fimmtudagur, 13. október 2016

Bætum heilbrigðiskerfið með því að félagsvæða það! (svar til Skuggakosninga)

Spurt er: Hvernig ætlið þið að bæta heilbrigðiskerfið?
Svar: Með því að félagsvæða það! Allir eiga að geta fengið nauðsynlega heilbrigðisþjónustu án endurgjalds og eins nálægt heimili sínu og hægt er. Þess vegna er nauðsynlegt að fara í mikla uppbyggingu um allt land, bæði á heilsugæslu og sjúkrahúsum.

Endurreisn heilbrigðiskerfisins er algjört forgangsmál hjá okkur, enda vitum við að það er ekki hægt að endurreisa það nema með mjög mikilli samstöðu og festu. Af hverju? Vegna þess að það eru sterk hagsmunaöfl sem standa í veginum. Það þarf t.d. að snúa við einkavæðingu í læknisþjónustu, en peningarnir sem borga fyrir hana koma úr sama sjóði og Landspítalinn fær peninga úr: Sjúkratryggingum Íslands. Það þýðir að dýr einkaframkvæmd skerðir möguleika Landspítalans á að vinna sama verk, sem þýðir að biðlistarnir þar verða lengri. Annað dæmi: Margar heilbrigðisstofnanir eru reknar í húsnæði sem er á leigu hjá fasteignafélögum. Leigusamningarnir eru oft dýrir og ekki hægt að segja þeim upp. Með öðrum orðum renna þar peningar út úr kerfinu, beint í vasa auðmanna. Þeir fáu sem njóta þessa fyrirkomulags munu berjast harkalega gegn félagsvæðingu, og þess vegna þurfum við að berjast enn harkalegar fyrir henni.

Við viljum að ríkið taki yfir lyfjaframleiðslu og lyfjasölu í landinu og að hún sé ekki rekin í gróðaskyni, heldur sé áherslan eingöngu sú að útvega fólki þau lyf sem það þarf fyrir eins lítinn kostnað og hægt er.

Það á að taka sálfræðiþjónustu og tannlækningar inn í opinbera heilbrigðiskerfið.

Það er dýrt að missa heilsuna, ekki bara fyrir einstaklinginn heldur líka fyrir samfélagið. Þess vegna þurfum við að gera allt sem við getum til að fyrirbyggja sjúkdóma og lækna þá sem samt veikjast. Það er nefnilega ekki sparnaður, heldur sóun að skera niður í heilbrigðismálum.

Þótt þessi stefna muni spara mikla peninga, sem núna borga fyrir gróða fárra, þá mun hún sjálfsagt kosta heilmikla peninga líka, sérstaklega til skamms tíma. Sem betur fer vitum við hvaðan þeir peningar eiga að koma: úr félagsvæðingu fjármálakerfisins. Núna sogar fjármálakerfið hundruð milljarðar út úr raunhagkerfinu á hverju ári. Lítið brot af þeim peningum mundi duga til að endurreisa heilbrigðiskerfið mjög rausnarlega.    

(Þetta svar hefur áður birst í umfjöllun Skuggakosninga um Alþýðufylkinguna).