mánudagur, 4. september 2017

Flokkarnir og stéttirnar á Íslandi

„Saga mannfélagsins hefur fram að þessu verið saga um stéttabaráttu“, skrifuðu Marx og Engels. Það gildir sannarlega um auðvaldsskipulagið sem byggist á þeim gróða sem ein stétt hefur af annarri.
Þórarinn Hjartarson skrifar
Misskiptingin vex jafnt og þétt, á Íslandi og á heimsvísu – og auðvaldið rányrkir hnöttinn. Í heimi auðvaldsins nú um stundir ríkir hugmyndafræði hnattvæðingarinnar. Hnattvæðingin birtist sem frjálst flæði fjármagns, atvinnu og vinnuafls milli landa, svæða og heimshorna. Hnattvæðingarhyggjan fjandskapast við sjálfsákvörðun þjóðríkja.  En kapítalisminn er klofinn í blokkir sem takast á. Gamla Vesturblokkin er hnignandi á efnahagssviðinu en viðheldur stöðu sinni í krafti hernaðarlegra yfirburða og verður æ  herskárri.

Valdahlutföll stéttanna á Íslandi eru þannig að vald auðstéttarinnar er óskorað, mótafl verkalýðs og alþýðu er mjög veikt og sundrað. Flokkakerfið og stjórnmálin endurspegla þetta.   

Hægrimiðjan. Hún boðar einkaframtak og markaðshyggju – og er beintengd hagsmunasamtökum auðstéttarinnar. Viðkomandi flokkar, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Viðreisn, styðja sig við hefðbundna auðvaldselítu landsins. Flokkarnir mynda órofa NATO-blokk en þá greinir á í afstöðu til Evrópusamrunans, af því frjálsa flæðið ógnar íslenskum útgerðarhagsmunum.

Vinstrimiðjan, krataflokkarnir tveir og Björt framtíð. Þessi „frjálslynda vinstrimennska“ hefur yfirgefið verkalýðsstéttina og stendur á „smáborgaralegum“ grunni mennta- og millistéttar. Þeir bjóða upp á húmaníska/kristilega jafnaðarstefnu, sem byggir á líknarhugsun. Sníða baráttuna að ramma auðvaldsskipulagsins og treysta ríkisvaldi auðstéttarinnar fyrir umbótum sínum.

Forystumenn flokkanna tala sjaldan um verkalýðsstéttina og ekki um stéttir yfirleitt, en þeir aðhyllast hnattvæðingarhyggju auðvaldsins og hið sérstaka evrópska form hennar ESB (Samfó og Björt framtíð þó mun eindregnar en VG) eins og fram kom í ESB-umsókninni sem var helsta mál og mesta átakamál vinstri stjórnarinnar sálugu. Kratarnir styðja stríðsstefnu Vestursins engu síður en hægrimiðjan, sbr. stuðning vinstri stjórnarinnar við árásarstríð NATO gegn Líbíu og vestrænt studda „uppreisn“/innrás í Sýrland. Flokkarnir hafa yfirgefið hinn gamla grundvöll vinstrimennskunnar – verkalýð/ stéttabaráttu og baráttu gegn heimsvaldastefnu – og grundvöllurinn sem á að koma í staðinn byggir á  hnattvæðingarhyggju, fjölmenningarhyggju, stefnu um opnari landamæri, femínisma og frjálslyndi gagnvart fjölbreytilegri kynhneigð.

Popúlistar. Eru andstæðingar hnattvæðingarinnar. Í umhverfi óvinsællar hnattvæðingarstefnu hefur hægri popúlisminn vaxið fram – popúlískir flokkar Evrópu þenjast út og Trump sigraði Hillary. Oftast eru þeir til hægri en samt upp á móti elítunni og valdakerfinu. Sókn popúlistanna er því birtingarmynd uppreisnar alþýðu gegn hnattvæðingunni. Þeir hafa í velferðarmálum tekið upp mörg af stefnumálum vinstri flokkanna og þar með mikið af því verkalýðsfylgi sem áður kaus til vinstri. En það háir eðlilega þessum flokkum að þeir játast kapítalismanum sjálfum, og hann er ekki velferðarsinnaður.         
Það þarf ekkert að efast um að hægripopúlískir flokkar Evrópu og Ameríku hafa líka fleytt sér á bylgju útlendingaótta og sums staðar hreins rasisma, sem er auðvitað áhyggjuefni. Hins vegar er líka ljóst að frjálslyndu flokkarnir – til hægri og vinstri – sem aðhyllast hnattvæðinguna reyna sem allra mest að stimpla þessa flokka sem öfgahægri (rasista, öfgaþjóðernissinna og jafnvel fasista) oft á mjög hæpnum forsendum. Popúlismabylgjan hefur lengi sveigt framhjá Íslandi en nú sjást skýr merki hennar í Flokki fólksins.

Verkalýðssinnuð/byltingarsinnuð vinstrimennska hér á landi er smá í sniðum, en hún er til. Alþýðufylkingin starfar á grundvelli stéttabaráttunnar, þeim skilningi að auðvaldsskipulagið byggi á arðráni einnar stéttar á annarri, og að frelsun verkalýðsstéttarinnar verði að vera hennar eigið verk. Á þeim grundvelli byggir hún stefnuskrá sína, og hún setur sér að örva og leiða baráttu verkalýðs og annarrar alþýðu fyrir umbótum, byggja um leið upp mótaflið í samfélaginu, og til framtíðar er verkefnið að steypa auðvaldinu og byggja sósíalsima. Alþýðufylkingin er ekki endilega eina aflið sem byggir á þessum grundvelli. Sósíalistaflokkurinn svonefndur er hér nýtilkominn, hann skilgreinir stefnu sína skv. nafninu og telur sig starfa á grundvelli stéttabaráttunnar. Það er áhugavert og jákvætt hvað honum hefur gengið vel að safna að sér fólki undir slík kjörorð. En hafa verður í huga að útfærslan á stefnu hans er ennþá óunnin svo að í því efni verður að bíða og sjá.

Svona eru grófu línur pólitíska landslagsins íslenska, í stéttasamhengi.