fimmtudagur, 6. október 2016

Svör til Samtaka hernaðarandstæðinga

Þessar spurningar koma frá Samtökum hernaðarandstæðinga. Svörin eru frá Alþýðufylkingunni.

1. Er stjórnmálahreyfingin hlynnt veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu?

Sv: Nei: Alþýðufylkingin er alfarið á móti veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu og vill yfirgefa það hið fyrsta. Á meðan landið er í bandalaginu viljum við misnota aðstöðuna til þess að spilla fyrir einróma ákvörðunum um stríðsglæpi ef hægt er.

2. Margt bendir til að bandarísk hernaðaryfirvöld hafi áhuga á auknum umsvifum á Íslandi. Hver er afstaða stjórnmálahreyfingarinnar til þess máls?

Sv: Alþýðufylkingin er alfarið andvíg því að heimsvaldasinnað hernaðarbrölt fari fram á Íslandi.

3. Er stjórnmálahreyfingin hlynnt reglubundnu æfingaflugi Nató-herþota á Íslandi sem gengur undir heitinu loftrýmisgæsla?

Sv: Nei, og við erum líka andvíg því að herskip leggist hér við bryggju.

4. Styður stjórnmálahreyfingin að Ísland verði friðlýst fyrir umferð og geymslu kjarnavopna?

Sv: Hiklaust. Og annarra gereyðingarvopna líka.

5. Telur stjórnmálahreyfingin að þátttaka Íslands í stríðum á liðnum
árum (Kosovo, Afganistan, Írak og Líbýa) hafi bætt stöðu heimsmála eða gert hana verri?

Sv: Þessi stríð hafa tvímælalaust gert stöðu mála verri (spyrjið bara þá sem hafa misst ættingja, útlimi eða heimili) og þátttaka Íslands í þeim er smánarblettur.

6. Telur stjórnmálahreyfingin að Ísland ætti að axla ábyrgð á þátttöku sinni í stríðsrekstri liðinna ára með því að taka á móti fleira flóttafólki?

Sv: Já, en það er ekki nóg að taka á móti fleirum, það þarf líka að gera það betur ef vel á að fara. Ísland ætti líka að axla ábyrgð með því að draga fyrrum ráðamenn fyrir rétt fyrir aðild þeirra að glæpum gegn mannkyni. En umfram allt ætti Ísland að axla ábyrgð með því að beita sér framvegis af alefli gegn heimsvaldastefnunni og fyrir friði í heiminum.

7. Hversu líklegt er að fulltrúar stjórnmálahreyfingarinnar muni styðja næsta stríð Bandaríkjastjórnar í fjarlægum löndum, veljið einn eftirtalinna svarmöguleika:
(Mjög ólíklegt, frekar ólíklegt, hvorki né, frekar líklegt, mjög líklegt)

Sv: Það vantar möguleikann: "útilokað", hvort sem það er í fjarlægum löndum eða nálægum eða jafnvel gegn þeirra eigin fólki, fátæklingum, blökkumönnum, indíánum og öðrum.