mánudagur, 17. október 2016

Spurningar og svör um skattamál

Þessar spurningar fengum við frá Speglinum. Okkur þykir rétt að birta svörin hverjum sem vill lesa:

Sp. Hver er stefna flokksins í skattamálum? Vill hann óbreytt kerfi? Vill hann skattahækkanir, skattalækkanir eða einhverja blöndu? Leggur hann til einhverjar aðrar breytingar á eðli skattkerfisins?

Sv. Alþýðufylkingin vill færa skattbyrðina frá efnaminni einstaklingum og yfir á fyrirtæki. Stærsta mál okkar, félagsvæðing fjármálakerfisins, er samt líka skattamál í okkar augum, því vextirnir af lánum eru ígildi þungs skatts sem fólk borgar ekki bara í gegn um leigu og afborganir heldur líka í hærra verði fyrir vörur og þjónustu. Sá skattur rennur til fjármálakerfisins: banka og lífeyrissjóða, og reyndar líka tryggingafélaga, -- og sá skattur mundi lækka til muna við félagsvæðingu kerfisins, þ.e. þegar fjármálakerfið yrði yfirtekið af hinu opinbera, sem færi að reka það sem þjónustu í stað þess að taka út úr því gróða.

Sp. Ef flokkurinn vill gera breytingar á skattkerfinu. Hvernig hyggst hann útfæra þær?

Sv. Auk hinna stóru breytinga á samsetningu fjármálakerfis, raunhagkerfis og efnahags heimila, ætti að lækka virðisaukaskatt af nauðsynjavörum á borð við mat, hreinlætisvörur, bækur og föt. Það ætti að hækka skatta eða gjöld á ferðaþjónustuna, ekki aðeins til þess að standa undir sameiginlegum kostnaði við hana, heldur einnig til að draga úr vexti efnahagsbólunnar sem hún skapar. Auðlindir til lands og sjávar á að lýsa þjóðareign og krefjast umtalsverðra gjalda fyrir stórfelld afnot af þeim.

Sp. Hver er samfélagslegur ávinningur af þeim breytingum sem lagðar eru til, að mati flokksins?

Sv. Samfélagslegur jöfnuður er aðalávinningurinn, ekki fyrst og fremst vegna þess að breytingarnar færi verðmæti frá ríkum til fátækra, heldur frekar vegna þess að alþýðan mundi halda meira eftir af sínu ef hún losnaði við afætuna sem fjármálakerfið er.

Sp. Hvaða áhrif telur flokkurinn að þær breytingar sem hann leggur til hafi á stöðu ríkissjóðs?

Sv. Þær mundu ugglaust bæta hana til muna, meðal annars þar sem ríkissjóður mundi sjálfur njóta mjög góðs af því að fá félagslega fjármálaþjónustu og losna við vaxtabyrðar.

Sp. Hversu mikið svigrúm telur flokkurinn sig hafa til þess að eiga við kerfið? Hversu langt er hægt að ganga í skattalækkunum eða skattahækkunum?

Sv. Okkar stefna er að vinda ofan af markaðsvæðingu og fjármálavæðingu kapítalismans. Þau uppsöfnuðu vandamál hafa hlaðist upp í áratugi, svo það er nóg í flórnum sem þarf að moka. Svigrúmið gagnvart kerfinu ræðst þó ekki helst af því hvernig okkur vegnar í kosningunum heldur frekar hvernig alþýðu landsins tekst að skipuleggja sig og knýja fram breytingar með baráttu.