þriðjudagur, 29. nóvember 2016

Af stofnfundi Alþýðufylkingarinnar í Norðausturkjördæmi

Stofnfundur Alþýðufylkingarinnar Norðausturkjördæmi var haldinn laugardaginn 26. nóvember 2016 í Heiðarbæ. Formaður er Björgvin R. Leifsson. Á fundinum voru samþykktar eftirtaldar ályktanir:

1. Ályktun um kjarabaráttu grunnkólakennara og afskiptasemi forseta ASÍ
Stofnfundur Alþýðufylkingarinnar Norðausturkjördæmi haldinn 26.11.2016 í Heiðarbæ lýsir yfir fullum stuðningi við kjarabaráttu grunnskólakennara og fordæmir um leið afskiptasemi forseta Alþýðusambands Íslands og annarra aðila af baráttunni.

2. Almenn stjórnmálaályktun
Stofnfundur Alþýðufylkingarinnar Norðausturkjördæmi haldinn 26.11.2016 í Heiðarbæ skorar á væntanlega ríkisstjórn og Alþingi Íslendinga að stöðva nú þegar alla einka- og markaðsvæðingu á innviðum samfélagsins en fara þess í stað að félagsvæða þessa sömu innviði á nýjan leik. Stórt skref í þá átt væri að félagsvæða fjármálakerfi landsins að fullu.

Félagsvæðing gegn markaðsvæðingu!

mánudagur, 28. nóvember 2016

Stuðningur við grunnskólakennara

Alþýðufylkingin Norðausturkjördæmi lýsir yfir fullum stuðningi við kjarabaráttu grunnskólakennara og fordæmir um leið afskiptasemi forseta Alþýðusambands Íslands og annarra aðila af baráttunni.

Samþykkt á stofnfundi Alþýðufylkingarinnar Norðausturkjördæmi
Heiðarbæ í Reykjahverfi 26. nóvember 2016

föstudagur, 25. nóvember 2016

Hvammstangi á sunnudag - minnum á stofnfund í Norðausturkjördæmi á morgun laugardag

Fundur Alþýðufylkingarinnar á Hvammstanga
Alþýðufylkingin verður með fund á kaffihúsinu Hlöðunni, Brekkugötu 2, Hvammstanga, sunnudaginn 27. nóvember 2016, kl. 16:00.
Fundarefni: Fyrirhuguð stofnun kjördæmisfélags Alþýðufylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi.
Þorvaldur Þorvaldsson formaður Alþýðufylkingarinnar mætir og spjallar við áhugasama.
Ekki þarf að skrá sig fyrirfram og fundurinn er opinn öllum áhugasömum.
Kaffi og meðlæti selt á staðnum.

Auk þess minnum við á stofnfund kjördæmisfélags í Norðausturkjördæmi á laugardag, sjá auglýsingu.

miðvikudagur, 23. nóvember 2016

Stofnfundur Alþýðufylkingarinnar Norðausturkjördæmi á laugardag

Alþýðufylkingin boðar til stofnfundar kjördæmisfélags flokksins í Norðausturkjördæmi í Heiðarbæ í Reykjahverfi laugardaginn 26. nóvember 2016 kl. 15:00.
Nýir félagar velkomnir!
Fundargjald er að lágmarki kr. 1.000,- (fundaraðstaða og kaffi er innifalið) en hægt er að kaupa bæði mat og gistingu á staðnum og fellur þá fundargjald niður.
Verð á kvöldmat er kr. 4.000,- (líkleg tímasetning er kl. 18)
Verð á gistingu (morgunverður innifalinn) er kr. 9.000,- (tveggja manna herbergi) eða 2.500,- (svefnpokapláss).
Heitur pottur á staðnum :)
Nánari upplýsingar veitir Björgvin R. Leifsson í síma 8636605 eða tölvupósti brl@brl.is
Félagsvæðing gegn markaðsvæðingu!

föstudagur, 18. nóvember 2016

Alþýðufylkingin keik: svæðisfélög í undirbúningi

Þótt Alþýðufylkingin hefði gjarnan viljað fá fleiri en 575 atkvæði í kosningunum í október, erum við ánægð með þann árangur sem við náðum við að kynna flokkinn og málstað hans. Nýja félaga hefur drifið að undanfarið.

Ólíkt öðrum flokkum erum við ekki háð þingsætum eða opinberum styrkjum, enda höfum við starfað án slíks frá upphafi. Nú fylgjum við kosningabaráttunni eftir með uppbyggingu flokksins. Á næstu 6-8 vikum stendur til að stofna kjördæmafélög.

Ef þið viljið vera með, en hafið ekki ennþá gengið til liðs við flokkinn, er ekki eftir neinu að bíða.

Vésteinn Valgarðsson
varaformaður

miðvikudagur, 16. nóvember 2016

Samstöðuyfirlýsing til alþjóðlegu verkalýðsráðstefnunnar í Mumbai

A greeting of solidarity
to the World Conference Against War,
Exploitation and Precarious Labour
held in Mumbai November 18th - 20th 2016
from the executive committee of the People's Front of Iceland

The People's Front of Iceland greets the Mumbai conference with solidarity. Workers of the world are facing severe threats and obstacles in their pursuit of social justice, peace and security. The powers that are up against us are monopoly capitalism, finance capitalism and imperialism, a three-headed monster. The only means we have to fight it are the means of the class struggle, where working class solidarity is sine qua non. We must stand as one and not let us be divided by nationality, race, caste, gender, religion or other identity factors. We must not be led astray by opportunism, reformism or bourgeois populism. The road to justice is the road out of capitalism. That is what we must focus on.

People's Front of Iceland Executive Committee

föstudagur, 11. nóvember 2016

Kosningarnar – árangur og lærdómar

Það var óraunhæft var að reikna með að fylgi Alþýðufylkingarinnar teldist í prósentum. 0,3% er
Þórarinn Hjartarson
kannski í lægra lagi eftir býsna vasklega kosningabaráttu, þó er það ekki afleit byrjun. Það voru 575 manns sem kusu okkur.

Það er vel kunnugt, og auðskilið, að fólk flest kýs taktískt og mjög var fókusað á vegasaltið: stjórnarflokkarnir gegn vinstra bandalagi. Það að greiða R atkvæði þýddi að láta EKKI lóð sitt á umrætt vegasalt – og vera þar með óhjákvæmilega sakaður um að „hjálpa íhaldinu“! Fólkið sem greiddi okkur atkvæði vissi vel að atkvæðið nýttist ekki til þingsæta en vildi væntanlega í staðinn efla Alþýðufylkinguna sem raunverulegan vinstri valkost. Sem sagt nokkuð staðfast fólk sem tók það að byggja flokk til framtíðar fram yfir áhrif á stjórnarmyndunarbrölt hér og nú.

Ég var skeptískur í byrjun og sagði að fyrir byltingarsinnaðan flokk (sem vill steypa auðvaldinu) hefði lítið upp á sig að bjóða fram til þings áður en fólk hefði neitt séð til hans, þ.e.a.s. áður en hann hefði eitthvað gert sig gildandi í stéttabaráttunni. Fyrir því er nokkur reynsla að alþýða fer ekki að treysta róttækum sósíalistum nema hún hafi handfasta reynslu af þeim í stéttabaráttunni. Mælskur málflutningur einn nægir ekki. Það er nefnilega svo að málflutningur byltingarsinna er hreint ekkert meira lokkandi fyrir alþýðu en t.d. málflutningur endurbótasinnaðra krata. M.a.s. getur hann að nokkru virkað fráhrindandi, t.d. tal um nauðsyn harðrar stéttabaráttu, hvað þá tal um nauðsyn byltingar. Það sem á endanum verður að skera úr í málinu og skilja hafrana frá sauðunum er reynsla alþýðunnar í stéttabaráttunni og sá stuðningur sem hún fær þar frá ólíkum stjórnmálaöflum.

Og það var nóg af lokkandi kratískri endurbótastefnu á boðstólnum. VG, Samfylking, Björt framtíð og Dögun eru flokkar sem einkennast af dæmigerðum kratískum áherslum (ásamt mismiklu innslagi af græna litnum m.m.). Og Píratar, Flokkur fólksins og Íslenska þjóðfylkingin höfðu að stórum hluta áherslur í sömu átt (hins vegar eru Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn markaðshyggjuflokkar, og að hluta til Framsókn líka). Sem sagt kratisminn var mjög ríkulega í boði, og alls ekki fluttur af minni mælsku en stefna Alþýðufylkingarinnar. Og ef fólk hafði fengið nóg af gömlu vinstri flokkunum (VG, Samfylkingu) var þarna slatti af nýjum og nýlegum valkostum – aðrir en við – til að hlusta á og taka afstöðu til. Íslenskri alþýðu er vorkunn að sjá ekki út úr þessu bleika skýi.

Ég er samt ekki þess sinnis að framboðið hafi verið mistök. Framboðið sem slíkt tókst vel og var framkvæmt af þrótti, meiri þrótti en ég hafði búist við. Róttæk alþýða og róttæklingar almennt vita nú af Alþýðufylkingunni. Kosningarnar ýttu á að Alþýðufylkingin mótaði róttæka stefnu við íslenskar aðstæður (stefnu sem er þó síst hafin yfir gagnrýni) og náði að kynna hana talsvert. Kosningapróf („Stundarinnar“) benda til að stefnan hafi fallið í góðan farveg þó ekki hafi skilað sér í kjörklefann.

Í svona ströggli fæst líka reynsla, það lærist að afhjúpa veilurnar og mótsagnirnar í málflutningi mótherja, ekki síst gerfivinstri- og hentistefnuflokka, t.d. afhjúpa VG í NATO-málum, ESB-málum, umhverfismálum síðustu ríkisstjórnar, afhjúpa tilræði ESB-flokkanna við sjálfstæðið, misskiptingarpólitík Sjálfstæðisflokksins...

Sem sagt: kosningaræður geta verið nytsamlegar en þær breyta ekki samfélaginu. Enda berst sósíalisminn okkur ekki frá Alþingi. Nú þarf að reka stéttabaráttu á grundvelli stefnunnar og sanna sig í starfi.

Þórarinn Hjartarson

þriðjudagur, 1. nóvember 2016

Kynningarmyndbandið komið á YouTube

Kynningarmyndband Alþýðufylkingarinnar, gert fyrir og birt af RÚV, er komið á YouTube.

(Uppfært: kominn linkur á rétt myndband!)