raforku til Evrópu. Allt ber þetta að þeim brunni að gera auðmönnum kleift að taka út gróða af orkuauðlindinni en velta kostnaði af gríðarlegri fjárfestingu yfir á samfélagið ásamt stórhækkun á orkuverði til almennings og framleiðslufyrirtækja. Það er undarleg forgangsröðun að undirbúa lagningu rafstrengs til Skotlands meðan bíða þarf meira en áratug eftir þriggja fasa rafstreng í Meðalland í Skaftafellssýslu.

Tilburðir auðmanna til að braska með auðlindir eru alvarleg ógn við náttúru og umhverfi, við sjálfbæra nýtingu auðlindanna og efnahag þjóðarinnar.

Almenn ályktun

Framhaldsstofnfundur 16. febrúar 2013

Öll máttarvöld auðvaldsins berjast nú hatrammri baráttu fyrir því að velta oki kreppunnar yfir á alþýðuna. Það er m.a. gert með því að koma tapi banka og stórfyrirtækja yfir á ríkissjóð og lífeyrissjóði, en einnig með beinu arðráni í formi okurlána til heimila og fyrirtækja. Bankarnir og þeirra gæðingar eru þannig á endanum á fæðukeðju auðvaldsins og gleypa allt sem ætilegt er. Til að lífvænlegt verði í landinu er alger stefnubreyting nauðsynleg. Þjóðin hefur fengið forsmekkinn af afleiðingum þess að markaður kapítalismans stjórni samfélaginu. Að óbreyttu heldur kreppan áfram í dýpri og dýpri sveiflum.

Alþýðan hefur átt í vök að verjast en verður að snúa vörn í sókn í stéttabaráttunni. Til að hagkerfið geti náð jafnvægi og þjónað samfélaginu er nauðsynlegt að félagsvæða alla innviði þess og þá ekki síst fjármálakerfið. Þannig skapast mikið svigrúm til að efla velferðina á öllum sviðum og auka jöfnuð og lífsgæði. Þetta er eina leiðin til að leysa vanda þeirra þúsunda fjölskyldna sem eru fastar í skuldafjötrum og leysa úr læðingi þau samfélagslegu gæði sem efni standa til.

Almenn ályktun

Stofnfundur 12. febrúar 2013

Undanfarin ár hefur kreppan varpað skýru ljósi á brestina í íslensku samfélagi. Kapítalisminn leiðir af sér ójöfnuð og kreppu. Kreppunni slotar ekki með aukinni veltu í hagkerfinu eins og allir aðrir flokkar boða, og þeim mun síður sem fjármálakerfið drottnar yfir efnahagslífinu og mergsýgur það. Aukin velta þýðir að óbreyttu aðeins að fámennur forréttindahópur getur dregið til sín meiri gróða en skuldunum sem fylgja er velt yfir á almenning. Þetta er gömul saga og ný sem íslenska þjóðin hefur ferska reynslu af.

Alþýðufylkingin boðar þess í stað aukinn jöfnuð í samfélaginu sem náð verði fram með auknu vægi hins félagslega í hagkerfinu. Stefnt verði að því að allir innviðir samfélagsins verði félagslega reknir og þá ekki síst fjármálakerfið sem þar með hættir að féfletta samfélagið í þágu lítils minnihluta.