mánudagur, 8. maí 2017

Ávarp flutt á Rauðum 1. maí

Af hverju þarf vinnufólk alltaf að standa í stappi við vinnuveitendur? Af hverju getum við ekki bara unnið saman frekar en að vera alltaf að reyna að berjast á móti hvert öðru? Til að svara þessu þurfum við að gera okkur grein fyrir því að markmið okkar eru andstæð: sem vinnandi fólk viljum við sem hæst laun fyrir eins litla vinnu og mögulegt er og vinnuveitandinn vill sem mesta vinnu fyrir eins lítinn pening og mögulegt er. Með öðrum orðum: ef við, almenningur, hættum að berjast þá mun öll baráttan koma frá auðvaldinu.

Við höfum aldrei fengið neitt frítt frá auðvaldinu og það mun ekki breytast.
Frá upphafi kapítalismans hefur ójöfnuður ávalt farið vaxandi. Þó lífskjör hafi aukist með tímanum, líkt og þau gerðu í nær öllum öðrum kerfum sem komu þar á undan, þá hefur ávöxtur efnahagskerfisins alltaf ratað á færri og færri hendur.
Þetta segir sig sjálft: enda fyrir einn til að græða þarf einhver annar að tapa.

Okkar helsta varnartól hafa verið stéttarfélög. En við megum ekki gleyma því að ef stéttarfélögin eiga að vinna fyrir okkar kjörum, þá þurfum við sjálf að vera virkur partur af þeirra baráttu.

Mig langar að vitna í Bernie Sanders, en fyrir sirka 10 mánuðum sagði hann þetta:

Sen. Bernie Sanders: "We cannot allow ourselves to become used to the fact that we got hundreds of thousands of children in this country who are homeless. That is our greatest danger, becoming used to it and thinking that it is normal. It is not normal. It is an outrage. And never, ever lose your sense of outrage."

Þetta eru sterk orð og eiga fullan rétt á sér. Okkar helsta hætta er sú að við sættum okkur við núverandi stöðu og að okkur fari að þykja þetta eðlilegt; Að svona sé þetta bara. Þegar fjöldi fólks hefur ekki efni á því að eiga sér heimili, þá megum við ekki sætta okkur við það, heldur þurfum að líta á það sem hneykslið sem það er.

Þó við höfum barist fyrir 8 klukkutíma vinnudegi, þá skiptir það engu máli ef fólk getur ekki lifað á launum sínum. Við sjáum að það er ekki nóg að berjast fyrir betri kjörum, því um leið og við lítum í burtu þá tekur auðvaldið allt til baka sem við höfum unnið fyrir.

Það er ekki nóg að berjast fyrir breytingum í lögum eða kjarasamningum þegar kerfið vinnur gegn manni. Í efnahags kerfi sem ýtir undir brot á vinnufólki í þeim tilgangi að hámarka gróða, þá verður það ljóst að það sem þarf að breytast er kerfið sjálft.

Þetta er baráttan sem Alþýðufylkingin er tilbúin að fara í. En enginn flokkur út af fyrir sig getur náð þessu markmiði einn. Þessu verður aðeins náð þegar við getum fengið stuðning og samstarf vinnufólks. Ef við sættum okkur við það sem við höfum eða teljum að það sé ekki hægt að breyta því, þá erum við nú þegar búin að tapa. En ef vinnandi fólk er tilbúið að lyfta upp hnefa og berjast fyrir ávöxtum sinnar eigin vinnu, þá er valdið okkar. Því ekkert kerfi hefur lifað að eilífu og fyrr eða síðan þá munum við sigra.