fimmtudagur, 27. október 2016

Hverjum treystir þú?

Vinstri-græn hafa undanfarið slegið um sig með spurningunni "Hverjum treystir þú?"
Vésteinn Valgarðsson
Þetta er eðlileg spurning í aðdraganda kosninga, og fyrst þau gefa þennan bolta upp er best að skoða málið. Og vegna þess að verkið lofar meistarann, þá er marktækast að skoða síðasta kjörtímabil.

Byrjum á húsnæðisstefnunni: Húsnæðisstefna VG var að láta bankana sjá um að útfæra húsnæðisstefnuna, til að geta sjálft þvegið hendur sínar af henni. Í skjóli þess voru gjaldþrota heimili flokkuð: Fólk gat fengið verulegar niðurfellingar ef það gat staðið í skilum með restina. Aðrir voru settir á nauðungaruppboð -- á færibandið, eins og það var kallað innan bankanna.

Tökum næst efnahagsstefnuna. VG er ekki með neitt sem er hægt að kalla alvöru efnahagsstefnu. En Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er það hins vegar. Að forsögn hans var rekin hér harðsvíruð stefna niðurskurðar og markaðsvæðingar í nafni ríkisstjórnarinnar sem kenndi sig við vinstri.

Eigum við að tala um Evrópusambandið? Hvaða ályktanir dregur fólk, þegar sama fólkið hefur það á stefnuskránni að "hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB" og greiðir síðan atkvæði með aðildarumsókn? Og þráast enn við að vilja þjóðaratkvæði um eitthvað sem þau segjast sjálf vera á móti?

Einkavæðing bankanna hin síðari. Magma-málið. Olíuleit á Drekasvæðinu. Stóriðja á Bakka. Áform um rafmagnssæstreng. Við þekkjum öll þessa sögu, en við þurfum að muna hana núna þegar við eigum að fara að kjósa aftur.

Ég var í VG mestan hluta síðasta kjörtímabils. Ég barðist á hæl og hnakka gegn öllum þessum málum, innan flokks sem utan, þar til ég sá að það var fullreynt. Eftir meira en þrjú ár af innanflokksátökum sá ég að þetta var tímasóun. Þau mundu aldrei koma með út í uppgjör við fjármálaauðvaldið. Fyrsta varnarlína auðvaldsins var innan flokksins.

Ef ég treysti Vinstri grænum, væri ég þar enn. En reynslan segir mér að sá sem ætlar í slag við auðvaldið hefur ekkert að gera þar. Þess vegna var ég með í að stofna Alþýðufylkinguna. Hún er flokkur sem skilur inntak og gildi félagslegra lausna, vísar leiðina út úr kapítalismanum í stað þess að ætla sér að lappa enn einu sinni upp á hann, og veit hvaða krafta þarf til að koma á nauðsynlegum umbótum. Það eru kraftar stéttabaráttunnar.


Almenningur í landinu þarf að taka virkan þátt í baráttunni frá degi til dags, því hún fer ekki bara fram í kosningum til þings eða á þingi. En hún fer meðal annars fram þar. Alþýðufylkingin er raunhæfur og raunsær valkostur til vinstri sem leitar ekki friðkaupa við fjármálaauðvaldið, sem grætur ekki kreppuna heldur safnar liði. Verið með. Kjósið okkur núna, en takið líka slaginn eftir kosningarnar.

Vésteinn Valgarðsson
oddviti Alþýðufylkingar í RVK-N