miðvikudagur, 12. október 2016

Innflytjendur og flóttamenn, stefna Alþýðufylkingarinnar (svar til Skuggakosninga)

Spurt er: Hver er stefna ykkar í innflytjenda og flóttamannamálum?
Svar: Í innflytjendamálum viljum við fyrst og fremst komið sé fram við innflytjendur sem jafningja, með sömu réttindi og sömu skyldur og aðrir. Þeir hafa ákveðnar sérþarfir sem þarf að sinna vel, einkum eru það innflytjendabörn sem þurfa sérstaka tungumálakennsla, þannig að móðurmál þeirra verði styrkleiki en ekki veikleiki -- bæði fyrir þau sjálf og fyrir samfélagið.

Við viljum að Ísland búi sig undir að taka á móti miklum fjölda flóttamanna, bæði með því að byggja upp úrræðin sem þarf til að geta sinnt þörfum þeirra, og með því að skapa sátt um það í þjóðfélaginu, enda verður að vera sátt til þess að það sé hægt. Það er ekki hægt að taka á móti miklum fjölda flóttamanna ef það þýðir að upplausn verði í samfélaginu, og þess vegna þarf að vanda sig mjög mikið til að það heppnist vel.

Aðalstefnan í flóttamannamálum er samt að berjast gegn því sem rekur fólk á flótta til að byrja með: berjast gegn stríði, gegn hungri, gegn drepsóttum og gegn náttúruhamförum.

Við viljum gera Ísland að sérstökum griðastað fyrir fólk sem er ofsótt vegna þess að það sé samkynhneigt eða af öðrum persónulegum ástæðum, og fyrir fólk sem hefur ljóstrað upp um glæpi herveldanna.

Við viljum stofna embætti umboðsmanns fyrir aðflutta, sem hjálpar bæði innflytjendum, flóttamönnum og farandverkafólki að þekkja réttindi sín og skyldur og njóta mannréttinda, kjarasamninga og annars sem á að gilda í landinu.

Við viljum rækta alls konar menningartengsl við lönd þaðan sem margir innflytjendur á Íslandi koma, og við lönd þangað sem margir Íslendingar hafa flutt. 

(Þetta svar hefur áður birst í umfjöllun Skuggakosninga um Alþýðufylkinguna).