þriðjudagur, 25. október 2016

Hagmunir alþýðunnar í fyrirrúmi

Guðmundur Sighvatsson oddviti Alþýðufylkingarinnar í Suðurkjördæmi sat fyrir svörum Suðra:
Hver eru helstu baráttumál og stefnu Alþýðufylkingarinnar?
Í kosningastefnuskrá Alþýðufylkingarinnar 2016 er drepið á flestum baráttumálum flokksins. Ég segi að flest okkar stefnumál snerti íbúa Suðurlands á einn eða annan hátt þó stefnuskráin sé ekki samin með hagsmuni einstakra landshluta í huga heldur leggjum áherslu á að hagsmunir alþýðunnar nái fram að ganga.
Guðmundur Sighvatsson
Alþýðufylkingin hefur áhyggjur af  hve fjarað hefur undan byggð víða um land. Með frekari grisjun byggðar þar sem hún er strjálust blasir við hrun sem hefur í för með sér margþættan samfélagslegan skaða. Víða hafa yngri kynslóðir flutt burt og lítil endurnýjun átt sér stað í áratugi. Alþýðufylkingin beitir sér fyrir því að snúa þessari þróun við og gera fólki kleift að viðhalda byggð í öllu landinu.
Við teljum að margvísleg áform flokksins stuðli að þessu markmiði. Þar má nefna almenna félagsvæðingu í fjármálakerfinu og innviðum samfélagsins, stóreflingu og aukna fjölbreytni innlends landbúnaðar, byggðatengingu veiðiheimilda, eflingu heilbrigðisþjónustu, samgangna, skóla og internetsambands á landsbyggðinni, og fleira mætti nefna.
Þetta gerist þó ekki af sjálfu sér og getur tekið nokkurn tíma. Til að landsbyggðinni blæði ekki út áður en hún fær möguleika á að rétta úr kútnum vill Alþýðufylkingin beita sér fyrir landshlutatengdum skattaívilnunum til að stuðla að endurnýjun og auðvelda endurreisn byggðar um allt land til framtíðar.
Ég mun því tilgreina þau atriði sem ég tel að brenni helst á íbúum kjördæmisins.
Landbúnaður
Búvörur eru meðal nauðþurfta fólks og því hagsmunamál allra að framleiðsla þeirra standi á traustum grunni og sé sjálfbær í umhverfislegu jafnt sem efnahagslegu tilliti. Við munum styðja gerð búvörusamninga sem tryggja bændum skikkanlega afkomu og þar með öllum landsmönnum innlendar landbúnaðarafurðir. 
Helstu markmiðin sem felast í sjálfbærni eru fæðuöryggi (nægur matur), matvælaöryggi (heilnæmur matur), atvinnusköpun, fjölskyldubúskapur, viðhald byggðar til sveita með virkum tengslum við menningartengda ferðaþjónustu, aðgerðir gegn samþjöppun: verksmiðjubúskap og jarðasöfnun auðmanna eða fyrirtækja, velferð dýra og náttúru og skynsamleg landnýting.
Alþýðufylkingin boðar markvissa eflingu lífræns búskapar, þar sem tekið verði tillit til orkusparnaðar og útblásturs gróðurhúsalofttegunda, auk hollustu matvæla. Við viljum stuðla að staðbundinni framleiðslu og neyslu búsafurða til að draga úr langflutningum. Við viljum viðhalda líffræðilegri fjölbreytni dýra og gróðurs, þar með talið gömlu góðu íslensku búfjárkynjanna, sem og villtra dýra, ekki síst laxa og silungastofna.
Eðlilegt er að landbúnaðurinn sé varinn fyrir samkeppni við framleiðslu sem byggi á ósjálfbærum framleiðsluháttum, illri meðferð búfénaðar eða notkun láglaunavinnuafls. Opinber stuðningur við landbúnað á fela í sér eflingu jarðvegsauðlindarinnar og uppbyggingu í sjálfbærum landbúnaði til framtíðar.
Við viljum gefa landbúnaðinum sérkjör á raforku: selja bændum rafmagn á kostnaðarverði. Við viljum að gróðurhúsabændum verði gefið heitt affallsvatn þar sem því verður við komið. Setja þarf af stað átak til að þróa og innleiða umhverfisvæna orkugjafa fyrir landbúnaðarvélar.
Veigamesti opinberi stuðningurinn við landbúnaðinn er þó að koma félagsvæddu fjármálakerfi á laggirnar, og losa bændastéttina, eins og aðrar stéttir, undan áhyggju- og skuldaklafa vegna fjármagnskostnaðar.
Sjávarútvegur
Stefna Alþýðufylkingarinnar í sjávarútvegsmálum byggist á umhverfisvernd, sjálfbærni, jöfnuði, réttlæti og stöðugleika sjávarútvegsbyggðanna.
Íslenska kvótakerfið dugar vel til að stjórna stofnstærðum og verjast hruni fiskistofna en öðru máli gegnir um úthlutun aflaheimilda. Það er einfaldlega siðlaust að útgerðir „eigi“ óveiddan afla og að hann geti gengið kaupum og sölum milli útgerðarmanna, svo ekki sé talað um útleigu á óveiddum afla.
Þróa verður leiðir til að vinda ofan af eignfærslu kvótans og tryggja að afraksturinn af auðlindinni skili sér til þjóðarinnar. Innkalla þarf allar fiskveiðiheimildir og úthluta verulegum hluta þeirra til byggðarlaga sem byggja tilvist sína á sjávarútvegi og geta tekið við aflanum til vinnslu. Full greiðsla skal koma í ríkissjóð fyrir veiddan fisk enda er auðlindin sameign þjóðarinnar.
Óheimilt verði að braska með veiðiheimildir og skal ónýttum veiðiheimildum skilað til endurúthlutunar eftir forgangsröðun sem tekur tillit til samfélagslegra þátta. Ef útgerðarmenn kveinka sér undan minnkandi gróða í eiginn vasa og reyna að hindra breytingar, verður ríkið að vera tilbúið að leysa þá undan okinu og yfirtaka stærstu útgerðarfélögin.
Við viljum gefa handfæraveiðar frjálsar og stuðla að auknu vægi umhverfisvænna veiðarfæra. Við viljum efla vísindin í sjávarútveginum og m.a. auka rannsóknir á áhrifum veiðarfæra á hafsbotninn. Þá þarf að gera átak í þróun og innleiðingu umhverfisvænna  orkugjafa fyrir fiskiskipaflotann.
Ferðaþjónusta
Á Íslandi hefur álag á byggð og náttúru af völdum ferðamennsku, bæði innlendrar og erlendrar, vaxið mjög á seinni árum og sér ekki fyrir endann á þeirri þróun. Sjálfsagt og eðlilegt er að bæði ferðaþjónustuaðilar og ferðamenn greiði fyrir uppbyggingu þjónustu við greinina af hálfu ríkis og sveitarfélaga. Þetta má gera á ýmsa vegu, svo sem með hækkun virðisaukaskatts í efsta þrep, upptöku „borgarskatta“ fyrir sveitarfélög og komu- eða brottfarargjalda, en tryggja verður að þessi gjöld verði eyrnamerkt þeirri uppbyggingu og viðhaldi, sem þarf til að ferðamennska á Íslandi fái þrifist með sómasamlegum hætti, og svo auðvitað öryggismálin. Má nefna sem dæmi ferðamannastaði, vegi, merkingar, fræðslu o.s.frv.
Velferð og heilbrigði
Endurreisn heilbrigðiskerfisins hefur algeran forgang hjá Alþýðufylkingunni, enda er verkið óvinnandi öðruvísi en sem algert forgangsverk.
Heilbrigðiskerfinu hefur verið leyft að drabbast niður, það stendur stórskaðað eftir áratuga tímabil frjálshyggjunnar, óháð því hvaða borgaralegu stjórnmálaflokkar hafa verið í ríkisstjórn. Það er því sár og vaxandi þörf fyrir að heilbrigðiskerfið verði endurreist á öllum sviðum: spítalarnir og heilsugæslan, á landsbyggðinni og höfuðborgarsvæðinu. Það þarf að róttækar breytingar á lyfjaiðnaði og lyfjaverslun. Það þarf að taka sálfræðiþjónustu og tannlækningar inn í opinbera heilbrigðiskerfið. Það þarf að auka útgjöld til þessa fjársvelta málaflokks en ekki síst þarf að nota peningana betur í heilbrigðismál og minna í arð handa fyrirtækjum sem lifa á heilbrigðiskerfinu, enda er tilgangur kerfisins, og á að vera, að stuðla að sem bestri heilsu landsmanna.
Niðurskurður í heilbrigðismálum er ekki sparnaður, vegna þess að heilsuleysi er dýrt fyrir þjóðfélagið og skerðir lífskjör og efnahag fólks. Við höfum ekki efni á að spara við okkur í heilbrigðismálum.
Markmið okkar í heilbrigðismálum er að allir geti fengið þá heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa eftir því sem tækni og þekking leyfir, án tafa og án endurgjalds og að sem mestu leyti í sínu heimahéraði. Þetta eru mannréttindi, og heilbrigðiskerfi sem nær ekki þessu máli er ekki fyrsta flokks.
Fyrsta flokks heilbrigðisþjónusta er fyrir alla. Núna leitar fimmti hver Íslendingur sér ekki læknis vegna kostnaðar, sem markaðshyggjumenn réttlæta með tali um kostnaðarvitund. Það er bull sem við munum ekki hlusta á. Heilbrigðisþjónustan á að vera gjaldfrjáls og opinber og borgast með skattfé. Félagsvæðing heilbrigðiskerfisins beinir fjármunum mest þangað sem þörfin er mest þörf.
Alþýðufylkingin vill stofna breiðan starfshóp stjórnmálaflokka, hagsmunasamtaka og fræðimanna sem vilja félagslegt heilbrigðiskerfi, sem muni móta tillögur um endurreisn kerfis sem þjónar öllum landsmönnum án endurgjalds. Ef stefna okkar steytir á andstöðu munum við leita fulltingis almennings í þjóðaratkvæðagreiðslum eða með öðrum aðferðum.
Alþýðufylkingin vill endurreisa sjúkrahúsin í Hafnarfirði og í Reykjanesbæ, og gefa sjúkrahúsunum á Akranesi og Selfossi innspýtingu. Niðurskurður þar eykur álag á Landspítalann og lengir þar með biðlista. Enduruppbygging léttir þar af leiðandi á LSH, styttir biðlista og bætir því heilbrigðisþjónustuna.
Hnignun sjúkrahúsþjónustu utan höfuðborgarsvæðisins er vandamál sem ekki má afneita. Fæðingardeildir, skurðstofur og fleiri tegundir sjúkrahúsþjónustu eiga að vera aðgengilegar sem víðast á landinu. Þess vegna eigum við að endurreisa og styrkja sjúkrahúsin á Akureyri, Ísafirði, Vestmannaeyjum, Neskaupstað, Stykkishólmi og víðar, þannig að sem mest sjúkrahúsþjónusta verði í boði í heimabyggð.
Heilsugæslan á að jafnaði að vera staðurinn sem fólk kemur fyrst á þegar það kennir sér meins. Þar á að leysa það sem hægt er þar, og beina fólki rétta leið með það sem heilsugæslan ræður ekki við. Þannig mundu sjúklingar forgangs raðast betur og peningar nýtast betur, fyrir utan það almenna líkamlega og andlega utanumhald sem fólk fær hjá heimilislækni. Við viljum að sálfræðiþjónusta verði tekin inn í starfsemi heilsugæslunnar.
Samgöngumál
Tryggja þarf almenningi aðgang að góðu, tíðum og ódýrum almenningssamgöngum í lofti, á láði eða legi. Þetta er ekki bara velferðarmál, heldur er þetta einnig umhverfismál því að með stórbættum almenningssamgöngum má leiða líkur að því að notkun einkabílsins minnki töluvert. Vandinn á Íslandi er að almenningssamgöngur eru í mörgum tilfellum ekki raunhæfur kostur. Þó er mikilvægt að efla almenningssamgöngur alls staðar á landinu þar sem kostur er og renna stoðum undir aukna notkun þeirra. Skilyrði fyrir því er að þær séu félagslega reknar og ekki á gróðaskyni. Auk þess þarf að félagsvæða alla orkusölu og aðra innviði samgöngukerfisins. Koma þarf í veg fyrir einkavæðingu og gjaldtöku á vegum.
Flýta þarf rafvæðingu samgangna eftir því sem kostur er með nauðsynlegu þjónustuneti við rafbíla. Ríkið á að skaffa rafbílum rafmagn án endurgjalds til að hvetja fólk til að eignast þá, enda er rafmagnið framleitt í stórum stíl innanlands en einnota orkugjafarnir innfluttir og borgaðir með erlendum gjaldeyri.
Viðhald og lagning nýrra vega hefur engan veginn haldist í hendur við álagið, sem eykst ár frá ári og er nú svo komið að vegfarendum stafar beinlínis hætta af ástandi veganna. Breikka þarf alla helstu vegi landsins og ljúka við að skipta út einbreiðum brúm fyrir tvíbreiðar. Enn fremur þarf að setja bundið slitlag á alla malarvegi á láglendi.
Tvöföldun hluta Reykjanesbrautar hefur þegar sannað hve áhrifarík sú framkvæmd var með stórfækkum umferðaslysa. Nauðsynlegt er því að klára strax þá framkvæmd og þá sem hafin var á Suðurlandsvegi.
Samgöngur milli lands og Eyja
Við vitum ekki enn hvernig hinn nýi Herjólfur mun reynast, en hitt er nokkuð víst að betrumbætur þarf að gera á hafnarmannvirkjunum á Bakka ef skipið á að geta athafnað sig þar allt árið um kring. 
Rafmagnsverð til garðyrkjubænda
Já eins og að framan greinir í kaflanum um landbúnað vill Alþýðufylkingin veita garðyrkjubændum sérkjör á rafmagni og heitu vatni.
Um háskóla í héraði
Alþýðufylkingin hefur ekki ályktað um þetta atriði sérstaklega en minnir á að Alþýðufylkingin stendur m.a. fyrir að jöfnuður og jafnrétti verði meginregla í öllu samfélaginu. Komið verði með raunhæfum aðgerðum í veg fyrir mismunun á grundvelli kynferðis, kynþáttar, kynhneigðar, búsetu og samfélagsstöðu að öðru leyti. Háskóli Íslands ætti að teygja þjónustu sína betur út fyrir höfuðborgarsvæðið.
ESB
Alþýðufylkingin vill tafarlaus og formleg slit á aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Tal um þjóðaratkvæðagreiðslu um slit eða framhald er blekking og áróður: Alþingi samþykkti umsókn Íslands með fyrirvörum sem ESB ræðir ekki. Að fella þá niður væri ígildi nýrrar umsóknar og fæli í sér eindreginn vilja til aðildar. Tal um að „skoða hvað sé í boði“ er líka blekking og áróður, enda höfum við meira en nógar upplýsingar um hvað er í boði, til þess að hafna aðild Íslands fortakslaust og strax, og aðildarviðræður við ESB fela í sér aðlögun en ekki bara sakleysislega skoðun. Að sjálfsögðu viljum við halda áfram að eiga viðskipti og önnur samskipti við Evrópulöndin, bara ekki á kostnað lýðræðis, jafnaðar og velferðar.
Uppboð á aflaheimildum
Alþýðufylkingin hafnar uppboðsleiðinni svokölluðu þar sem sú leið myndi styrkja koma á eignarhaldi stórútgerðarinnar á kostnað annarra útgerða ekki síst smábátaútgerðar.
Stefna Alþýðufylkingarinnar í sjávarútvegsmálum byggist á umhverfisvernd, sjálfbærni, jöfnuði, réttlæti og stöðugleika sjávarútvegsbyggðanna.
Íslenska kvótakerfið dugar vel til að stjórna stofnstærðum og verjast hruni fiskistofna en öðru máli gegnir um úthlutun aflaheimilda. Það er einfaldlega siðlaust að útgerðir „eigi“ óveiddan afla og að hann geti gengið kaupum og sölum milli útgerðarmanna, svo ekki sé talað um útleigu á óveiddum afla.
Þróa verður leiðir til að vinda ofan af eignfærslu kvótans og tryggja að afraksturinn af auðlindinni skili sér til þjóðarinnar. Innkalla þarf allar fiskveiðiheimildir og úthluta verulegum hluta þeirra til byggðarlaga sem byggja tilvist sína á sjávarútvegi og geta tekið við aflanum til vinnslu. Full greiðsla skal koma í ríkissjóð fyrir veiddan fisk enda er auðlindin sameign þjóðarinnar.
Óheimilt verði að braska með veiðiheimildir og skal ónýttum veiðiheimildum skilað til endurúthlutunar eftir forgangsröðun sem tekur tillit til samfélagslegra þátta. Ef útgerðarmenn kveinka sér undan minnkandi gróða í eiginn vasa og reyna að hindra breytingar, verður ríkið að vera tilbúið að leysa þá undan okinu og yfirtaka stærstu útgerðarfélögin.
Við viljum gefa handfæraveiðar frjálsar og stuðla að auknu vægi umhverfisvænna veiðarfæra. Við viljum efla vísindin í sjávarútveginum og m.a. auka rannsóknir á áhrifum veiðarfæra á hafsbotninn. Þá þarf að gera átak í þróun og innleiðingu umhverfisvænna  orkugjafa fyrir fiskiskipaflotann.
Birtist fyrst í Suðra en hefur einnig birst á Pressunni.