þriðjudagur, 11. október 2016

Stefna Alþýðufylkingarinnar í umhverfismálum (svar til Skuggakosninga)

Spurt er: Hver er ykkar stefna í umhverfismálum?
Svar: Við teljum að gróðasókn kapítalismans sé mesta umhverfisvandamálið. Bæði vegna þess að hún veldur rányrkju á náttúruauðlindum og bruðli með orku, og vegna þess að í sókninni eftir meiri gróða eru gríðarlega miklir og mengandi vöruflutningar um heiminn. Auk þess er reynt að auka gróðann með því að spara í mengunarvörnum eða förgun spilliefna.

Stærsta verkefnið í umhverfismálum er því að setja kapítalismanum svo kirfileg mörk, að hagsmunir fólks og umhverfis verði öruggir.

En það er fleira. Það þarf að draga úr útblæstri farartækja og það viljum við m.a. gera með því að efla almenningssamgöngur mjög mikið, bæði á sjó og landi og í lofti. Það þarf að koma umhverfisvænum orkugjöfum á skipaflotann og á landbúnaðarvélar, og stuðla að sjálfbærum og lífrænum landbúnaði. Og það þarf að endurheimta votlendi og skóga, þar sem land hefur verið ræst fram eða rutt en er ekki ræktað.

Við viljum ekki að olía verði unnin á Drekasvæðinu.


Við viljum alls ekki að það verði lagður rafmagnssæstrengur til Skotlands, vegna þess að þá mundi verð fyrir íslenskt rafmagn hækka mjög mikið, sem yrði afar dýrt fyrir landsmenn og mundi setja miklu meiri þrýsting á fleiri virkjanir með tilheyrandi náttúruspjöllum.

(Þetta svar hefur áður birst í umfjöllun Skuggakosninga um Alþýðufylkinguna).