miðvikudagur, 22. febrúar 2017

Ályktun um sjómannaverkfallið

Nýafstaðið sjómannaverkfall ber í sér lærdóma sem fólk ætti að taka eftir. Fyrsti er, að það er leið baráttunnar er leiðin til sigurs: Löng og ströng barátta skilaði sjómönnum kjarabótum. Annar: Kjarabæturnar eru takmarkaðar vegna þess að sjómenn völdu að samþykkja samninginn frekar en að taka slaginn enn lengur. Þriðji: Ríkisvaldið kemur fram sem bakhjarl útgerðarauðvaldsins með hótun sjávarútvegsráðherra um lög á verkfallið. Tökum eftir því að hún hótaði ekki að setja lög til að skikka útgerðarmennina til að ganga að kröfum sjómanna. Og ekki á verkbann á vélstjóra.

Sjómenn vinna erfiðari og hættulegri vinnu og eru lengur að heiman í senn heldur en flest annað vinnandi fólk á landinu. Fiskurinn verður ekki veiddur án þeirra. Þeir skulu virðir vel. Hins vegar er vel hægt að veiða fisk án kapítalista sem sölsa undir sig auðlindirnar og arðinn af vinnunni, og fá samt sérkjör hjá vinum sínum í ríkisstjórn.

Alþýðufylkingin vill að fiskistofnar Íslandsmiða séu nýttir í þágu þjóðarinnar. Hún vill frjálsar smábátaveiðar en að stærri skip þurfi að fá kvóta hjá útgerðarplássum, sem ráðstafi honum og fái auðlindagjald fyrir, en núverandi kvótaúthlutun verði fleygt fyrir borð. Alþýðufylkingin vill líka koma á félagslega rekinni útgerð, t.d. á vegum ríkis, sveitarfélaga eða alvöru samvinnufélaga, þannig að fámenn elíta maki ekki krókinn á auðlindinni, heldur njótum við hennar öll saman.

Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar
22. febrúar 2017

Stofnun svæðisfélags Alþýðufylkingarinnar á höfuðborgarsvæðinu

Síðastliðinn laugardag, 18. febrúar, var stofnað svæðisfélag Alþýðufylkingarinnar á höfuðborgarsvæðinu. Það er sameiginlegt kjördæmisfélag flokksins í Reykjavíkur- og Suðvesturkjördæmum og í þeim sveitarfélögum sem tilheyra þeim. Félagið vinnur að framgangi stefnu Alþýðufylkingarinnar á félagssvæðinu, m.a. með kosningaundirbúningi.

Í stjórn voru kjörin Alice Bower, Jón Hjörtur Brjánsson, Tamila Gámez Garcell, Tinna Þorvaldsdóttir Önnudóttir og Þorvarður B. Kjartansson.

fimmtudagur, 16. febrúar 2017

Stofnfundur svæðisfélags Alþýðufylkingarinnar á höfuðborgarsvæðinu 18. febrúar

Aðildarfélag Alþýðufylkingarinnar á höfuðborgarsvæðinu verður stofnað laugardaginn 18. febrúar. Stofnfundurinn verður í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, og hefst kl. 12.

Auk þess að samþykkja lög og kjósa stjórn, verður rætt um starf félagsins í náinni framtíð, tillögur til landsfundar í næsta mánuði o.fl.

Starfssvæði félagsins verður Reykjavík og Suðvesturkjördæmi. Auk þeirra sem þegar eru félagar í Alþýðufylkingunni, eru nýir félagar velkomnir á fundinn.

Heitt á könnunni.

Kveðja,

Undirbúningsnefndin

miðvikudagur, 15. febrúar 2017

Lög á sjómenn og SALEK – blikur á lofti

Þrýstingur vex jafnt og þétt kringum sjómannaverkfallið, og krafa um stjórnvaldsaðgerðir verða
Þórarinn Hjartarson
stálsmiður á Akureyri
háværari. Þetta þarf ekki að koma á óvart. Atvinnuvegaráðuneytið gefur út svarta skýrslu, „Mat á þjóðhagslegum kostnaði verkfalls sjómanna“. Útgerðarmenn reikna greinilega með lögum á verkfallið – að fenginni reynslu af því á síðustu 30 árum hafa 15 sinnum verið sett lög á vinnudeilur og þar af sjö sinnum á sjómenn! (farmenn eða fiskimenn). Aðrir binda vonir við skattaafslátt, að láta þannig niðurgreiðslur ríkisins til sjávarútvegsins leysa útgerðina undan launahækkunum.

Deilan dregst á langinn og sýnir góða samstöðu og stéttvísi meðal sjómanna. Jafnframt sýnir hún enn einu sinni þá miklu samstöðu sem ríkir meðal íslenskra atvinnurekenda um að hindra að verkfallsaðgerðir skili árangri. Viðbrögð þeirra við verkföllum eru alltaf prinsippmál og í þeirra röðum ríkir í raun bann við því að beygja sig fyrir verkfalli, þar sem slíkt myndi skapa hættulegt fordæmi meðal launþegahópa. Stéttasamstaða atvinnurekenda snýst mjög um það að sýna að verkföll borgi sig ekki.  

Önnur stéttarleg viðbrögð eignastéttarinnar eru sama eðlis, og jafnvel alvarlegri. Atvinnurekendavald og ríkisvald nota neikvæða umræðu um verkfallið til að ráðast að samningsréttinum. Þar fer Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fyrir. Í Silfrinu um daginn (5/2) sagði hann orðrétt: „Það sem mér finnst að við eigum að spyrja okkur, svona í ljósi þessa verkfalls,  sem kemur á eftir mörgum öðrum verkföllum sem við höfum gengið í gegnum á undanförnum árum, er einfaldlega það hvort við þurfum ekki að fara að endurskoða þennan ramma vinnumarkaðarins, sem virðist ekki hafa fram að færa neinar leiðir til þess að höggva á hnútinn þegar það er stál í stál.“  Sem sagt, breyta þarf „vinnumarkaðsmódelinu“. Bjarni vísar þarna líka í launadeilurnar 2015, sem urðu tiltölulega víðtækar. Viðbrögð fulltrúa atvinnurekenda og ríkisvalds – og ASÍ-forustu – við þeim verkföllum voru þau að þetta mætti helst aldrei endurtaka sig. Til að hindra það yrði að setja kraft í SALEK-viðræður milli aðila vinnumarkaðar. Í viðtalinu í Silfrinu bætti Bjarni við: „Í því sambandi er oftast talað um að við gætum stóraukið vald ríkissáttasemjara, að við gætum þvingað menn til að hlíta hinu almenna merki markaðarins um svigrúm til launahækkana, ef menn ná ekki niðurstöðu í samningum... þetta er í raun kjarni þess samtals sem hefur verið í gangi undanfarin ár undir merkjum SALEK, milli almenna og opinbera markaðarins og stjórnvalda... það miðar að því að við færum okkur nær norræna módelinu og að þróa og þroska leiðir til að komast út úr svona öngstræti.“ (*)

Ágreiningur hefur verið verulegur innan verkalýðshreyfingarinnar um SALEK-viðræðurnar. Verkalýðsfélag Akraness ásamt nokkrum öðrum verkalýðsforingjum hefur staðið fast gegn því vinnumarkaðslíkani sem SALEK hefur byggt á, af því það sé til þess fallið – og til þess hugsað – að stórskerða samningsrétt stéttarfélaga. ASÍ-forustan hefur mótmælt því kröftuglega: „Nei, það er ekkert í þessu samkomulagi sem hróflar við ákvæðum vinnulöggjafarinnar um samningsrétt einstakra stéttarfélaga“ (*) En orð Bjarna forsætisráðherra segja það sem segja þarf: Markmiðið er að „þvinga menn til að hlíta hinu almenna merki markaðarins um svigrúm til launahækkana“ og að „stórauka vald ríkissáttasemjara“, segir hann. Sem kunnugt er er eitt meginatariði í SALEK-viðræðunum stofnun Þjóðhagsráðs sem greina skuli stöðuna í efnahagsmálum í aðdraganda kjarasamninga og leggja línu um „svigrúm til launahækkana“.

Nú ríður á að verjast tvöfaldri hættu: hindra það að enn ein lög verði sett á kjaradeilu sjómanna og eins að „skaðinn“ sem vinnudeilan veldur verði síðan notaður til að þvinga upp á okkur nýjum ramma um vinnudeilur skv. óskum atvinnurekenda.

Þórarinn Hjartarson, stálsmiður á Akureyri