miðvikudagur, 17. maí 2017

Ályktun: Einkavæðing undir radar

Einkavæðing undir radar

Ríkisstjórnin reynir kerfisbundið að einkavæða innviði samfélagsins í áföngum, og koma í veg fyrir umræður og önnur samfélagsleg inngrip í það ferli.

Það er fyrirséð, að opnun einkasjúkrahúss undir nafni klíníkurinnar í Ármúla, grefur alvarlega undan íslensku félagslegu heilbrigðiskerfi. En heilbrigðisráðherra neitar að axla ábyrgð á starfsleyfi þessa einkasjúkrahúss og svo mikið sem taka afstöðu til málsins.

Fyrirhuguð innlimun Fjölbrautaskólans við Ármúla í Tækniskólann, sem er einkarekinn, er einnig tilraun til að sölsa menntastofnanir undir samtök atvinnurekenda, í trássi við vilja starfsfólks, og án samráðs við neina sem málið varðar. Svipaðir tilburðir eiga sér stað á fleiri sviðum.

Miðstjórn Alþýðufylkingarinnar fordæmir einkavæðingar- og markaðsvæðingaráráttu íslensku auðvaldsflokkanna, og hvetur til sameiginlegrar andspyrnu frá alþýðunni. Það er ekki nóg að hægja á, eða stöðva einkavæðingarnar, heldur verður að snúa vörn í sókn og félagsvæða það, sem áður hefur verið markaðsvætt. Gera þarf áætlun sem stefnir að því að allir innviðir íslensks samfélags verði félagslega reknir.

Miðstjórn Alþýðufylkingarinnar 13. maí 2017