föstudagur, 19. maí 2017

Ályktun um samgöngumál

Miðstjórn Alþýðufylkingarinnar mótmælir harðlega þeim niðurskurði sem ríkisstjórn peningavaldsins hefur farið í á samgönguáætlun. Ennfremur fordæmir miðstjórnin allar hugmyndir um einkavæðingu samgöngukerfisins en hugmyndir um vegatolla eru ekkert annað en inngangur að slíku. Miðstjórnin hafnar með öllu þeim viðbárum að ekki sé nægilegt fé til framkvæmdanna, tugir ef ekki hundruð milljarða eru innheimt á hverju ári í umferðartengdum sköttum og gjöldum. Á tíma sívaxandi umferðar erlendra ferðamanna sem að auki færa þjóðinni gríðarlegar gjaldeyristekjur er það ráðslag stjórnvalda að minnka fjármagn til viðhalds og uppbyggingar vegakerfisins frá ári til árs, í stað þess að stórauka það, óskiljanlegt og með öllu ólíðandi.

Miðstjórn Alþýðufylkingarinnar hvetur almenning, ásamt sveitarstjórnarmönnum og forsvarsmönnum, í hinum ýmsu landshlutum til að láta stjórnvöld ekki etja sér í innbyrðis átök um fjárveitingar sem þau sjálf standa fyrir því að takmarka, en mótmæla einum rómi áðurnefndum niðurskurði. Fyrst og fremst stefnir þessi óboðlega stjórnsýsla mannslífum í voða, en mun auk þess valda stórfelldu eignatjóni og verða frekari dragbítur á uppbyggingu innviða ferðaþjónustunnar, sem þegar hefur dregist svo mjög úr hömlu að orðið er til stórskammar fyrir land og þjóð.

Miðstjórn Alþýðufylkingarinnar 13. maí 2017