þriðjudagur, 13. september 2016

Fjögurra ára áætlunin

Alþýðufylkingin býður fram til Alþingis í haust eins og í síðustu kosningum. Í kosningunum 2013 heyrðist sú gagnrýni að stefnuskrá flokksins væri helst til almennt orðuð og tillögur ekki nógu rækilega útfærðar. Við höfum ekki neitað því í sjálfu sér -- enda var lagt upp með að stefnuskráin ætti að verða stutt og að hún ætti að gefa tóninn fyrir stefnuna. En undanfarna mánuði hefur flokkurinn unnið að rækilegri kosningastefnuskrá: Fjögurra ára áætlun Alþýðufylkingarinnar, sem nú er tilbúin og birtist í fyrsta sinn á internetinu í dag.

Ef lýsa ætti stefnu Alþýðufylkingarinnar með einu orði, væri það orð „félagsvæðing“. Félagsvæðing er andstæðan við markaðsvæðingu; sú stefna að reka sér í lagi innviði samfélagsins sem þjónustu en ekki í gróðaskyni, þannig að enginn geti haft þá sér að féþúfu heldur komi „gróðinn“ fram sem betri lífskjör fyrir almenning í landinu. Þetta gildir bæði um heilbrigðiskerfið, menntakerfið, samgöngur, fjarskipti, orkuöflun og -dreifingu og annað það sem telst til samfélagslegra innviða. Félagsvæðing fjármálakerfisins er þó lykilatriði í stefnu flokksins.

Alþýðufylkingin segir: einkarekið fjármálakerfi sogar til sín verðmæti úr samfélaginu í formi vaxta af lánum. Til dæmis er vaxtakostnaður meira en helmingurinn af húsnæðisverði. Mundi einhver með öllum mjalla borga 65 milljónir fyrir fasteign sem er 30 milljóna virði? Flestir gera það nefnilega. Félagslega rekið fjármálakerfi væri í eigu ríkisins eða mögulega sveitarfélaga eða annarra félagslegra aðila. Það mundi sjá öllum almenningi fyrir hóflega háum en vaxtalausum húsnæðislánum.

Tryggingafélögin og lífeyrissjóðirnir eru hluti af fjármálakerfinu og ættu einnig að félagsvæðast. Í staðinn fyrir að uppsöfnunarsjóðir ávaxti sig með okurvöxtum á eigin sjóðsfélaga, tapi drjúgum hluta gróðans í braski og sjóðsfélagarnir nái varla endum saman í ellinni -- í stað þess á einn lífeyrir að gilda fyrir alla, borgaður af ríkinu, og skylduaðild að lífeyrissjóðum afnumin.

Hvað mundi þetta kosta? Mikið -- en þó ekki nema brot af því sem núverandi kerfi kostar. Mismunurinn, fjármunirnir sem sparast við að félagsvæða fjármálakerfið, á að endurreisa innviði samfélagsins, fyrst og fremst heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið og skólakerfið.

Ef Alþýðufylkingin kemst í ríkisstjórn erum við með skýran verkefnalista fyrir fyrstu dagana, kröfur sem eru lágmarkskröfur og ekki verður slegið af: (1) Uppfæra STRAX kjör öryrkja til samræmis við launaþróun í landinu, síðan þau voru fryst í hruninu. (2) Stöðva STRAX sölu ríkiseigna. (3) Láta Landspítalann STRAX hafa a.m.k. milljarð beint, áður en byrjað er á kerfisbreytingum.

Alþýðufylkingin er alfarið á móti Evrópusambandsaðild, vegna þess að hún mundi rígfesta okkur í þeirri markaðsvæðingu og markaðshyggju sem er leiðarstefið í efnahagsstefnu ESB. Við viljum halda fast í fullveldi landsins vegna þess að við viljum nota það til að bæta kjör alþýðunnar.

Meðan ég man, um daginn auglýstum við eftir frambjóðendum. Enn eru til laus sæti á framboðslistum, þannig að áhugasamir eru hvattir til að gefa sig fram.

Vésteinn Valgarðsson
varaformaður Alþýðufylkingarinnar