mánudagur, 24. október 2016

Félagsvæðing fjármálakerfisins og tregðulögmál kerfisins

Þorteinn Bergsson bóndi, í 1. sæti Alþýðufylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, skrifar:
Félagsvæðing fjármálakerfisins er miðlægt atriði í stefnuskrá Alþýðufylkingarinnar. Með henni hyggjumst við stórbæta hag almennings og fyrirtækja í landinu og þá segir sig sjálft að hagur
Þorsteinn Bergsson
ríkissjóðs batnar um leið. En hvernig á að koma á félagsvæðingu fjármálakerfisins? Eru þetta ekki bara draumórar? Hvað með að stofna samfélagsbanka, leysir það ekki vandann? Það segja sumir, en með hvaða peningum? Peningum ríkisins, væntanlega, það fást varla aðrir til að leggja í það, samfélagsbankinn á jú ekki að taka til sín hagnað.
Eignarhald ríkisbankanna
En þeir sem tala um samfélagsbanka sem einhverja lausn ættu að gá að því að það þarf reyndar ekki að stofna svona banka, ríkið á nú þegar banka (m.a.s. fleiri en einn). En því miður standa málin nú þannig að í stað þess að nota eigendavald sitt til að láta banka sína hætta öllu okri, hvort sem er í vaxtamun eða þjónustugjöldum, (m.ö.o. gera bankann að n.k. samfélagsbanka) lætur ríkið einhverja sjálfstæða stofnun, þar sem raðað er inn markaðstrúuðum, hægrisinnuðum kontóristum sjá um sína aðkomu að rekstri ríkisbankanna. Útkoman verður sú að þeir haga sér síst betur en einkabankar í okurstarfsemi sinni og ráðherrar (jafnvel svokallaðra vinstri flokka á sínum tíma) yppa bara öxlum og segja; ja,við ráðum þessu nú ekkert, Bankasýsla ríkisins fer með þessi mál. Þarna eru menn bara að skjóta sér undan ábyrgð og ef yfirboðarar Bankasýslu ríkisins hafa í dag ekki vald til að hlutast til um hvernig hún fer með eignarhlut ríkisins þarf einfaldlega að breyta lögum þannig að svo verði.
Tregðulögmál kerfisins
Markaðstrúarslagsíða þeirra þingmanna allra flokka sem nú sitja á þingi er vissulega stórt vandamál, en það á þó að vera tiltölulega auðvelt að leysa. Þingmenn eru lýðræðislega kjörnir og þeim má skipta út um leið og háttvirtum kjósendum þóknast að þurrka af gleraugunum og sjá hlutina eins og þeir eru. Verra er að eiga við það að hjá hinu ókjörna framkvæmdavaldi (t.d. ráðuneytunum og undirstofnunum þeirra) er markaðstrúin og hægrimennskan oft svo rótgróin að jafnvel þegar þingmenn og ráðherrar vilja samfélaginu vel reynist þeim erfitt að þröngva þjóðþrifamálum í gegnum stjórnkerfið, ef þau ríma ekki við lífsviðhorf embættismannanna. Þótt embættismenn eigi erfitt með að ganga beint gegn skipunum frá ríkisstjórn er ótrúlegt hverju hægt er að áorka með útreiknuðum þvergirðingshætti og undanbrögðum ef viljinn til þess er nægur.

Félagsvæðing fjármálakerfisins er semsagt ekki gerleg NEMA að tekið sé á öllum hliðum málsins, allur góður ásetningur mun stöðvast á gúmmívegg kerfisins (eins og svo oft hefur gerst áður) nema þess sé gætt að bræða á hann göt áður en lagt er af stað og það ætlum við hjá AF okkur að gera. Og sú félagsvæðing er ein af forsendum þess að endurreisa megi ábyrgð og hlutverk ríkisins í íslensku samfélagi öllum til heilla.