þriðjudagur, 4. október 2016

Hvað ber að gera við fækkun kennara?

Menntavísindasvið Háskóla Íslands spyr, Alþýðufylkingin svarar.

Sp. 1. Hvað mun ykkar flokkur gera í ríkisstjórn eða á Alþingi næsta kjörtímabil til að bregðast við yfirvofandi skorti á grunnskólakennurum?

Það þarf að hækka laun kennara, bæta vinnuaðstæður og auka tíma til undirbúnings. Það verður að minnka kennsluskyldu, í klukkutímum talið, til að gefa meiri tíma til allra aukaverkanna sem fylgja kennslunni, til að fara yfir próf, til að tala við sálfræðinga og foreldra o.fl. og svo þarf að bæta við stuðningsfulltrúum eða stuðningskennurum ef skóli án aðgreiningar á að vera raunhæfur. Frekari lausnir ber að útfæra í samráði við kennara. Til þess að þetta allt sé mögulegt þarf að bæta í tekjustofna sveitarfélaganna, sem hafa málaflokkinn á sinni könnu, og til þess að það sé hægt þarf að félagsvæða fjármálakerfið.

Alþýðufylkingin mun berjast fyrir kjarabótum grunnskólakennara hvort sem hún verður innan eða utan Alþingis en fyrst og fremst stendur það upp á kennarana sjálfa að knýja þær fram með stéttabaráttu, eins og nýlegt dæmi framhaldsskólakennara sýnir glöggt.

Sp. 2. Hvað mun ykkar flokkur gera í ríkisstjórn eða á Alþingi næsta kjörtímabil til að bregðast við þeim skorti sem er á leikskólakennurum?

Það þarf að hækka laun leikskólakennara, bæði til að halda í menntaða kennara og til þess að fá nýtt fólk til að mennta sig. Ef leikskóli á að veita menntun þurfa kennararnir að hafa tíma til að undirbúa hana. Aðrar lausnir mundum við vilja útfæra í nánu samráði við leikskólakennara sjálfa.

Eins og með grunnskólana þarf að auka tekjustofna sveitarfélaganna til að þau geti staðið sína pligt og farsælasta leiðin til þess er að félagsvæða fjármálakerfið. Rétt eins og grunnskólakennarar, þurfa leikskólakennarar fyrst og fremst að knýja fram kjarabætur sínar sjálfir, og stéttabaráttan er leiðin til þess, eins og dæmi framhaldsskólakennara sýnir. Þá baráttu mun Alþýðufylkingin styðja, og taka þátt í henni eftir megni, hvort sem hún verður innan eða utan Alþingis.