mánudagur, 31. október 2016

Að loknum kosningum

Yfirlýsing frá Þorvaldi Þorvaldssyni, trésmið og formanni Alþýðufylkingarinnar


Að loknum kosningum

Félagar.

Nú þegar kosningarnar 2016 eru afstaðnar vil ég byrja á að þakka öllum 
Þorvaldur Þorvaldsson

þeim sem tóku þátt í þeim fyrir hönd Alþýðufylkingarinnar og gerðu okkur 
kleift að ná þeim árangri sem raun ber vitni.

Þó að við hefðum gjarnan viljað fá fleiri atkvæði höfum við unnið marga sigra sem rétt er að halda til haga. Framboð Alþýðufylkingarinnar í fimm kjördæmum með 110 frambjóðendum er stórt skref áfram frá því síðast og verður okkur lyftistöng til að byggja upp skipulag og áhrif flokksins á landsvísu. Nýir félagar hafa komið til liðs við Alþýðufylkinguna í öllum landshlutum og eftir mánuð stendur til að stofna fyrsta svæðisfélag flokksins og halda svo áfram að efla skipulag og tengslanet flokksins til aukinna áhrifa.

Þetta er gott veganesti fyrir áframhaldandi uppbyggingarstarf. Það er uppörvandi að 13,5% krakka á grunnskólaaldri kjósi Alþýðufylkinguna og í Skuggakosningum framhaldsskólanna er fylgi okkar fimmfalt meira en í kosningunum. Auk þess urðum við vör við það í aðdraganda kosninganna að sjónarmið okkar og barátta fyrir djúpstæðum breytingum á samfélaginu fengu mikinn hljómgrunn og vöktu hrifningu margra. Kosningastefnuskráin vakti mikla og verðskuldaða athygli enda komum við betur nestuð málefnalega til kosninganna en aðrir flokkar. Þó að þetta hafi ekki skilað okkur kjörfylgi að sama skapi, m.a. vegna hugmynda um að atkvæðin muni ekki nýtast til þingsæta, þá mun aukin vitneskja um flokkinn og hugmyndir okkar skila sér á margan hátt í baráttunni framundan.

En barátta Alþýðufylkingarinnar snýst ekki bara um kosningaúrslit heldur að breiða út og skipuleggja baráttuna gegn auðvaldinu á öllum sviðum. Alþýðufylkingin þarf að vinna að þvi að eiga sér málsvara alls staðar þar sem fólk kemur saman, á vinnustöðum, í íbúðahverfum, fjöldasamtökum og víðar. Einnig verðum við að tryggja samstöðu um meginstefnu flokksins og berjast fyrir henni alls staðar þar sem því verður komið við. Látum til skarar skríða.

Kveðja

Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar