föstudagur, 28. október 2016

Málefni ungs fólks

Með flokki áhyggjuefna sem kallast „málefni ungs fólks“ er verið að gefa í skyn að resti
Erna Lína Baldvinsdóttir
n af 
stjórnmálunum komi ungu fólki ekki við. Öll málefni koma ungu fólki við og málefni ungs fólks koma öllum við. Þó ég sé ung og þurfi ekki á hjúkrunarheimili að halda, þá á ég ömmur og langafa sem munu þurfa þess og foreldrar mínir munu vonandi þurfa ellilífeyri einhvern tímann á lífsleiðinni.

Ég er kannski ung en ég hef samt áhyggjur af eldri borgurum landsins. Þetta áhyggjulausa líf gamalmenna er varla til í íslensku samfélagi. Ellilífeyrir er ekki nógu hár og greiðsluþátttakan í heilbrigðiskerfinu of há.

Unga fólk nútímans er gamla fólk framtíðarinnar. Ég vil vita að þegar ég verð gömul verði séð almennilega um mig. Ég get ekki komið með þá kröfu á komandi kynslóðir ef ég og mín kynslóð er ekki tilbúin til að gera hið sama fyrir þá eldri borgara sem eru hér í dag. Við þurfum að koma vel fram við gamalt fólk og hjálpa því án þess að taka af því sjálfstæðið.

Nú er vaxandi offita í landinu. Reynt er að koma á móts við börn með því að veita þeim aðgang að íþróttum og allt er gott og blessað með það. En hver er að hugsa um gamla fólkið? Eldri borgarar þurfa einnig að fá aðgang að ýmsum íþróttum. Nú eru flest íþróttahús landsins tóm á meðan ungmennin eru í skólum. Hvernig væri að nýta þann tíma fyrir þá sem eru eldri og geta ekki unnið. Þetta þarf að vera gjaldfrjálst og við þurfum að hvetja fólk á öllum aldri til að hreyfa sig.

Hollt mataræði þarf að vera ódýrt. Það gengur ekki að setja á sykurskatt og láta þar kyrrt liggja. Þá er bæði hollur og óhollur matur orðinn of dýr fyrir meðaljóninn sem og eldri borgara. Fyrst og fremst þarf að niðurgreiða hollmeti.

Við unga fólkið þurfum að hugsa út fyrir okkar eigin hagsmuni og sýna eldri borgurum að okkur er ekki sama um þau.


--Erna Lína Baldvinsdóttir
í 2. sæti á lista Alþýðufylkingarinnar í Suðurkjördæmi