þriðjudagur, 18. október 2016

Eðli þingræðiskerfisins er rök gegn því að „kjósa taktískt“

Þórarinn Hjartarson
Alþýðufylkingunni hefur gengið framar vonum í kosningabaráttunni. Það sýnir að það er meiri starfs- og boðunarkraftur þar innan stokks en t.d. ég bjóst við. Það sýnir líka að það er eftirspurn eftir róttækum valkosti til vinstri. Sem er uppörvandi og hressandi.

Jafnframt sé ég ríka ástæðu til að vara við kratískum skurðum og dýjum á leið okkar. Það er ekki nóg að setja fram róttæka málefnaskrá um ýmiss konar félagsvæðingu og hvetja síðan fólk til að krossa við R. Að gera það án þess að vara við þingræðiskerfinu er kratismi. Félagsvæðingar geta aðeins komist á fyrir tilstilli virkrar stéttabaráttu alþýðu. Félagsvæðing fjármálakerfisins er t.d. sósíalísk krafa og fæst ekki framgengt meðan borgaralegt ríkisvald blífur. Það þarf að koma fram í málflutningnum til að vekja ekki falsvonir.

Að nokkru leyti gengur framboðsbarátta til þings léttar en margt annað starf af því stjórnkerfið í landinu – valdakerfi auðstéttarinnar – vill beina baráttu okkar sem allra mest inn í þann farveg. Það er m.a.s. til í að borga okkur pening til að reka baráttuna. Sá farvegur hentar auðstéttinni best. Að reka t.d verkfallsbaráttu eða þá baráttu gegn NATO og herferðum Vestursins í Úkraínu eða Sýrlandi yrði óhjákvæmilega miklu erfiðari barátta.

Einhver myndi segja að það fæli frá fólk okkur að hamra í sífellu á svo hörðum veruleik. Á móti vil ég halda því fram að það séu einmitt sterk rök gegn því að „kjósa taktískt“, þ.e.a.s. að kjósa frekar VG eða aðra með raunhæfari möguleika á að koma vinstra fólki að, svo atkvæðin „detti ekki dauð niður“ o.s.frv. Að kjósa Alþýðufylkinguna er einfaldlega að efla róttækan vinstri valkost í landinu, stjórnmálaafl sem ætlar sér að reka hagsmuni alþýðu og styrkja baráttu hennar, baráttu sem fer að mestu fram utan þings.


Þórarinn Hjartarson