Ályktanir landsfundar 2017

Stjórnmálaályktun
3. landsfundar Alþýðufylkingarinnar 11.-12. mars 2017

Nú þegar umsvif og velta aukast í hagkerfinu, kemur glögglega í ljós hvernig markaðskerfi auðvaldins sér um sína.

Undanfarinn áratug hefur íslenskt samfélag gengið í gegnum samdráttar- og þensluskeið og allir þeir flokkar, sem komið hafa að stjórn landsins á þessu tímabili, hafa sameinast um að standa vörð um hagsmuni auðstéttarinnar.

Á þenslutímum makar fjármálaauðvaldið krókinn með auknum umsvifum, spákaupmennsku og aukinni skuldsetningu. Þegar blaðran springur er gróða spákaupmannanna komið í skjól, en skuldunum velt yfir á herðar almennings, um leið og lífskjör alþýðunnar versna á öllum sviðum og velferðin er skorin niður.

Þegar svo umsvif aukast á ný, er þess betur gætt en nokkru sinni fyrr að hagnaður þeirra fari aðeins á fáar hendur, en stærri hluti vinnandi alþýðu situr eftir í fátæktargildru.

Það þykir vart í frásögur færandi þó opinberir íhaldsflokkar fylgi þessari stefnu og tryggi framgang hennar, en yfirlýstir vinstriflokkar hafa hins vegar haft lykilhlutverk í baráttunni fyrir að tryggja hagsmuni auðstéttarinnar. Á árunum 2009-2013, þegar auðvaldið var lamað vegna kreppunnar, komu hinir meintu vinstri flokkar til skjalanna og skáru niður fé til velferðarmála meira en nokkru sinni, ráku þúsundir fátæks fólks út á götu og hjálpuðu spákaupmönnunum að sölsa undir sig eignir þess. Þeir hlóðu undir erlenda auðhringa, veittu þeim skattfrelsi og afslátt í umhverfismálum, og komu bönkunum aftur til einkaaðila til að féfletta þjóðina.

Þegar túristabólan springur, er líklegast að aftur verði leitað til svokallaðra vinstriflokka eða annarra álíka, til að velta kostnaðinum yfir á alþýðuna, og rétta hag auðstéttarinnar á ný.

Til að rjúfa þennan vítahring er nauðsynlegt að gera róttæka stefnubreytingu, sem felur í sér að hagkerfið miðist við verðmætasköpun, aukinn jöfnuð og að grunnþarfir allra verði uppfylltar.

Stórt skref í þá átt er félagsvæðing innviða samfélagsins, þar sem fjármálakerfið er meðtalið. Innviðir samfélagsins verða að vera félagslega reknir, þannig að enginn geti haft af þeim gróða. Það er eina leiðin til að auka jöfnuð og lífsgæði allra í samfélaginu. Það skapar einnig möguleika á að koma böndum á hagvaxtarkröfu kapítalismans, sem að óbreyttu ógnar öllum lífsskilyrðum á jörðinni.

Alþýðufylkingin beitir sér fyrir breytingum í þessum anda, og kallar allar vinnandi stéttir til liðs við þá baráttu. Stéttabaráttan gegn auðvaldinu þarf að ná til allra kima samfélagsins og byggjast á samstöðu verkalýðsstéttarinnar.


Húsnæðisvandinn
Ályktun 3. landsfundar Alþýðufylkingarinnar 11.-12. mars 2017

Húsnæðisvandinn heldur áfram að aukast og bitnar verst á þeim lægst launuðu. Framboð af húsnæði á höfuðborgarsvæðinu er fjarri því að nægja og ferðaþjónustan tekur of stóran hlut af því. Stærsti vandinn er sá að markaðurinn er látinn stjórna húsnæðismálum almennings.

Samfylkingin og Vinstri græn hafa gagnrýnt svokallaða lánaleiðréttingu frá árinu 2014. Það má til sanns vegar færa að skipting leiðréttingarinnar hafi ekki verið sanngjörn, eða eftir þörfum. Það stafar m.a. af því að ríkisstjórn Samfylkingar og VG var á árunum á undan búin að láta reka láglaunafólk út á götu, þannig að það hafði ekki nein lán til að leiðrétta.

Sannleikurinn er sá að húsnæðisvandi hrunsins var aukinn fremur en leystur af eftirhrunsstjórn Samfylkingar og VG.

Í fyrsta lagi með því að láta byggingaiðnaðinn stöðvast, í stað þess að halda áfram þeim verkefnum sem voru í gangi, á félagslegum forsendum. Þannig hefði mátt koma í veg fyrir landflótta og húsnæðisskort og tryggja félagslega lausn fyrir fleiri í húsnæðismálum.

Í öðru lagi með því að láta bankana reka þúsundir láglaunafjölskyldna út á götuna og styrkja síðan braskarana til að sölsa undir sig eignir þeirra. Á sama tíma gat hálaunafólk fengið milljónir og jafnvel tugmilljónir niðurfelldar af lánum. Láglaunafólkið hefur síðan þurft að þræla fyrir okurleigu og okurvöxtum til að freista þess að halda sér undir þaki.

Við þetta bætist að litlar sem engar skorður eru settar við útleigu íbúðarhúsnæðis til ferðamanna, sem ýtir undir frekari hækkanir húsaleigu og rýrir framboð leiguhúsnæðis fyrir almenning.

Eina leiðin til lausnar á húsnæðisvandanum er sú að losa íbúðarhúsnæði undan stjórn markaðarins og tryggja öllum skýlausan rétt til heimilis með félagslegri fjármögnun.


Ályktun um innflutning á kjöti
3. landsfundur Alþýðufylkingarinnar 11.-12. mars 2017

Landsfundur Alþýðufylkingarinnar 2017 mótmælir harðlega tilburðum landbúnaðarráðherra til að auka innflutning á kjöti til landsins, til þess eins að auka gróða kaupmanna.

Þessi áform grafa ekki aðeins undan íslenskum landbúnaði, heldur eru þau tilræði við lýðheilsu á Íslandi og heilbrigði búfjár í landinu.

Ráðherra Viðreisnar virðist ætla með ráðherravaldi sínu að ryðja burt einni hindruninni fyrir ESB-aðild, þ.e. að opna landið fyrir innfluttu kjöti svo skaðinn sé skeður þegar næsta lota ESB-aðildar hefst, og minna verði úr vörnum andstöðunnar. Þau áform verður að stöðva.


Verkalýðsmálaályktun
3. landsfundar Alþýðufylkingarinnar 11.-12. mars 2017

Alþýðufylkingin slær því föstu að stéttarfélögin séu mikilvægustu samtök alþýðu í stéttabaráttunni. En staða verkalýðshreyfingarinnar hefur veikst mjög á seinni árum. Það er alþjóðlegur vandi, t.d. hefur stéttarfélagsaðild í Evrópu minnkað um nærri helming undanfarin 30 ár. Þar ræður mestu hnignun sósíalískra flokka og framrás frjálshyggjunnar, ennfremur hnattvæðing auðmagnsins með frjálsu flæði fjármagns, atvinnu og vinnuafls milli landa og svæða án þess að lög og reglur tryggi hagsmuni vinnandi fólks.

Einn helsti tilgangur hnattvæðingar auðmagnsins er að brjóta niður sk. „reglufargan“, einkum áunnin réttindi verkalýðshreyfingarinnar, og tryggja auðvaldinu sem allra ódýrast vinnuafl. Markaðsfrelsi og flæði ESB/EES birtir hnattvæðinguna í okkar umhverfi. Það er grundvallarverkefni verkalýðshreyfingarinnar að tryggja að erlent farandverkafólk sé á íslenskum kjörum, bæði vegna hagsmuna þess og íslensks launafólks.

Lægð íslenskrar verkalýðsbaráttu orsakast ennfremur af langvarandi stéttasamvinnu sem á sér traustast aðsetur í ASÍ-forustunni. Hún hefur tekið sér það hlutverk að sundra launafólki, m.a. með því að setja inn í kjarasamninga það ákvæði að þeir séu uppsegjanlegir ef aðrar starfsstéttir á eftir knýja fram eitthvað umfram ASÍ-línuna – sem er auðvitað er vopn í höndum andstæðinganna. Stéttasamvinnan birtist líka í lífeyrissjóðakerfinu sem er innmúraður hluti íslensks fjármálakerfis og bindur verkalýðshreyfinguna við verðtryggingu og vaxtaokur bankavaldsins.

Íslensk verkalýðshreyfing er lítilþæg í kjaramálum og skortir auk þess nær alveg stefnu í þjóðfélagsmálum. En frá því að hafa áður kratíska forustu einkennist verkalýðshreyfingin nú af forustuleysi, jafnvel umkomuleysi – þar sem vinstri flokkar okkar daga láta hana afskiptalausa og sýna henni ekki einu sinni áhuga.

Verkföll og kjaraátök síðustu ára eru samt merki um baráttugetu og baráttuvilja í launþegahreyfingunni – í samtökum kennara, heilbrigðisstétta, sjómanna o.fl. Atvinnurekendavaldið, ASÍ-forusta og aðrir forkólfar stéttasamvinnustefnunnar líta á þessa baráttu sem vandamál og hafa staðið fyrir sk. SALEK-viðræðum (hófust 2013) til að koma böndum á slíkt. Samkvæmt hinu nýja „módeli“ á „Þjóðhagsráð“ að reikna fyrirfram út „eðlileg laun“ út frá „stöðu atvinnuveganna“ og sé það bindandi viðmið fyrir samningsaðila og þessu fylgir stóraukið vald ríkissáttasemjara. Launastefnan skal vera samhæfð og miðstýrð. Eftir að slíkt næði fram að ganga yrði samningsréttur stéttarfélaga aðeins svipur hjá sjón.

Að hrinda því tilræði við samningsréttinn sem felst í SALEK er aðeins fyrsta skref af mörgum sem taka þarf til að endurreisa verkalýðshreyfinguna til baráttu gegn æ grófara arðráni og fyrir þjóðfélagslegum markmiðum launafólks.