þriðjudagur, 31. maí 2016

Stríð um heimsyfirráð: Hnattræn auðvaldselíta þolir ekki sjálfstæð ríki

Þórarinn Hjartarson skrifar 

„Það er alheims stríð, það er allsherjar stríð og það er eyðilegging. Það á sín rök, það er hluti hnattræns kapítalisma. Á núverandi stigi er þetta þó ekki barátta gegn sósíalisma, en það er barátta gegn þjóðlegum kapítalisma. Með öðrum orðum, það eru hinar hnattrænu auðvaldselítur – aðallega ensk-amerískar þar sem hinar miklu fjármálamiðstöðvar Wall Street og London ráða för – gegn kapítalískum keppinautum, sem vel má nefna: Rússland og Kína – Kína er ekki kommúnískt land, Kína er kapítalískt land, í raun mjög þróað kapítalískt land, og eins er um Íran.“ (heimild)

Það er kanadíski samfélagsrýnirinn Michael Chossudovsky sem segir þetta. Í eftirfarandi grein tek ég undir þessa greiningu, helstu hernaðarátök nútímans taka á sig þessa mynd, heimselítan berst gegn þjóðlegum kapítalisma og sjálfstæði þjóða. Í framhaldinu spyr ég: Hvers vegna er það svo?

Eitt einkenni kapítalismans er hneigð auðmagnsins til að hlaðast upp, samruni, yfirtökur, stór gleypir lítinn, samruni útyfir landamæri þjóðríkja og sístækkandi efnahagseiningar. Risaauðhingar skipta með sér heimsmarkaðnum. Á pólitíska sviðinu ríkir samþjöppun í vaxandi valdablokkir. Heimskapítalisminn hefur frá 1945 einkennst af drottnunarstöðu eins ríkis, Bandaríkjanna. Um skeið var þó einnig fyrir hendi sterk blokk kennd við kommúnisma. En eftir lok kalda stríðsins og brotthvarf Austurblokkarinnar um 1990 varð heimurinn „einpóla“ með mikilli drottnunarstöðu Vesturblokkar, Bandaríkjanna ásamt bandamönnum.

Í upphafi var hugveitan
Hnattræn stjórnlist (strategía) bandarískrar/vestrænnar elítu er ekki mótuð á neinu þjóðþingi né í stofnunum SÞ. Hún er einkum mótuð í nokkrum hugveitum eða klúbbum þar sem saman koma fulltrúar bandarískrar og vestrænnar toppelítu – alls ekki þjóðkjörnir. Lýðræðið þvælist ekki mikið fyrir hinum raunverulegu valdhöfum heimsins. Af áhrifaríkustu hugveitum innan Bandaríkjanna ber að nefna Brookings Institution (stofnuð 1916), Hoover Institution (1921) og Council of Foreign Relations (1921) og Center for Strategic and International Studies (1962). Tvær þær síðastnefndu hafa öðrum fremur mótað utanríkisstefnu USA, en allir hafa þó klúbbarnir haft mikil og afgerandi áhrif á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Á alþjóðavettvangi starfa Bilderberg Group (stofnuð 1954 til að treysta samband N-Ameríku og V-Evrópu og „atlanticism“), Aspen Institute (stofnað 1950), Trilateral Commission (stofnað af David Rockefeller 1973 til að rækta og móta samband Norður Ameríku, Vestur Evrópu og Japans). Síðarnefndu klúbbarnir þrír eru hugveitur fyrir Vesturlönd en að uppruna og öllum grundvelli eru þeir bandarískir eins og hinir sem fyrr voru nefndir. Loks ber að nefna stofnunina The World Economic Forum, eins konar heimsþing vestræns einokurarauðvalds, hagsmunasamtök ca. 1000 voldugustu auðhringa á hnettinum, sem hittist árlega í Davos í Sviss og hefur mjög bein völd og setur pólitík á dagskrá vítt um hinn vestræna heim.

Klúbbar þessir hafa verið mjög samstíga í efnahagsstefnu og pólitík. Það helgast einfaldlega af því að þarna eru saman komnir fulltrúar vestrænnar toppelítu og voldugustu einokunarauðhringanna. Harðasti og voldugasti kjarninn er fáveldi bandarískra fjármálarisa og risaauðhringa, ekki síst í hergagnaiðnaðinum (hergagnaframleiðsla plús einkafyrirtæki í stríðsrekstri, military-industrial complex kallaði Eisenhower það). Mikil krosseignatengsl þar á bæ gerir kjarnan gríðarlega samþjappaðan, og krosstengsl einkenna líka klúbbana, margar sömu persónur rokka á milli þeirra og sitja í stjórnum eins klúbbs á eftir öðrum.

Hugveituklúbbarnir hafa verið leiðandi í strúktúrbreytingum sem orðið hafa í heimskapítalisma seinni áratuga. Þegar ríkjandi efnahagsstefna á Vesturlöndum breyttist á 8. og 9 áratug frá keynesisma til herskárrar nýfrjálshyggju Chicago-skólans undir forustu Reagans og Thatcher hafði sú stefna áður verið tekin í þessum klúbbum. Eins var um hina miklu hnattvæðingarþróun á 10. áratugnum, hnattvæðingu auðhringanna í „einpóla“ heimi. Stefna vestrænna hnattvæðingarsinna var og er að gera allan heiminn að opnu, frjálsu fjárfestingarsvæði fyrir vestræna fjölþjóðlega auðhringa. Þar var og er World Economic Forum (WEF) í fararbroddi og má vel kallast „Alþjóðaefnahagsstofnun hnattvæðingarsinna“ (heimild). Ekki síður en í efnahagspólitík hafa allir klúbbarnir mikil og afgerandi áhrif á utanríkisstefnu og hnattræna hagsmuni risaveldisins USA.

Frumkvæðið að evrópska samrunanum kom frá Ameríku
Framantaldar hugveitur hafa lengi verið mjög gíraðar á samvinnu N-Ameríku og V-Evrópu. Wikileaks birti 2009 fundargerðir frá Bilderberg-fundi 1955 þar sem eitt helsta umfjöllunarefnið var „sameining Evrópu“: „Að ná á sem skemmstum tíma hæsta stigi sameiningar, og byrja á sameiginlegum evrópskum markaði.“ Á sama fundi var m.a.s. talað um að stefna bæri að „sameiginlegum gjaldmiðli“ sem líka myndi „nauðsynlega útheimta stofnun pólitísks miðstjórnarvalds.“ (heimild) Þetta var tveimur árum áður en Efnahagsbandalag Evrópu var stofnað. Bandarískt frumkvæði að evrópskum samruna var samt komið fram enn fyrr. Í september 2000 skrifaði Ambrose Evans-Pritchard í London Telegraph: „Nýbirt  leyniskjöl Bandaríkjastjórnar sýna að bandarísk leyniþjónusta rak herferð á sjötta og sjöunda áratugnum til að fá aukinn gang í það að byggja upp sameinaða Evrópu. Þeir stofnuðu og stýrðu evrópskri samrunahreyfingu... Minnisblað dagsett 26. júlí 1950 útlistar herferð til að koma á fullgildu evrópsku þingi. Það er undirritað af hershöfðingjanum William J. Donovan, yfirmanni Office of Strategic Services sem var undanfari CIA.“ (heimild)

Heimselítunni er ekkert um lýðræði eða sjálfsákvörðunarrétt þjóða gefið gefið, og frá sjónarhólnum í Washington er augljóslega auðveldara og praktískara að hafa stjórn á einni ríkisstjórn í Vestur-Evrópu, ESB, en mörgum ólíkum evrópskum ríkisstjórnum. Evrópa hefur nú þróast í kjarna og fátækan jaðar. Þegar kreppa sverfur að tekur skrifræðisleg miðstjórn völdin, sú elíta  er ekki þjóðkjörin, hún er fulltrúi fjölþjóðlegs fjármálavalds. „Þríeykið“ – framkvæmdastjórn ESB, Evrópski seðlabankinn og AGS – setur sig hiklaust ofar þingi og ríkisstjórnum í þeim löndum Evrópu þar sem kreppan kemur harðast niður. Það brást heldur ekki að ESB varð einn nánasti og mikilvægasti bandamaður Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi. Eftir lok kalda stríðsins verður þetta æ skýrara. Í Íraksstríðinu frá 2003 hikstaði samstarfið pínulítið en helstu stríðsátök síðustu ára – í Afganistan, Líbíu, refsiaðgerðirnar gegn Rússlandi (og Sýrlandsstríðið líka þótt það sé flóknara dæmi, diplómatískt og í framkvæmd)  – hafa í praksís verið samstilltar  aðgerðir bandamannanna stóru, USA og ESB (með Ísrael og fylgiríkin í Miðausturlöndum sem mikilvæga meðspilara).

Heimsríkisstjórn
Ekki þarf að koma á óvart að í hugveituklúbbunum umræddu er oft rætt um heimsríkisstjórn. Segja má að hnattræn ríkisstjórn sé á vissan hátt rökrétt lokamark í samþjöppunar- og hnattvæðingarþróun kapítalismans. Heimsríkisstjórn tilheyrir mjög langt genginni hnattvæðingarþróun í einpóla heimi. Á hinn bóginn er skiljanlegt að slíkt stefnumið sé ekki mjög áberandi í opinberum málflutningi og yfirlýsingum.

Bilderberg Group er kannski voldugasti hugveituklúbbur Vesturblokkarinnar. Á fundi hans árið 1991 – árið sem Sovétríkin leystust upp – var David Rockefeller mættur og horfði nú fram á veginn: „Við erum þakklát Washington Post, New York Times, Time Magazine og öðrum þýðingarmiklum útgáfum, en stjórnendur þeirra hafa tekið þátt í samkomum okkar í nærri 40 ár og samt varðveitt leynd þeirra... Það hefði verið ómögulegt fyrir okkur að þróa áform okkar um heiminn ef við hefðum orðið að búa við umfjöllun fjölmiðlanna þessi ár. En heimurinn er nú háþróaðri og tilbúnari til að ganga í átt að heimsríkisstjórn (world government). Hið yfirþjóðlega vald (supernational sovereignty) menntaelítu og alþjóðlegara bankamanna er vissulega æskilegra en sú þjóðlega sjálfsstjórn sem hefur verið við lýði undanfarnar aldir.“ (heimild)

Nú var David Rockefeller er ekki einhver Jón Jónsson frekar en faðir hans eða afi. Rockefellarnir eru mesta og elsta ættarveldi  bandarísks efnahagslífis. Ekki bara það. James Wolfenssohn, sem sjálfur var bæði fyrrverandi forseti Alþjóðabankans og stjórnarmaður hjá Bilderberg Group og Council of Foreign Relations (CFR), lét svo um mælt á fundi í CFR 2005 að David Rockefeller væri „sú persóna sem hafði kannski mest áhrif á líf mitt og starf... Í raun má með sanni segja að eingin einstök fjölskylda hafi haft meirri áhrif á málefnið „hnattvæðing“ en Rockefellarnir. (heimild)

Hugsun Rockefellers um heimsríkisstjórn hefur ekki efnisgert sig í einu stjórnarráði á heimsvísu. En auðvelt er að benda á WTO, AGS, Alþjóðabankann, ESB, komandi TISA og TTIP-samninga og svo hernaðararminn, NATO, sem þenur sig út án enda. Allt eru þetta einingar og sprotar í því framkvæmdavaldi sem setur sig ofar ríkisstjórnum, kallar sig „alþjóðasamfélagið“ og meir og meir virkar sem heimsríkisstjórn. Valdamiðjan er í Washington og nærsveitum og heilastarfsemin fer mjög fram í áðurnefndum hugveituklúbbum. Stjórnmálafræðingurinn og bandaríski heimsvaldasinninn Samuel P. Huntington vísaði til World Economic Forum þegar hann talaði um heimselítuna og bjó til hugtakið „Davos-maðurinn“: Þessir elítumenn „hafa litla þörf fyrir þjóðarhollustu, líta á landamæri ríkja sem hindranir sem til allrar hamingju séu hverfandi og líta á ríkisstjórnir sem leifar úr fortíðinni sem hafa þann eina tilgang að greiða fyrir aðgerðum hinnar hnattrænu elítu.“ (heimild)

Hugveituklúbbarnir umræddu eru ekki neinar „óháðar klakstöðvar hugmynda“ heldur eru þeir umræðuklúbbar þeirra allra auðugustu í Vestrinu eins og ég nefndi. Við það má bæta: Auðmagnið, frjálsa framtakið og markaðsöflin flæða ekki bara um löndin af sjálfsdáðum. Thomas Friedman sem skrifar vikulega um alþjóðamál, efnahagsmál og hnattvæðingu í New York Times segir:


„Til að hnattvæðingin virki mega Bandaríkin ekki hika við að koma fram sem það allsráðandi risaveldi sem þau eru... Hulin hönd markaðarins getur ekki virkað án hins hulda hnefa. McDonalds getur ekki blómstrað án McDonnel Douglas sem hannaði F-15 fyrir flugher Bandaríkjanna. Og sá huldi hnefi sem leyfir tækni Silicon Valley að blómstra í öruggum heimi heitir landher, flugher og floti Bandaríkjanna.“ (heimild)

Miðflóttaöflin
En það eru fleiri hneigðir að verki í kapítalismanum en endalaus samþjöppun auðs og valds. Kapítalískt hagkerfi samanstendur jú af innbyrðis keppandi auðmagnseiningum. Og einstök kapítalísk hagkerfi þróast ójafnt. Sumar einingar og sum hagkerfi sækja á meðan önnur staðna. Ein afleiðing þess er bilkvæmar styrjaldir milli heimsvelda, eins og heimsstyrjaldirnar tvær. Og enn gerir sú hneigð sig gildandi. Efnahagsþróunin skóp þess vegna smám saman bresti í hina gullnu mynd sem áðan var nefnd, myndin af heimi með „hnattvæðingu auðhringanna í einpóla heimi“ tók að brotna upp. Ný efnahagsveldi sigldu upp að hlið Bandaríkjanna í kepninni um heimsmarkaðinn og tóku að verja eigin hagsmuni í stað þess að þjóna hinni vestrænu hnattvæðingu – og síðan í vaxandi mæli að skáka vestrænum auðhringum á heimsmarkaðnum. Þessi efnahagsveldi tóku að reka það sem Chossudovsky í upphafstilvitnuninni nefnir „þjóðlegan kapítalisma“. Hin hestu þessara ríkja eru skammstöfuð BRICS – Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka. Þegar þau koma saman mynda þau öflugan valdapól, mótpól við Vestrið. Vladimir Pútín er gott dæmi um „þjóðlegan kapítalista“ sem þjónar nú rússneskum kapítalisma, ekki vestrænum auðhringum og vestrænni hnattvæðingu líkt og fyrirrennarinn Jeltsín gerði. Öflugasta nýja efnahagsveldið, Kína, er fyrir nokkru orðið mesti iðanaðarútflytjandi heims og samkvæmt útreikningum AGS fór Kína árið 2014 fram úr Bandaríkjunum sem stærsta hagkerfi heims. Dollarinn sem haft hefur stöðu sem allsherjargjaldmiðill allra alþjóðaviðskipta – sem var grundvöllur undir „dollaraimperíalismanum“  – er að missa þá stöðu. (heimild)

En þessi efnahagsþóun frá einpóla heimi til fjölpóla heims fær ekki að fara sínu fram á forsendum efnahagslífsins. Strategistarnir í Washington líta svona á málið: Að óbreyttu tapa Bandaríkin í efnahagsstríðinu og bandarísk heimsyfirráð eru í stórkostlegri hættu. Til að mæta hinni óhagstæðu þróun í keppninni um heimsmarkaðinn þarf að styrkja pólitísk og hernaðarleg yfirráð Vestursins, enda liggja yfirburðir þess fyrst og fremst á hernaðarsviðinu, og þá yfirburði verður að nota. Viðbrögðin sýna sambland af miklum ótta og miklum hroka, sem er stórhættuleg blanda.

Stríð okkar tíma snúast einmitt um þetta, heimsyfirráð. Þegar við skoðum hvert heimsvaldasinnar beina hernaðarskeytum sínum og leitum orsaka helstu styrjalda og átaka á 21. öldinni – Írak, Afganistan, Líbía, Úkraína, Sýrland, Íran, Jemen – verðum við því öðru fremur að íhuga hernaðarlegt mikilvægi viðkomandi landa.

Alla þessa öld hafa Bandaríkin hagað sér eins og  eins og gamall mannýgur híðisbjörn vakinn af dvala sem uppgötvar að keppinautar eru komnir á óðal hans. 11. september 2001 var notaður til að koma endurnýjaðri hernaðarstefnu á, þegar Bandaríkin og NATO lýstu yfir hnattrænu „stríði gegn hryðjuverkum“. Síðan þá hefur Vesturblokkin óumdeilanlega verið „stríðsblokkin“. Bandaríkin og NATO líða nú engu ríki að sýna snefil af sjálfstæði. Bandaríkin með bandamönnum beita yfirburðum sínum og valdi til að einangra alla sem ekki hlýða, til að deila og drottna, grafa undan stöðugleika slíkra ríkja (destabilize) og koma á „valdaskiptum“.

Hvaða lönd eru dæmd til „valdaskipta“? John Pilger orðar það svo og talar þá fyrir munn Vestursins: „Nafn óvina „okkar“ hefur breyst gegnum árin, frá kommúnisma til íslamisma, en almennt er það sérhvert samfélag sem er óháð vestrænu valdi og er á hernaðarlega mikilvægu og auðlindaríku svæði, eða einfaldlega býður upp á valkost við vestræna drottnun.“ (heimild)

Glundroðaveldið
Af að horfa á aðferðir gamla risaveldisins, Bandaríkjanna, á 21. öldinni hefur hinn virti brasilíski höfundur og samfélagsrýnir Pepe Escobar kallað þau „glundroðaveldið“ og hefur gefið út bók með því nafni (Empire of Chaos, 2014). Nafngiftin skýrist í fyrsta lagi af því að risaveldið (ásamt bandamönnum) er svo miklu betra í því að rífa niður og eyðileggja en að byggja upp og í öðru lagi af því að risaveldið (ásamt bandamönnum) kýs glundroðann með eftirfarandi rökum: Ef við getum ekki drottnað yfir alþjóðakerfi byggðu á reglum hnattvæðingar munum við drottna yfir alþjóðakerfi byggðu á glundroða. Hugtak Escobars hefur af ærnum ástæðum fengið víða úbreiðslu og á sama hátt tala menn nú t.d. um hina herskáu Hillary Clinton sem „Queen of Chaos“ o.s.frv.

Herskáir íslamistar bera ekki aðeins uppi hryðjuverkaógnina – og gefa með því heimsvaldasinnum tilefni til endalausra íhlutana. Jafnhliða því eru herskáir íslamistar helstu málaliðar Bandaríkjanna og Vestursins í því að grafa undan stöðugleika og koma á „valdaskiptum“ í útvöldum löndum í íslamska heiminum. Þannig eru þeir leynivopn heimsvaldasinna, afar haganlega smíðað vopn. Þegar málum er svona fyrir komið er það efni í endalausan glundroða. Og þegar sá sem berst er sami aðili og sá sem barist er við er það efni í endalaust stríð.

Ég ætla ekki að rekja þennan hernaðarferil Vesturblokkarinnar en get bent á eigin greinar á vefnum mínum Eldmessu, t.d. þessa grein hér.  

Lengi komst Vestrið áfram með yfirgang sinn án þess að mæta teljandi andstöðu en á síðustu árum hafa helstu keppinautarnir, einkum Rússland og Kína, í vaxandi mæli myndað skipulega andstöðu gegn þeirri yfirþyrmandi drottnunarstöðu Vestursins. NATO fékk frelsi til að kyrkja Líbíu. Sýrland væri að líkindum farið sömu leið nema af því Rússland og Kína beittu neitunarvaldi í SÞ og af því Sýrland nýtur herverndar frá Rússum (án þess að ég horfi framhjá kröftugri baráttu Sýrlendinga sjálfra gegn féndum sínum). En viðbrögð Vestursins við þessari andstöðu keppinautanna eru afskaplega herská. Um það skrifar John Pilger í nýrri grein sinni, Heimsstyrjöld er byrjuð. Rjúfið þögnina:

„Á undanförnum átján mánuðum hefur mesta uppbygging herstyrks frá síðari heimsstyrjöld – undir forustu Bandaríkjanna – átt sér stað á vesturlandamærum Rússland. Ekki frá því Hitler réðist inn í Sovétríkin hafa erlendir hermenn boðað svo áþreifanlega ógn fyrir Rússland.“ Og enn fremur: „Bandaríkin umkringja Kína með neti herstöðva, með skotflaugum, orustusveitum, kjaranorkuberandi sprengjuvélum. Þessi banvæni hringbogi teygir sig frá Ástralíu til eyjanna í Kyrrahafi, Maríueyja, Marashallseyja og Guam, til Filipseyja, Tælands, Ókinava, Kóreu og yfir Evrasíu til Afganistans og Indlands.“ (heimild)

Rússlandi og Kína er í vestrænni meginstraumspressu stillt upp sem helstu ógnunum við heimsfriðinn, og Hillary Clinton og slíkir líkja Pútín við Hitler. Því til stuðnings er bent á hernám Rússa á Krím 2014 og manngerðar eyjar og flugvelli Kínverja við Spratly-eyjar í Suður-Kínahafi frá 2013-14. Filipseyjar hafa – í samráði við Bandaríkin – hafið deilu við Kína um yfirráð á eyjunum. Í grein sinni bendir Pilger á að vestræn meginstraumspressa spyrji aldrei af hverju Rússar hafi ákveðið að hernema Krím og „enginn blaðamaður í vestrænni meginstraumspressu spyr af hverju Kína sé að byggja flugvelli í Suður-Kínahafi.“ Kína hefur gegnum söguna gert tilkall til Spratly-eyja rétt eins og Rússland hefur sögulega haft yfirráð á Krím. Þetta er ekkert nýtt. Hið nýja er hið gríðarlega hernaðrbrölt Vesturvelda við landamæri og lögsögu Rússlands og Kína. Gæti það skýrt herská viðbrögð þessara gömlu stórvelda? Vestræn pressa er ein samhangandi áróðursmaskína og þetta er ein þeirra spurninga sem ekki má spyrja.

mánudagur, 23. maí 2016

Opinn fundur Alþýðufylkingar um þingkosningar 25. maí

Opinn félagsfundur Alþýðufylkingarinnar um kosningarnar framundan miðvikudaginn 25. maí kl. 20 í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, Reykjavík.
Formaðurinn, Þorvaldur Þorvaldsson, kynnir drög að kosningastefnuskrá og kosningaundirbúning.
Allir velkomnir, nema þá helst auðvaldið.

fimmtudagur, 19. maí 2016

Þorvaldur í sjónvarpsviðtali á Hringbraut

Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, var í viðtali á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í gærkvöldi og ræddi þar starf og stefnu flokksins. Horfið á þáttinn hér.

mánudagur, 16. maí 2016

Alþýðufylkingin: Opinn fundur um þingkosningar 25. maí

Opinn félagsfundur Alþýðufylkingarinnar:
Um kosningarnar framundan
miðvikudaginn 25. maí kl. 20 í Friðarhúsi, Njálsgötu 87, Reykjavík
>    Drög að kosningastefnuskrá
>    Kosningaundirbúningur
Allir velkomnir, nema þá helst auðvaldið

-- Framkvæmdastjórn

föstudagur, 6. maí 2016

1. maí ávarp Alþýðufylkingarinnar 2016

Nú eru 100 ár síðan Alþýðusamband Íslands var stofnað í miðri heimsstyrjöld, og enn eru viðsjárverðir tímar. Kreppa auðvaldsins dýpkar um allan heim þó hið gagnstæða sé látið í veðri vaka. Byrðunum er enn sem fyrr velt yfir á herðar alþýðunnar með vaxandi ójöfnuði. Verkalýðshreyfingin hefur ekki búist til varnar sem skyldi enda hefur forysta hennar bundið trúss sitt við lausnir auðvaldskerfisins og metur meira hagsmuni fjárfesta en félagslegar lausnir í þágu alþýðunnar.  


Auðstéttin herðir tökin stöðugt og flytur ýmist framleiðsluna eða verkafólkið heimshorna á milli til að geta nýtt sér ódýrasta vinnuafl sem býðst. Heimsvaldasinnar fara dólgslega um lönd og álfur og hafa þegar lagt heilu heimshlutana í rúst með hernaði. Milljónir eru hraktar á flótta og sæta vaxandi ofsóknum í flestum löndum. Á sama tíma er flóttafólk notað til að ýfa upp innbyrðis átök meðal alþýðunnar. 


Fasisminn er vaxandi ógn um allan heim. Hann þrífst ekki bara á hatri í garð flóttafólks og annarra útlendinga heldur einnig á gjaldþroti hvers konar krataflokka og uppgjöf verkalýðsforingjanna, sem hafa í raun gengið auðstéttinni á hönd. Fasistarnir fara með lýðskrumi og þykjast geta leyst öll þau vandamál sem krata-flokkarnir hafa gefist upp á. En loforð þeirra eru innantóm og ekkert stendur á bak við tal þeirra um bætt kjör aldraðra og öryrkja eða 300.000 króna persónuafslátt. Enda hafa þeir ekkert sagt um hvernig þeir ætla að ná því fram. 


Fasisminn má ekki fá að skjóta rótum hér á landi. Við verðum að sameinast til að koma í veg fyrir það. Fyrir áttatíu árum gerðu fasistar uppreisn gegn ungu lýðveldi á Spáni. Þar var Alþýðufylkingin til varnar og barðist fyrir sameiningu þjóðarinnar gegn uppreisn fasista og fyrir málstað lýðveldisins. Þó að spænska þjóðin lyti í lægra haldi fyrir sameinuðum fasistaöflum Evrópu, varð barátta hennar að lýsandi dæmi fyrir málstað sem aldrei deyr. 


Alþýðufylkingin á Íslandi mun sömuleiðis beita sér hlífðarlaust fyrir auknu lýðræði og gegn hvers konar tilhneigingum til fasisma. Við munum einnig beita okkur fyrir því að Alþýðusambandið verði á ný það sameiningarafl um hagsmuni alþýðustéttarinnar sem stofnað var til fyrir 100 árum.


Þessu ávarpi var dreift í dreifibréfi Alþýðufylkingarinnar á 1. maí.

þriðjudagur, 3. maí 2016

Ræða á baráttufundi Stefnu 1. maí 2016

Þessa ræðu flutti Björgvin Rúnar Leifsson, sem er í framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar, á morgunfundi Stefnu á Akureyri á fyrsta maí.

Fundarstjóri, ágætu fundargestir.

Í desember 2013 lagði íslenskur verkalýður upp í langa og stranga kjarabaráttu undir styrkri stjórn forystu ASÍ. Aðrar stéttir fylgdu fljótlega í kjölfarið og til að gera langa sögu stutta lauk þessari hrinu verkfalla með fullnaðarsigri launafólks vorið 2015 og var forysta ASÍ leiðandi í kjarabaráttunni allan tímann.

Hugsið ykkur eitt yndislegt andartak að ofangreint væri allt satt og rétt. Hversu væri það ekki við hæfi að geta hrósað ASÍ og forystusveitinni þar á 100 ára afmæli sambandsins. En það er nú öðru nær, því miður.

Hinn 21. desember undirritaði forysta ASÍ með Gylfa Arnbjörnsson í broddi fylkingar líklega hinn versta smánarsamning í allri 100 ára sögu sambandsins. Mig minnti að samið hefði verið um þrjú komma eitthvað prósent en þegar ég gáði að þessu á heimasíðu sambandsins kom í ljós að tímamótasamningurinn hljóðaði upp á 2,8%. 2,8%!

Auðvitað voru allir ánægðir. Atvinnurekendur þurftu varla að opna budduna. Seðlabankastjóri slapp við að hækka stýrivexti til að hamla gegn óðaverðbólgunni, sem allir vita að fylgir kjarasamningum. Og kratarnir sungu gamla sönginn um að litlar launahækkanir skiluðu mestum kaupmættinum og því meiri sem hækkanirnar eru minni. Ég velti því upp á Fésbók að skv. sömu röksemdafærslu mætti leiða líkur að því að þá fyrst yrði kaupmátturinn tryggður að launafólk tæki á sig launalækkun og fékk náttúrlega skömm í hattinn og var sakaður um útúrsnúning. Mig minnir meira að segja að einn kratinn hafi hent mér út sem fésbókarvini við það tækifæri. Bættur sé skaðinn.

Einhverra hluta vegna keyptu framhaldsskólakennarar ekki þessa röksemdafærslu. Þeir fóru í grimma kjarabaráttu vorið 2014 undir skömmum og svívirðingum frá atvinnurekendum, seðlabankastjóra og ASÍ forystunni. Skemmst er frá að segja að eftir langt og strangt verkfall náðu kennarar fram nánast öllu, sem þeir lögðu upp með og voru umsvifalaust sakaðir af forseta ASÍ um að hafa eyðilagt þær miklu kjarabætur, sem hann náði fram í desember árið áður.

Nú fóru aðrar stéttir að taka við sér. Allir með báðar heilafrumurnar starfandi sáu að það var eitthvað brogað við krataröksemdirnar. Hinir og þessir hópar leyfðu sér þá ósvífni að fara af stað með svo himinháar kröfur að bæði Gylfi og Már misstu örugglega margra nátta svefn fyrir vikið og verðbólgupúkinn á öxl þess síðarnefnda spriklaði af hrifningu. Og allt voru þettar svokallaðar hálaunastéttir, takið eftir því. Flugmenn, læknar, hjúkrunarfræðingar, alls konar BHM pakk og þaðan af skrýtnari þjóðfélagshópar. Ekki var minnst á strípuð byrjunarlaun hjá þessum hópum, vaktaálag og aðra slíka þætti. Ég man t.d. eftir því að fyrrum samkennari minn tjáði mér árið 2010 þegar hin svokallaða vinstristjórn, réttnefnd krataríkisstjórn, setti lög á verkfall flugvirkja, að þeir ættu ekki betra skilið fyrir að vera með heimtufrekju á svimandi launum. Þegar ég reyndi að malda í móinn og benti á að byrjunarlaun flugvirkja væru aðeins um 308 þúsund á mánuði sagði hann að það væri ekkert að marka því að þeir væru allir á vöktum, yfirvinnu og ég veit ekki hvað. Heldur sljákkaði í eðalkratanum þegar ég spurði á móti hvort við ættum þá ekki að gæta sanngirni og tala líka um heildarlaun framhaldsskólakennara en ekki strípuð byrjendalaun.

Ekki fengu flugmenn betri útreið en flugvirkjar. Einhverra hluta vegna láðist skoða árslaun t.d. flugmanna hjá Icelandair þegar menn hneyksluðust sem mest á mánaðarlaununum. Eins og allir vita dregur Icelandair saman seglin á veturna og segir þá upp slatta af flugmönnum og ætlast svo til að þeir séu klárir í bátana næsta vor. Leit á netinu með leitarstrengnum "uppsagnir flugmanna hjá Icelandair" leiðir ýmislegt forvitnilegt í ljós, m.a. að hið svokallaða tap Icelandair 2014, sem félagið ætlaði að taka á sig til að geta nú haldið áfram að selja krötum sem öðrum "ódýra" flugmiða, er nokkurn veginn sama tala og sparnaðurinn á veturna þegar stórum hluta flugmanna er sagt upp.

Að lokum sá þjóðlega aflandsríkisstjórnin sig knúna til að grípa í taumana. Sett voru lög á slatta af verkföllum. Öll voru þessi lög neyðarúrræði að sjálfsögðu, enda þjóðarhagsmunir í húfi eins og alltaf þegar ráðist er að verkfalls- og samningsréttinum. Forvitnilegust þótti mér þó heilög reiði krataflokkanna á alþingi, sem voru einhvern veginn alveg búnir að gleyma lögunum, sem þeir settu þó sjálfir á flugvirkja árið 2010.

Já, talandi um hagsmunaklisjuna. Það geta aldrei verið hagsmunir hinna vinnandi stétta að alþingi setji lög á verkföll og breytir þá engu hvað viðkomandi stétt hefur í laun, hvaða kröfur hún gerir eða hver áhrif verkfallsins eru. Lög á verkföll þjóna eingöngu hagsmunum auðvaldsins. Hér verður einnig að minnast á bullið um að það sé einhver nýlunda að verkföll bitni á þriðja aðila, svo sem almenningi, því að það hafa þau alltaf gert með beinum eða óbeinum hætti. Það getur hreinlega ekki hjá því farið að víðtækar verkfallsaðgerðir einnar eða fleiri stétta hafi víðtæk áhrif í þjóðfélaginu, enda væru verkföll þá til lítils ef þau hefðu ekki áhrif og mynduðu því ekki þrýsting úr sem flestum áttum á viðsemjendur, hverjir sem þeir eru.

Nei. Ef við föllumst á að það geti verið réttlætanlegt í einhverjum tilfellum að stöðva verkföll með lögum erum við komin út á virkilega hálan ís. Þá verðum við t.d. að ákveða hvar hin launalegu mörk liggja, þ.e. hvað má starfsstétt hafa í hámarkslaun til að hún geti leyft sér að fara í verkfall til að berjast fyrir kröfum sínum. Ef við föllumst á að einhverjir almannahagsmunir séu verkföllum ofar erum við um leið að segja að verkfallsrétturinn, eina leiðin sem launafólk hefur til að berjast fyrir kjörum sínum, sé ekki ómissandi og ekki hinn mikilvægasti allra almannahagsmuna. Ef við föllumst á þetta munum við vakna upp við það einn góðan veðurdag að einhver hægrisinnuð ríkisstjórn, t.d. núverandi ríkisstjórn, hafi með lagasetningu afnumið verkfalls- og samningsréttinn. Þá held ég að kratar með Gylfa og ASÍ forystuna í broddi fylkingar myndu bókstaflega ærast af fögnuði.

Vorið 2015 logaði allt í verkföllum og svo undarlegt sem það kann að virðast voru það einkum félög innan vébanda ASÍ, sem stóðu fyrir þeim. Einhvern veginn hafði það ekki gengið eftir að verðbólgan færi af stað eftir kjarasamninga framhaldsskólakennara og raunar held ég að forystumenn hinna ýmsu verkalýðsfélaga hafi verið búnir að fá nóg af undirlægjuhætti ASÍ forystunnar við auðvaldið. Það er skemmst frá því að segja að þessum aðgerðum lauk með glæstum sigri verkalýðsfélaga í landinu, sem náðu fram mestu af kröfum sínum. Í þessu sambandi verður að minnast sérstaklega á þátt verkalýðsfélagsins Framsýnar á Húsavík og Verkalýðsfélags Akraness en þessi tvö félög með Aðalsteinn Árna Baldursson annars vegar og Vilhjálm Birgisson hins vegar í broddi fylkingar rufu skörð í samstöðu Samtaka Atvinnulífsina með því að semja beint við atvinnurekendur í sínum umdæmum og náðu raunar betri samningum en heildarsamningarnir voru á endanum. Einhver laug því að mér einhvern tímann að Vilhjálmur þessi væri framsóknarmaður. Ég leyfi mér þá að vitna í Deng gamla og vona að ég fái ekki bágt fyrir að mér er sléttsama um litinn á kattarskömminni ef hún bara veiðir mýsnar. Sé það rétt að Vilhjálmur sé frammari er hann næstum örugglega eini alminlegi frammarinn í fjósinu.

Hvað gerði forysta ASÍ á meðan á öllum þessum ósköpum stóð? Dró hún vagninn? Ekki aldeilis! Hún drattaðist á eftir í bullandi fýlu og gekk meira að segja svo langt að saka Aðalstein og Vilhjálm um að rjúfa skörð í samstöðu verkalýðsins. Talandi um að snúa hlutunum á hvolf.

Ekki lét Gylfi og kó þar við sitja. Nei, nú var ráðist á frjálsan samningsrétt stéttarfélaganna í landinu með SALEK samkomulaginu. Það gengur náttúrlega ekki að einstaka verkalýðsfélög vogi sér að lúta ekki óskeikulli forystu stétt-með-stétt niðurrifsaflanna.

Áður en ég lýk þessari umfjöllun um kjarabaráttu síðustu ára er rétt að minnast á óvæntan en ánægjulegan dóm kjararáðs í BHM málinu. Ríkisstjórnin sparaði launagreiðslur í tvo mánuði áður en hún lét til skarar skríða en hafandi launahækkanir annarra stétta, svo sem framhaldsskólakennara, fyrir framan sig var kjararáði varla stætt á öðru en að dæma félögum í BHM umtalsverðar launahækkanir.

Það er vissulega undarlegt eftir alla þessa löngu og ströngu kjarabaráttu og allar þessar launahækkanir að ekki skuli allt vera komið úr böndunum. Verðbólgupúkinn og Már gráta á öxlum hvors annars og kaupmátturinn hefur batnað. Það skyldi þó aldrei vera að það sé eitthvað að kratahagfræðinni?

Nú vendi ég kvæði mínu í kross.

Í aflöndum er ekkert skjól
útum geima og heima,
enda munu íslensk fól
öllu búin að gleyma.

Í aflöndum er ekkert skjól,
ekkert nema mæða.
Ekki munu íslensk fól
á því nokkuð græða.

Auðmenn flestir erkifól,
á það vil ég minna:
Hurfu þeir í skattaskjól
með skattinn okkar hinna.

Frá hruni hefur mikið verið rætt um íslenska spillingu og hefur sú umræða náð nýju flugi með skattaskjólsafhjúpununum. Sumir, sem virðast vera í eins konar öfugum þjóðrembugír, virðast einskis óska fremur en að Ísland sé mest og best í öllu, þ.m.t. spillingunni. Látum það liggja milli hluta. Ég hef meiri áhyggjur af ýmiss konar skyndilausnum á spillingunni í boði hinna aðskiljanlegustu stjórnmálaafla. Sumir róa á mið fasismans og reyna í skjóli þjóðrembunnar að kveikja hræðslu og þar með hatur í garð allra, sem ekki eru ljóshærðir, hvítir og kristnir aríar. Sérstaklega eru flóttamenn frá stríðshrjáðum múslimalöndum einkar hættulegir að mati þessa fólks. Því miður er hér ekki um að ræða lítinn, einangraðan hóp í Þjóðfylkingunni því að þessar skoðanir leynast víða í þjóðfélaginu. Gegn fasismanum verðum við að berjast með öllum tiltækum ráðum hvar sem er og hvenær sem er því að þessi ógn er mjög raunveruleg í allri Evrópu um þessar mundir.

Sem betur fer eru ekki öll stjórnmálaöfl á þessum miðum. Má þar m.a. nefna pírata og Dögun. Báðir þessir flokkar vilja umbætur og báðir vilja ráðast gegn spillingunni og er það lofsvert og ekki skal ég efast um að þar fylgir hugur máli. Vandinn er hins vegar að það skal allt gert undir formerkjum hins kapítalíska hagkerfis og er þá viðbúið að minna verði úr en efni standa til. Það þekkjum við af reynslunni. Þó að píratar vilji helst ekki kenna sig við vinstri né hægri eru lausnir þeirra í rauninni enn ein greinin á hinum kratíska meiði. Tökum einstaklingsframboð sem dæmi. Sumir yfirlýstir stuðningsmenn pírata vilja ganga svo langt að öll framboð til setu á aþingi séu á einstaklingsgrunni og jafnvel að banna listakosningar stjórnmálaflokkanna. Nú hef ég í sjálfu sér ekkert á móti einstaklingskjöri til alþingis og tel það í rauninni aukið lýðræði en mér er ómögulegt að sjá að spillingin í þjóðfélaginu minnki eitthvað við síkt fyrirkomulag, hvað þá að meina fólki að bjóða sig fram í nafni stjórnmálaflokka, sem getur varla kallast mjög lýðræðileg aðgerð.

Nú hefur formaður Samfylkingarinnar boðað alveg nýja stefnu. Flokkurinn á að vera róttækur umbótaflokkur, sem sækir inn á miðjuna. Þetta þykja mér kúnstug tíðindi og er e.t.v. eitthvað fyrir höfunda næsta áramótaskaups að moða úr. Það breytir engu á hvað mið krataflokkarnir róa, hvort sem þeir eru stórir eða smáir, á þingi eða utan. Umbætur á hinu kapítalíska kerfi innan hins kapítalíska kerfis eru fullreyndar. Það verður að fara aðrar leiðir. Kapítalisminn snýst um einkavæðingu fjármagnsins og velferðarkerfisins. Jafnvel í hinum svokölluðu norrænu velferðarríkjum er þrýstingurinn í átt til einkavæðingar.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í grein eftir Þorvald Þorvaldsson, formann Alþýðufylkingarinnar, þar sem hann rifjar upp nokkur afrek krataríkisstjórnarinnar:

"Með því að einkavæða bankana aftur og færa þá í hendur auðmönnum var í raun öllum leiðum lokað til neinna umbóta. Þegar bankarnir soga til sín öll verðmæti sem þeir koma höndum yfir út úr raunhagkerfinu verður lítið eftir til velferðar og annarra þarfa samfélagsins. Þess vegna fylgdi því blóðugur niðurskurður til velferðar. Um leið fengu bankarnir frítt spil til að reka þúsundir fátækra fjölskyldna út á gaddinn, sem ýmist hafa flúið land eða sligast nú undir hækkandi húsaleigu. „Eigendur“ tryggingafélaga sem fengu styrki frá ríkinu í stað þess að vera þjóðnýtt, eru nú aftur farnir að taka sér háar arðgreiðslur.
Þetta er ekki „eitthvað sem misfórst“. Þetta var kjarni stjórnarstefnunnar og almennir flokksmenn fengu engin tækifæri til að hafa áhrif á hana. Þannig var búið í haginn fyrir íhaldsstjórnina og vaxandi ójöfnuð sem enn heldur áfram. Enn fremur hafði þessi stjórn þau áhrif að ýta undir ranghugmyndir um vinstristefnu."

Mig langar að biðja ykkur um að rifja upp í huganum hvaða flokkar sendu frá sér ályktanir um stuðning við kjarabaráttu undangenginna ára og gegn stéttasamvinnunni, svo sem SALEK samkomulaginu. Eftir því sem ég best veit var það aðains einn flokkur. Hér eru nokkur dæmi um ályktanir Alþýðufylkingarinnar frá síðasta ári:

Fyrst er hér Ályktun um verkfallsrétt:

"Alþýðufylkingin varar við hugmyndum fjármálaráðherra um endurskoðun á verkfallsréttinum, sem eru ekkert annað en illa dulbúin ósk íhaldsaflanna um afnám þessa sama réttar. Minna má á að Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, hótaði flugumferðastjórum lögum á verkfallsréttinn árið 2001 og aðrar stéttir hafa fengið svipaðar hótanir gegnum árin.
Verkfallsrétturinn er eina vopnið, sem bítur í kjarabaráttu launafólks. Honum er aldrei beitt nema í neyð og bitna verkföll alltaf á báðum aðilum hvað svo sem formaður Sjálfstæðisflokksins heldur fram. Þá hljóta verkföll alltaf að bitna með beinum eða óbeinum hætti á ótengdum aðilum, enda getur hreinlega ekki hjá því farið að víðtækar verkfallsaðgerðir einnar eða fleiri stétta hafi víðtæk áhrif í þjóðfélaginu, enda væru verkföll þá til lítils ef þau hefðu ekki áhrif og mynduðu því ekki þrýsting úr sem flestum áttum á viðsemjendur, hverjir sem þeir eru."

Þá kemur Ályktun um verkföll:

"Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar lýsir yfir fullum stuðningi við boðun verkfalla hjá verkalýðsfélögunum í landinu og hvetur til að þeim verði fylgt eftir til sigurs.
Efnahagslegur og félagslegur ójöfnuður í landinu hefur vaxið jafnt og þétt undanfarna áratugi og er orðinn algerlega óþolandi. Þar vegur ekki þyngst mismunur milli starfsgreina heldur ójöfnuður milli vinnandi fólks og auðstéttarinnar sem mergsýgur samfélagið. Nýlegir atburðir varpa skýru ljósi á viðhorf auðstéttarinnar til þeirra sem skapa henni auðinn. Sannleikurinn er hins vegar sá að hún kemst ekki af án verkafólksins en við komumst betur af án auðstéttarinnar.
Í því ljósi ættu öll verkalýðsfélög í landinu að sameinast í baráttu fyrir stórfelldum launahækkunum þeirra lægst launuðu og miklu átaki til aukins jafnaðar. Eignarhald HB Granda og annarra auðfyrirtækja á atvinnutækjum og uppsöfnuðu auðmagni er ekki sjálfgefið."

Að lokum tvær ályktanir um SALEK.

"Alþýðufylkingin leggst eindregið gegn hugmyndum Samtaka atvinnulífsins og ASÍ-forystunnar um það sem þeir kalla „nýjar leiðir í kjarasamningum til að tryggja frið á vinnumarkaði og raunverulegar kjarabætur.
Hið nýja „vinnumarkaðsmódel“, eins og það er kallað er ekkert annað en aðför atvinnurekenda að verkfalls- og samningsrétti launafólks, með fullum stuðningi verkalýðsforystunnar í landinu.
Alþýðufylkingin harmar að ASÍ-forystan skuli enn vera við „stétt-með-stétt“ heygarðshornið og skorar á forystu BSRB að láta ekki teyma sig út í fúafenið."

Því miður reyndist forysta BSRB leiðitöm

"Nýlega bárust fréttir af svokölluðu rammasamkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins um breyttar aðferðir við gerð kjarasamninga þar sem aukin miðstýring verði í forgrunni.
Samkvæmt lögum er samningsréttur verkafólks í höndum einstakra stéttarfélaga. Þetta samkomulag er lítt dulbúin árás á samningsrétt verkalýðsfélaganna og gróf tilraun til að grafa undan honum. Það er ekki langsótt að halda því fram að samkomulag þetta sé brot á lögum um stéttafélög og vinnudeilur enda koma fram í því hugmyndir um breytingar á þeim lögum.
Allt er þetta gert undir því yfirskini að þannig megi ná betri árangri í bættum kjörum og betri hagstjórn. Reynslan sýnir hins vegar að stéttasamvinnustefnan hefur aldrei skilað neinum árangri til bættra kjara fyrir verkafólk. Það hefur aldrei náð neinu fram án baráttu. Við óbreytt ástand eru lágmarkskjör alþýðunnar hins vegar stillt við hungurmörk til að tryggja auðstéttinni hámarksgróða. Sú breyting sem helst þarf að gera á vinnumarkaðsmódelinu er að losna við sjálftöku fjármálaauðvaldsins út úr raunhagkerfinu og styðja baráttu vinnandi fólks fyrir réttlátum hlut."

Tilvitnunum lýkur.

Svarið við stéttasamvinnu er stéttabarátta. Það er aðeins einn flokkur á Íslandi, sem stendur óskorað með vinnandi fólki í kjarabaráttu. Það er Alþýðufylkingin.

Svarið við einkavæðingu er aðeins eitt: Félagsvæðing. Félagsvæðing bæði fjármálakerfisins og ekki síður að vinda ofan af einkavæðingu velferðarkerfisins, sem aðeins verður gert með því fyrrnefnda. Og það er aðeins einn flokkur á Íslandi með þessa stefnu. Það er Alþýðufylkingin.

Kjörorð Stefnu, félags vinstri manna, sem heldur þennan baráttufund, eru:
* Kosningar breyta ekki landslaginu – aðeins samtakabarátta alþýðu dugir!
* Vekjum stéttarfélögin – endurheimtum kaupmáttinn!
* Vinna handa öllum er mannréttindi!
* Verjumst árásunum á velferðarkerfið!
* Félagsvæðum fjármálakerfið!
* Verndum sjálfsákvörðun og lýðræði – burt með ESB-umsókn!
* Enga aðild að innrásarstríðum – Ísland úr NATO!
* Gegn vestrænum íhlutunum í Sýrlandi og Íran!
* Jafnrétti kynjanna!
* Auðvaldskreppa, auðvaldsrányrkja og auðvaldsstríð... Svarið er sósíalismi!

Það er aðeins einn flokkur á Íslandi, sem hefur öll þessi kjörorð í stefnu sinni. Það er Alþýðufylkingin.

Alþýðufylkingin lofar ekki að hennar stefna muni sjálfkrafa leiða til upprætingar allrar spillingar á Íslandi. Alþýðufylkingin lofar heldur ekki neinum patentlausnum. Það er hins vegar kominn tími á að reyna aðrar leiðir en leið einkavæðingarinnar, leið kapítalismans. Ég skora á alla, sem eru búnir að fá upp í kok af kratískum lausnum á kapítalismanum að koma til liðs við Alþýðufylkinguna. Ég skora á ykkur öll að hjálpa okkur að bjóða fram í öllum kjördæmum landsins í næstu alþingiskosningum.