mánudagur, 10. október 2016

Aðgerðir fyrir ungt fólk (svar til Skuggakosninga)

Spurt er: Hvað ætlið þið sérstaklega að gera fyrir ungt fólk á Íslandi?
Svar: Við viljum félagsvæða menntakerfið, en það felur m.a. í sér að skólar sem hið opinbera borgar fyrir taki ekki skólagjöld; það felur í sér að Lánasjóður íslenskra námsmanna slíti tengslin við bankakerfið og veiti lán sem duga fyrir framfærslu, beri ekki vexti og falli niður að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Við viljum bæta úr sárri fjárþörf leikskóla (nemendur þar eru ungt fólk og foreldrarnir oft líka) og gera námsskrá grunnskóla og framhaldsskóla sveigjanlegri, m.a. þannig að meiri áhersla sé lögð á persónulegan þroska -- þ.e.a.s. sköpun, gagnrýna hugsun og þekkingu á þjóðfélaginu heldur en undirbúning fyrir vinnu.

Við viljum stórauka fjárframlög í list- og verknám, svo það verði raunhæfari kostur fyrir þá sem hafa áhuga á því. Við viljum koma í veg fyrir að ungt fólk sé hlunnfarið á vinnumarkaði með því að borga því jafnaðarkaup fyrir vaktavinnu eða með félagslegum undirboðum og við viljum setja ströng viðurlög við brotum á reglum um aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum.

Við viljum lengja fæðingarorlof þannig að tveir foreldrar með eitt barn fái samanlagt tvö ár í orlof. Upphæðin á að vera sú sama fyrir alla og miðast við framfærslu.

(Þetta svar hefur áður birst í umfjöllun Skuggakosninga um Alþýðufylkinguna).