miðvikudagur, 5. október 2016

Stefnan í menntamálum (svar til Skuggakosninga)

Spurt er: Hver er stefna ykkar í menntamálum?
Svar: Alþýðufylkingin lítur á menntun sem hluta af lífsgæðum sem allir eigi rétt á og eigi því að vera samfélagsleg verðmæti fremur en markaðsvara. Því viljum við ókeypis skólagöngu á öllum skólastigum, fyrir alla aldursflokka, m.a. þannig að öldungadeildir opinberra framhaldsskóla verði opnaðar aftur. Við viljum afnema tengsl LÍN við bankakerfið, þannig að LÍN verði félagslega rekinn og peningarnir sem hann lánar komi úr sameiginlegum sjóðum en ekki frá bönkunum. Námslán eiga að duga fyrir framfærslu og við viljum að þau, eins og önnur lán í félagslega reknu fjármálakerfi, verði vaxtalaus. Við viljum að frammistöðutengda lánaniðurfellingu, og að námi loknu verði eftirstandandi lán fryst í tíu ár, en felld niður að þeim tíma liðnum fyrir fólk sem hefur starfað þann tíma á Íslandi. Í fyllingu tímans viljum við taka upp námsstyrkjakerfi, líkt því sem er í Danmörku, í stað námslána.
Eins og sjá má vantar mikið upp á að LÍN-frumvarp menntamálaráðherra uppfylli óskir okkar!

Við viljum stórauka fjárframlög til list- og verknáms, enda er það forsenda þess að fögur fyrirheit námsskráa geti ræst.

Þótt leikskólar og grunnskólar séu formlega á könnu sveitarstjórna, mundi Alþýðufylkingin engu að síður beita sér fyrir stórátaki í þeim ef hún sæti menntamálaráðuneytið. Í leikskólunum vantar mannskap vegna þess að það vantar peninga. Í grunnskólum viljum við gera nám fjölbreyttara og víðfeðmara: Við viljum m.a. að opinberir skólar bjóði upp á sérhæfingu fyrir börn sem hafa sérstaklega mikinn áhuga á íþróttum eða listum eða handverki eða dýrum, svo nokkuð sé nefnt. Við viljum að móðurmálskennsla leggi meiri áherslu á að njóta móðurmálsins, fá tilfinningu fyrir því og skapa með því. Við viljum að heimspeki verði skyldunámsgrein á öllum skólastigum. Undirstöðuatriði þjóðfélagsins ætti að kenna í grunnskólum, s.s. efnahagsmál, mannréttindi, umhverfismál og kunnáttu í því að keyra bíl. Kennsla um vímuefni á að vera hreinskilin og heiðarleg, því skilningur er betri forvörn en ótti. Kynfræðsla á að vera eðlileg og spennandi og þarf að byrja mun fyrr en hún gerir.

Alþýðufylkingin hefur sérstakar áhyggjur af ískyggilega miklu brottfalli nemenda af erlendum uppruna. Því viljum við veita þeim sérstakan stuðning í skólakerfinu, m.a. með almennilegri móðurmálskennslu, svo móðurmál þeirra verði þeim (og samfélaginu) styrkur en ekki veikleiki.
Okkar tillögur í menntamálum kosta mikla peninga, en við erum sannfærð um að þær muni margborga sig til lengri tíma litið -- og auk þess vitum við hvaðan við ætlum að taka peningana sem þær kosta: úr fjármálakerfinu, sem við viljum félagsvæða, svo það verði rekið sem þjónusta hins opinbera við fólk og fyrirtæki, en ekki í gróðaskyni. Með öðrum orðum: Brot af þeim peningum sem í dag renna til fjármálakerfisins, mestmegnis í formi vaxta, mundi auðveldlega borga endurreisn menntakerfisins, auk margra annarra innviða þjóðfélagsins.

(Þetta svar hefur áður birst í umfjöllun Skuggakosninga um Alþýðufylkinguna).