miðvikudagur, 5. október 2016

Útilokum samstarf við Íslensku þjóðfylkinguna

Eyjan.is greinir frá því í frétt í gær að allir stjórnmálaflokkarnir á Alþingi, "auk Viðreisnar", útiloki samstarf við Íslensku þjóðfylkinguna. Ekki var haft samband við Alþýðufylkinguna við vinnslu þeirrar fréttar. Því viljum við gera kunnugt að Alþýðufylkingin mun ekki starfa með Íslensku þjóðfylkingunni.

Út af fyrir sig ætti það að segja sig sjálft, ekki síst í ljósi nýlegra ummæla Gústafs Adolfs Níelssonar, oddvita þeirra í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu, um að ÍÞ mundi alls ekki taka þátt í að mynda vinstristjórn, enda væri það "glapræði" að sögn Gústafs Adolfs.

Hástemmd loforð um bætt kjör öryrkja og aldraðra ná auðvitað aldrei fram að ganga í hægristjórn. Og rasismi nær ekki fram að ganga í vinstristjórn. Þannig að augljóst er, að ÍÞ hafa fyrirfram útilokað sig frá báðum möguleikum. Alþýðufylkingin mun aðstoða ÍÞ í því að útiloka sig frá áhrifum.

Vésteinn Valgarðsson
varaformaður Alþýðufylkingarinnar
og oddviti í Reykjavíkurkjördæmi norður