laugardagur, 15. október 2016

Eiríkur Bergmann og möguleikarnir á jöfnunarþingsætum

Í síðdegisútvarpi Rásar 2 í gær fór Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur með rangt mál sjá frétt á RÚV.is). Það hallar mjög á málstað Alþýðufylkingarinnar í máli hans og þess vegna sé ég mig knúinn til að svara honum efnislega.
Eiríkur Bergmann Einarsson
(mynd tekin ófrjálsri hendi af Vísir.is)

Rangfærsla
Eiríkur sagði að til þess að eiga möguleika á jöfnunarþingmönnum þyrfti framboð að vera á landsvísu.

Rétt er: Til að eiga möguleika á jöfnunarþingmanni þarf framboð að fá 5% atkvæða á landsvísu. Alþýðufylkingunni tókst því miður ekki að bjóða fram í Norðvesturkjördæmi að þessu sinni. Það kjördæmi er hins vegar langminnsta kjördæmið; þar búa ekki nema um 10% þjóðarinnar.
Með öðrum orðum mundi 5,5% atkvæða í þeim fimm kjördæmum þar sem við bjóðum fram, duga til að ná 5% á landsvísu.

Vésteinn Valgarðsson
Alþýðufylkingin í fimm kjördæmum leikur augljóslega ekki í sömu deild og vitleysingarnir í Íslensku þjóðfylkingunni í einu eða tveim kjördæmum, eða okkar kæru vinir Húmanistar í einu kjördæmi. Þeir flokkar ná ekki jöfnunarmanni án þess að ná 5% á landsvísu í 1-2 kjördæmum, en þau atkvæði mundu áður skila mörgum kjördæmakjörnum mönnum.

Ég held alls ekki að RÚV hafi ætlað að spilla fyrir Alþýðufylkingunni með þessari frétt, en það er synd að rangfærslunni hafi ekki verið svarað um leið og hún kom fram, og í sama þætti. Hvers vegna prófessor í stjórnmálafræði segir svona, það er hins vegar umhugsunarefni. Hann hlýtur að vita betur. Vonandi er hann ekki að ganga annarlegra erinda.

----Vésteinn Valgarðsson
varaformaður og oddviti
Alþýðufylkingarinnar í RVK-N