þriðjudagur, 4. október 2016

Þrjú aðalatriði: neyðaráætlunin (svar vegna Skuggakosninga)

Spurt er: Hver eru þrjú helstu stefnumál ykkar fyrir alþingiskosningarnar 2016?
Svar: Við erum með þriggja liða „neyðaráætlun“, hluti sem við gerum í fyrstu viku ef við fáum tækifæri til þess. Það er:
  1. Færa örorkubætur upp í samræmi við launaþróun í landinu frá hruni.
  2. Stöðva alla sölu ríkiseigna þangað til tími gefst til að velja hverjar eiga að vera félagslega reknar.
  3. Setja a.m.k. milljarð í Landspítalann undir eins, áður en byrjað er á kerfisbreytingum.

Félagsvæðing fjármálakerfisins er okkar aðalmál, og samhliða því félagsvæðing innviða samfélagsins. Með félagsvæðingu meinum við andstæðuna við markaðsvæðingu: að taka eigi viðkomandi starfsemi úr rekstri þar sem borga þarf einhverjum gróða, og reka hana í staðinn sem þjónustu við samfélagið, sem er rekin af samfélaginu. Með fjármálakerfið þýðir það að hið opinbera ætti að reka banka sem veitir lán og aðra fjármálaþjónustu án þess að taka af því gróða, tekur s.s. ekki vexti af lánum, og veitir fólki þannig húsnæðislán af hóflegri stærð.

(Þetta svar hefur áður birst í umfjöllun Skuggakosninga um Alþýðufylkinguna).