miðvikudagur, 26. október 2016

Að hafna eða hafna ekki nýrri stjórnarskrá

Í Fréttatímanum þarsíðasta föstudag skrifaði Gunnar Smári Egilsson að stjórnarandstöðuflokkarnir
Vésteinn Valgarðsson
fjórir á Alþingi, auk Dögunar, hefðu undirritað yfirlýsingu um að fara eftir þjóðaratkvæðagreiðslunni um stjórnarskrármálið og leggja fram frumvarp um nýja stjórnarksrá, byggt á drögum Stjórnlagaráðs. Það fylgdi sögunni að Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðufylkingin hefðu hafnað því að undirrita þessa yfirlýsingu.

Nú er þetta ekki beinlínis rangt hermt hjá Gunnari Smára. Málsatvik gefa samt ekki tilefni til að spyrða okkur í Alþýðufylkingunni saman við Sjálfstæðisflokkinn á þennan hátt. Allir vita hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki nýja stjórnarskrá. Ástæður Alþýðufylkingarinnar eru aðrar:

1) Gamla stjórnarskráin er vissulega úrelt og löngu tímabært að breyta henni. En við höfnum því að hún sé á einhvern hátt orsökin fyrir kreppunni og hruninu og þar með að ný stjórnarskrá sé lausnin. Orsakirnar eru innri þversagnir kapítalismans, sem engin stjórnarskrá getur hindrað, aðeins nýtt hagskipulag.

2) Stjórnarskráin sem Stjórnlagaráð samdi er að mestu leyti góð stjórnarskrá og Alþýðufylkingin mundi styðja langflest í henni, ef greidd væru atkvæði grein fyrir grein. En eina grein setjum við fyrirvara við: 111. greinina um framsal ríkisvalds. Ástæðan er að við erum á móti framsali ríkisvalds, þar á meðal inngöngu í ESB. Við getum ekki lýst fyrirvaralausum stuðningi við stjórnarskrá sem hefur slíkt ákvæði, þótt okkur lítist vel á hana að öðru leyti.

3) Þótt frumvarp Stjórnlagaráðs sé gott svo langt sem það nær, teljum við að í raun þyrfti róttækari stjórnarskrá, sem verndaði fólk og náttúru betur, einkum fyrir kapítalismanum. Breytingarnar sjálfar yrðu þó líklega frekar undanfari slíkrar stjórnarskrár heldur en afleiðing. Stjórnarskrá festir nefnilega breytingar í sessi frekar en að valda þeim. Þess vegna eru bestu stjórnarskrárnar gjarnan samdar í kjölfar byltinga.

Stjórnarskrárfélagið fór þess á leit við okkur að við yrðum með í þessari yfirlýsingu. Við svöruðum, að við gætum skrifað undir yfirlýsinguna ef hún rúmaði fyrirvara um 111. grein um framsal ríkisvalds. Hún virðist ekki gera það. Við því er ekkert að gera, en við viljum ekki að fólk álykti þá að við séum á einhvern hátt í hópi með Sjálfstæðisflokknum.

Vésteinn Valgarðsson
varaformaður Alþýðufylkingarinnar

í 1. sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður