miðvikudagur, 22. febrúar 2017

Ályktun um sjómannaverkfallið

Nýafstaðið sjómannaverkfall ber í sér lærdóma sem fólk ætti að taka eftir. Fyrsti er, að það er leið baráttunnar er leiðin til sigurs: Löng og ströng barátta skilaði sjómönnum kjarabótum. Annar: Kjarabæturnar eru takmarkaðar vegna þess að sjómenn völdu að samþykkja samninginn frekar en að taka slaginn enn lengur. Þriðji: Ríkisvaldið kemur fram sem bakhjarl útgerðarauðvaldsins með hótun sjávarútvegsráðherra um lög á verkfallið. Tökum eftir því að hún hótaði ekki að setja lög til að skikka útgerðarmennina til að ganga að kröfum sjómanna. Og ekki á verkbann á vélstjóra.

Sjómenn vinna erfiðari og hættulegri vinnu og eru lengur að heiman í senn heldur en flest annað vinnandi fólk á landinu. Fiskurinn verður ekki veiddur án þeirra. Þeir skulu virðir vel. Hins vegar er vel hægt að veiða fisk án kapítalista sem sölsa undir sig auðlindirnar og arðinn af vinnunni, og fá samt sérkjör hjá vinum sínum í ríkisstjórn.

Alþýðufylkingin vill að fiskistofnar Íslandsmiða séu nýttir í þágu þjóðarinnar. Hún vill frjálsar smábátaveiðar en að stærri skip þurfi að fá kvóta hjá útgerðarplássum, sem ráðstafi honum og fái auðlindagjald fyrir, en núverandi kvótaúthlutun verði fleygt fyrir borð. Alþýðufylkingin vill líka koma á félagslega rekinni útgerð, t.d. á vegum ríkis, sveitarfélaga eða alvöru samvinnufélaga, þannig að fámenn elíta maki ekki krókinn á auðlindinni, heldur njótum við hennar öll saman.

Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar
22. febrúar 2017