þriðjudagur, 16. maí 2017

Ályktun um sameiginlegt ábyrgðarleysi auðvaldsins

Samfélagslegt ábygðarleysi auðvaldsins

Ákvörðun HB Granda um að hætta bolfiskvinnslu á Akranesi og segja upp næstum 90 manns, er enn ein sönnun þess, að svokölluð samfélagsleg ábyrgð einkafyrirtækja er ekkert annað en orðin tóm.
Þetta atvik kallar einnig á grundvallarendurskoðun á yfirráðum yfir aflaheimildum. Útgerðarauðvaldið hefur á undanförnum áratugum þvælst um landið, og skilið mörg byggðarlög eftir í miklum vanda. Það hefur því sýnt sig að óbreytt kerfi stuðlar ekki að byggðafestu eins og lögin kveða á um.

Æskilegast væri að útgerð á Íslandi væri að sem mestu leyti félagslega rekin, bæði til að tryggja byggðafestu, og ekki síður til að afrakstur sameiginlegrar auðlindar þjóðarinnar skili sér til hennar.
Miðstjórn Alþýðufylkingarinnar hvetur allan almenning á Íslandi til að sameinast í baráttu fyrir róttækum breytingum í sjávarútvegi, sem byggist á sanngjarnri skiptingu veiðiheimilda milli byggðalaga og að félagslegur rekstur stærri útgerða verði forgangsvalkostur.

Miðstjórn Alþýðufylkingarinnar 13. maí 2017