föstudagur, 7. október 2016

Bætum aðgengi ungs fólks að geðheilbrigðisþjónustu (svar til Skuggakosninga)

Spurt er: Munið þið beita ykkur í að auka aðgengi ungs fólks að geðheilbriðisþjónustu? Hvernig?
Svar: Við viljum auka aðgengi allra að geðheilbrigðisþjónustu, þar á meðal ungs fólks. Mánaða eða ára löng bið eftir greiningu eða innlögn á BUGL er hneyksli og það sem verra er: mannréttindabrot, sem afar brýnt er að leysa úr.

Við viljum taka sálfræðiþjónustu inn í heilsugæsluna, þar sem hún nýtist ekki síst ungu fólki, sem hefur kannski ekki efni á að borga fullt verð fyrir viðtalsmeðferð. Og við viljum stórátak í að byggja sérhæfð búsetuúrræði fyrir fólk sem í dag er innlyksa á geðdeildum mánuðum eða misserum saman vegna úrræðaleysis kerfisins, en þegar það getur útskrifast á eðlilegum tíma losna fyrr pláss sem þá munu nýtast öðrum, m.a. ungu fólki.

Í leiðinni: Ef ungt fólk (eða eldra fólk) ánetjast vímuefnum, þá viljum við ekki líta á það sem glæpamenn, heldur sem sjúklinga. Fíkn er umfram allt sjúkdómur, og það er verkefni heilbrigðiskerfisins en ekki valdstjórnarinnar að eiga við hana.

(Þetta svar hefur áður birst í umfjöllun Skuggakosninga um Alþýðufylkinguna).