mánudagur, 31. október 2016

Að loknum kosningum

Yfirlýsing frá Þorvaldi Þorvaldssyni, trésmið og formanni Alþýðufylkingarinnar


Að loknum kosningum

Félagar.

Nú þegar kosningarnar 2016 eru afstaðnar vil ég byrja á að þakka öllum 
Þorvaldur Þorvaldsson

þeim sem tóku þátt í þeim fyrir hönd Alþýðufylkingarinnar og gerðu okkur 
kleift að ná þeim árangri sem raun ber vitni.

Þó að við hefðum gjarnan viljað fá fleiri atkvæði höfum við unnið marga sigra sem rétt er að halda til haga. Framboð Alþýðufylkingarinnar í fimm kjördæmum með 110 frambjóðendum er stórt skref áfram frá því síðast og verður okkur lyftistöng til að byggja upp skipulag og áhrif flokksins á landsvísu. Nýir félagar hafa komið til liðs við Alþýðufylkinguna í öllum landshlutum og eftir mánuð stendur til að stofna fyrsta svæðisfélag flokksins og halda svo áfram að efla skipulag og tengslanet flokksins til aukinna áhrifa.

Þetta er gott veganesti fyrir áframhaldandi uppbyggingarstarf. Það er uppörvandi að 13,5% krakka á grunnskólaaldri kjósi Alþýðufylkinguna og í Skuggakosningum framhaldsskólanna er fylgi okkar fimmfalt meira en í kosningunum. Auk þess urðum við vör við það í aðdraganda kosninganna að sjónarmið okkar og barátta fyrir djúpstæðum breytingum á samfélaginu fengu mikinn hljómgrunn og vöktu hrifningu margra. Kosningastefnuskráin vakti mikla og verðskuldaða athygli enda komum við betur nestuð málefnalega til kosninganna en aðrir flokkar. Þó að þetta hafi ekki skilað okkur kjörfylgi að sama skapi, m.a. vegna hugmynda um að atkvæðin muni ekki nýtast til þingsæta, þá mun aukin vitneskja um flokkinn og hugmyndir okkar skila sér á margan hátt í baráttunni framundan.

En barátta Alþýðufylkingarinnar snýst ekki bara um kosningaúrslit heldur að breiða út og skipuleggja baráttuna gegn auðvaldinu á öllum sviðum. Alþýðufylkingin þarf að vinna að þvi að eiga sér málsvara alls staðar þar sem fólk kemur saman, á vinnustöðum, í íbúðahverfum, fjöldasamtökum og víðar. Einnig verðum við að tryggja samstöðu um meginstefnu flokksins og berjast fyrir henni alls staðar þar sem því verður komið við. Látum til skarar skríða.

Kveðja

Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar

laugardagur, 29. október 2016

Kosningavaka Alþýðufylkingarinnar

Alþýðufylkingin heldur kosningavöku í MÍR-salnum, Hverfisgötu 105. Húsið opnar um kl. 17. Það verður ekki formleg dagskrá, en hægt verður að kaupa kaffibolla og boli með merki flokksins!

Þorvaldur á Stundinni

Stundin birtir viðtal við Þorvald Þorvaldsson formaður Alþýðufylkingarinnar. Lesið það á Stundinni!

Þess vegna eigið þið að kjósa Alþýðufylkinguna

Alþýðufylkingin boðar jöfnuð og félagslegt réttlæti, fullveldi og velferð og hefur skýra sýn á hvernig þessum markmiðum verði náð: Með félagsvæðingu. Með því að félagsvæða fjármálakerfið (banka, lífeyrissjóði og tryggingafélög) og reka það sem samfélagslega þjónustu en ekki í gróðaskyni, getum við sem samfélag sleppt því að borga nokkur hundruð milljarða á ári í vexti. Og með því að félagsvæða aðra innviði samfélagsins, þannig að enginn geti makað krókinn með dýrum einkarekstri sem ríkið borgar að mestu fyrir, getum við nýtt peningana betur í velferð, í heilbrigðisþjónustu, í sjálf markmiðin með innviðunum.

En þetta er ekki allt: Þessi markmið munu því aðeins nást, að fólkið í landinu berjist fyrir þeim með virkum hætti. Við verðum í þeirri baráttu, hvort sem við verðum innan eða utan Alþingis. Við eigum ekki að trúa stjórnmálamönnum sem lofa okkur öllu fögru, að gera allt fyrir okkur. Það er ekki hægt að stytta sér leið. Framfarir kosta baráttu. Þá baráttu boðum við.

Þið eigið ekki bara að kjósa Alþýðufylkinguna, það er góð byrjun en ekki nóg. Þið eigið að ganga til liðs við hana og gera ykkur gildandi í baráttunni fyrir framtíð okkar allra.
Vésteinn Valgarðsson
varaformaður Alþýðufylkingarinnar
 (Þessi pistill hefur áður birst í DV.)

föstudagur, 28. október 2016

Vésteinn á Harmageddon

Vésteinn Valgarðsson oddviti Alþýðufylkingarinnar í Reykjavík norður var í viðtali í útvarpsþættinum Harmageddon fyrir fáum dögum síðan. Hlustið á viðtalið hér!

Söngkeppni flokksformanna: Þorvaldur Þorvaldsson

Inga Sæland tók lagið á dögunum og skoraði um leið á aðra flokksformenn í keppni í söng. Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, tók áskoruninni á baráttufundi í gærkvöldi:

Hraðaspurningar ÖBÍ til Guðmundar Magnússonar

Guðmundur Magnússon, oddviti Alþýðufylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi, var fyrir svörum í hraðaspurningum hjá Öryrkjabandalagi Íslands í gær. Horfið á upptökuna hér!

Málefni ungs fólks

Með flokki áhyggjuefna sem kallast „málefni ungs fólks“ er verið að gefa í skyn að resti
Erna Lína Baldvinsdóttir
n af 
stjórnmálunum komi ungu fólki ekki við. Öll málefni koma ungu fólki við og málefni ungs fólks koma öllum við. Þó ég sé ung og þurfi ekki á hjúkrunarheimili að halda, þá á ég ömmur og langafa sem munu þurfa þess og foreldrar mínir munu vonandi þurfa ellilífeyri einhvern tímann á lífsleiðinni.

Ég er kannski ung en ég hef samt áhyggjur af eldri borgurum landsins. Þetta áhyggjulausa líf gamalmenna er varla til í íslensku samfélagi. Ellilífeyrir er ekki nógu hár og greiðsluþátttakan í heilbrigðiskerfinu of há.

Unga fólk nútímans er gamla fólk framtíðarinnar. Ég vil vita að þegar ég verð gömul verði séð almennilega um mig. Ég get ekki komið með þá kröfu á komandi kynslóðir ef ég og mín kynslóð er ekki tilbúin til að gera hið sama fyrir þá eldri borgara sem eru hér í dag. Við þurfum að koma vel fram við gamalt fólk og hjálpa því án þess að taka af því sjálfstæðið.

Nú er vaxandi offita í landinu. Reynt er að koma á móts við börn með því að veita þeim aðgang að íþróttum og allt er gott og blessað með það. En hver er að hugsa um gamla fólkið? Eldri borgarar þurfa einnig að fá aðgang að ýmsum íþróttum. Nú eru flest íþróttahús landsins tóm á meðan ungmennin eru í skólum. Hvernig væri að nýta þann tíma fyrir þá sem eru eldri og geta ekki unnið. Þetta þarf að vera gjaldfrjálst og við þurfum að hvetja fólk á öllum aldri til að hreyfa sig.

Hollt mataræði þarf að vera ódýrt. Það gengur ekki að setja á sykurskatt og láta þar kyrrt liggja. Þá er bæði hollur og óhollur matur orðinn of dýr fyrir meðaljóninn sem og eldri borgara. Fyrst og fremst þarf að niðurgreiða hollmeti.

Við unga fólkið þurfum að hugsa út fyrir okkar eigin hagsmuni og sýna eldri borgurum að okkur er ekki sama um þau.


--Erna Lína Baldvinsdóttir
í 2. sæti á lista Alþýðufylkingarinnar í Suðurkjördæmi

Kynningarmyndband Alþýðufylkingarinnar

Sjáið kynningarmyndband Alþýðufylkingarinnar á RÚV.is!

Veistu ekki hvað þú átt að kjósa? Hér er hugmynd:

Margir vita ekki hvað þeir eiga að kjósa á morgun. Þeim er vorkunn, enda getur valið að sönnu verið erfitt. Til að auðvelda íslenskum kjósendum valið, bendum við í Alþýðufylkingunni á viðtalsþáttinn "Forystusætið", þar sem formaður okkar Þorvaldur Þorvaldsson sat fyrir svörum um daginn. Horfið á þennan ágæta þátt hér: Þorvaldur í Forystusætinu.

fimmtudagur, 27. október 2016

Vita börnin þín ekki hvað þau eiga að kjósa?

KrakkaRÚV er með Krakkakosningar 2016. Á heimasíðu þeirra eru nokkur stutt myndbönd þar Erna Lína Baldvinsdóttir, í 2. sæti Alþýðufylkingarinnar í Suðurkjördæmi, segir krökkum frá stefnu Alþýðufylkingarinnar. Horfið á þau hér!

Baráttufundur í kvöld!

Alþýðufylkingin heldur baráttufund fimmtudagskvöldið 27. október kl. 20:00 í MÍR-salnum, Hverfisgötu 105.

Glæsileg dagskrá listamanna og ávörp frambjóðenda. Tækifæri til að kynnast frambjóðendum flokksins í návígi eða eignast eftirsótta boli og aðra eigulega muni með merki flokksins. Fjáröflunaruppboð. Gagn og gaman.

Ávörp flytja:
Guðmundur Magnússon, oddviti í Suðvesturkjördæmi
Erna Baldvinsdóttur í Suðurkjördæmi og
Þorvaldur Þorvaldsson, formaður flokksins

Blaz Roca og Sesar A stíga á stokk og skemmta eins og þeim einum er lagið

Júlía Margrét Einarsdóttir og Björk Þorgrímsdóttir lesa eigin ljóð

Sólveig Hauksdóttir deilir með okkur einhverju góðgæti

Allir velkomnir, nema nasistar og barnaníðingar.

Alþýðufylkingin valkostur í komandi kosningum.

Nú er komið að kosningum og ég er búinn að finna mína hillu, svo blöskrar mér framganga ráðandi flokka og annarra sem staðið hafa að stjórnun Íslands síðustu áratugi, (og tel enga batavon hjá neinum þeirra), að ég hef tekið stöðu með ALÞÝÐUFYLKINGUNNI. Hún er afl sem er með réttláta stefnuskrá sem er miðuð við þarfir hins almenna borgara í því að sjá sér og sínum farborða.
Ægir Björgvinsson

Ég á börn og barnabörn sem eru að takast á við mjög erfiða fjárhagslega framtíð er varðar eignamyndun í íbúðahúsnæði og að takast á við heilsufarsleg vandamál. Ég tel fjögurra ára áætlun Alþýðufylkingarinnar vera plagg sem tekur á málunum eins og þau ættu að vera, þess vegna gef ég kost á mér í 3ja sæti á framboðslista í Suðvesturkjördæmi (Kraganum).

Fjögurra ára áætlun Alþýðufylkingarinnar tekur af miklum metnaði á helstu málum er varðar íslenskt samfélag og þá einstaklinga sem búa landið. Þegar við komumst til áhrifa verður neyðaráætlun virkt, þ.e. Landspítalinn fær a.m.k. einn milljarð strax, áður en byrjað verður á kerfisbreytingum, sala ríkiseigna verður stöðvuð strax og bætur öryrkja verða uppfærðar strax, þær hafa verið frystar frá hruni.

Hvað er Alþýðufylkingin? Hún er fjöldahreyfing sem berst fyrir hagsmunum alþýðunnar, en hennar hagsmunir eru grundvöllurinn að öllum okkar baráttumálum. Við tökum ekki undir áróður um að bæta megi lífskjör með auknum hagvexti, í samfélagi eins og byggst hefur upp á Íslandi fylgir auknum hagvexti jafnan aukinn ójöfnuður og skuldsetning, enda taka auðmenn sér ríflegan hagnað út úr aukinni veltu, lykilatriði er félagsvæðing innviða samfélagsins, þar sem fjármálakerfið og nauðsynleg samfélagsþjónusta við alla er í fyrirrúmi.

Í áætluninni er gerð grein fyrir helstu baráttumarkmiðum Alþýðufylkingarinnar á næstu árum, innra samhengi þeirra og samhengi þeirra við framtíðarsýn flokksins um betra samfélag. Þessi áætlun er ekki listi af loforðum heldur ábending um að ef við viljum betra þjóðfélag þar sem við erum okkar eigin gæfu smiðir, þá þurfum við að berjast fyrir því.
Ægir Björgvinsson, 3ja sæti Suðvesturkjördæmi.
(Þessi grein birtist á Vísi sl. mánudag.)

Baráttufundur í kvöld

Alþýðufylkingin heldur baráttufund fimmtudagskvöldið 27. október kl. 20:00 í MÍR-salnum, Hverfisgötu 105.

Glæsileg dagskrá listamanna og ávörp frambjóðenda. Tækifæri til að kynnast frambjóðendum flokksins í návígi eða eignast eftirsótta boli og aðra eigulega muni með merki flokksins. Fjáröflunaruppboð. Gagn og gaman.

Ávörp flytja:
Guðmundur Magnússon, oddviti í Suðvesturkjördæmi
Erna Baldvinsdóttur í Suðurkjördæmi og
Þorvaldur Þorvaldsson, formaður flokksins

Blaz Roca og Sesar A stíga á stokk og skemmta eins og þeim einum er lagið

Júlía Margrét Einarsdóttir og Björk Þorgrímsdóttir lesa eigin ljóð

Sólveig Hauksdóttir deilir með okkur einhverju góðgæti

Allir velkomnir, nema nasistar og barnaníðingar.

Björgvin R. Leifsson á N4

Sjónvarpsstöðin N4 tók á dögunum viðtal við Björgvin Rúnar Leifsson, sem er í 2. sæti Alþýðufylkingarinnar í Norðausturkjördæmi. Horfið á viðtalið hér.

Hverjum treystir þú?

Vinstri-græn hafa undanfarið slegið um sig með spurningunni "Hverjum treystir þú?"
Vésteinn Valgarðsson
Þetta er eðlileg spurning í aðdraganda kosninga, og fyrst þau gefa þennan bolta upp er best að skoða málið. Og vegna þess að verkið lofar meistarann, þá er marktækast að skoða síðasta kjörtímabil.

Byrjum á húsnæðisstefnunni: Húsnæðisstefna VG var að láta bankana sjá um að útfæra húsnæðisstefnuna, til að geta sjálft þvegið hendur sínar af henni. Í skjóli þess voru gjaldþrota heimili flokkuð: Fólk gat fengið verulegar niðurfellingar ef það gat staðið í skilum með restina. Aðrir voru settir á nauðungaruppboð -- á færibandið, eins og það var kallað innan bankanna.

Tökum næst efnahagsstefnuna. VG er ekki með neitt sem er hægt að kalla alvöru efnahagsstefnu. En Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er það hins vegar. Að forsögn hans var rekin hér harðsvíruð stefna niðurskurðar og markaðsvæðingar í nafni ríkisstjórnarinnar sem kenndi sig við vinstri.

Eigum við að tala um Evrópusambandið? Hvaða ályktanir dregur fólk, þegar sama fólkið hefur það á stefnuskránni að "hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB" og greiðir síðan atkvæði með aðildarumsókn? Og þráast enn við að vilja þjóðaratkvæði um eitthvað sem þau segjast sjálf vera á móti?

Einkavæðing bankanna hin síðari. Magma-málið. Olíuleit á Drekasvæðinu. Stóriðja á Bakka. Áform um rafmagnssæstreng. Við þekkjum öll þessa sögu, en við þurfum að muna hana núna þegar við eigum að fara að kjósa aftur.

Ég var í VG mestan hluta síðasta kjörtímabils. Ég barðist á hæl og hnakka gegn öllum þessum málum, innan flokks sem utan, þar til ég sá að það var fullreynt. Eftir meira en þrjú ár af innanflokksátökum sá ég að þetta var tímasóun. Þau mundu aldrei koma með út í uppgjör við fjármálaauðvaldið. Fyrsta varnarlína auðvaldsins var innan flokksins.

Ef ég treysti Vinstri grænum, væri ég þar enn. En reynslan segir mér að sá sem ætlar í slag við auðvaldið hefur ekkert að gera þar. Þess vegna var ég með í að stofna Alþýðufylkinguna. Hún er flokkur sem skilur inntak og gildi félagslegra lausna, vísar leiðina út úr kapítalismanum í stað þess að ætla sér að lappa enn einu sinni upp á hann, og veit hvaða krafta þarf til að koma á nauðsynlegum umbótum. Það eru kraftar stéttabaráttunnar.


Almenningur í landinu þarf að taka virkan þátt í baráttunni frá degi til dags, því hún fer ekki bara fram í kosningum til þings eða á þingi. En hún fer meðal annars fram þar. Alþýðufylkingin er raunhæfur og raunsær valkostur til vinstri sem leitar ekki friðkaupa við fjármálaauðvaldið, sem grætur ekki kreppuna heldur safnar liði. Verið með. Kjósið okkur núna, en takið líka slaginn eftir kosningarnar.

Vésteinn Valgarðsson
oddviti Alþýðufylkingar í RVK-N

miðvikudagur, 26. október 2016

Vésteinn á Lindinni

Kristilega útvarpsstöðin Lindin tók viðtal við Véstein Valgarðsson varaformann Alþýðufylkingarinnar í síðustu viku, um viðhorf flokksins til kristni og kirkju og trúar almennt. Viðtalið er komið á netið!

Þorvaldur Í bítið

Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar, var í viðtali í þættinum Í bítið á Bylgjunni í gær. Hlustið á viðtalið hér!

Baráttufundur annað kvöld

Alþýðufylkingin heldur baráttufund annað kvöld: fimmtudagskvöldið 27. október kl. 20:00 í MÍR-salnum, Hverfisgötu 105.
Glæsileg dagskrá listamanna og ávörp frambjóðenda. Tækifæri til að kynnast frambjóðendum flokksins í návígi eða eignast eftirsótta boli og aðra eigulega muni með merki flokksins. Fjáröflunaruppboð. Gagn og gaman.
Allir velkomnir, nema nasistar og barnaníðingar.

Að hafna eða hafna ekki nýrri stjórnarskrá

Í Fréttatímanum þarsíðasta föstudag skrifaði Gunnar Smári Egilsson að stjórnarandstöðuflokkarnir
Vésteinn Valgarðsson
fjórir á Alþingi, auk Dögunar, hefðu undirritað yfirlýsingu um að fara eftir þjóðaratkvæðagreiðslunni um stjórnarskrármálið og leggja fram frumvarp um nýja stjórnarksrá, byggt á drögum Stjórnlagaráðs. Það fylgdi sögunni að Sjálfstæðisflokkurinn og Alþýðufylkingin hefðu hafnað því að undirrita þessa yfirlýsingu.

Nú er þetta ekki beinlínis rangt hermt hjá Gunnari Smára. Málsatvik gefa samt ekki tilefni til að spyrða okkur í Alþýðufylkingunni saman við Sjálfstæðisflokkinn á þennan hátt. Allir vita hvers vegna Sjálfstæðisflokkurinn vill ekki nýja stjórnarskrá. Ástæður Alþýðufylkingarinnar eru aðrar:

1) Gamla stjórnarskráin er vissulega úrelt og löngu tímabært að breyta henni. En við höfnum því að hún sé á einhvern hátt orsökin fyrir kreppunni og hruninu og þar með að ný stjórnarskrá sé lausnin. Orsakirnar eru innri þversagnir kapítalismans, sem engin stjórnarskrá getur hindrað, aðeins nýtt hagskipulag.

2) Stjórnarskráin sem Stjórnlagaráð samdi er að mestu leyti góð stjórnarskrá og Alþýðufylkingin mundi styðja langflest í henni, ef greidd væru atkvæði grein fyrir grein. En eina grein setjum við fyrirvara við: 111. greinina um framsal ríkisvalds. Ástæðan er að við erum á móti framsali ríkisvalds, þar á meðal inngöngu í ESB. Við getum ekki lýst fyrirvaralausum stuðningi við stjórnarskrá sem hefur slíkt ákvæði, þótt okkur lítist vel á hana að öðru leyti.

3) Þótt frumvarp Stjórnlagaráðs sé gott svo langt sem það nær, teljum við að í raun þyrfti róttækari stjórnarskrá, sem verndaði fólk og náttúru betur, einkum fyrir kapítalismanum. Breytingarnar sjálfar yrðu þó líklega frekar undanfari slíkrar stjórnarskrár heldur en afleiðing. Stjórnarskrá festir nefnilega breytingar í sessi frekar en að valda þeim. Þess vegna eru bestu stjórnarskrárnar gjarnan samdar í kjölfar byltinga.

Stjórnarskrárfélagið fór þess á leit við okkur að við yrðum með í þessari yfirlýsingu. Við svöruðum, að við gætum skrifað undir yfirlýsinguna ef hún rúmaði fyrirvara um 111. grein um framsal ríkisvalds. Hún virðist ekki gera það. Við því er ekkert að gera, en við viljum ekki að fólk álykti þá að við séum á einhvern hátt í hópi með Sjálfstæðisflokknum.

Vésteinn Valgarðsson
varaformaður Alþýðufylkingarinnar

í 1. sæti í Reykjavíkurkjördæmi norður