þriðjudagur, 3. maí 2016

Ræða á baráttufundi Stefnu 1. maí 2016

Þessa ræðu flutti Björgvin Rúnar Leifsson, sem er í framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar, á morgunfundi Stefnu á Akureyri á fyrsta maí.

Fundarstjóri, ágætu fundargestir.

Í desember 2013 lagði íslenskur verkalýður upp í langa og stranga kjarabaráttu undir styrkri stjórn forystu ASÍ. Aðrar stéttir fylgdu fljótlega í kjölfarið og til að gera langa sögu stutta lauk þessari hrinu verkfalla með fullnaðarsigri launafólks vorið 2015 og var forysta ASÍ leiðandi í kjarabaráttunni allan tímann.

Hugsið ykkur eitt yndislegt andartak að ofangreint væri allt satt og rétt. Hversu væri það ekki við hæfi að geta hrósað ASÍ og forystusveitinni þar á 100 ára afmæli sambandsins. En það er nú öðru nær, því miður.

Hinn 21. desember undirritaði forysta ASÍ með Gylfa Arnbjörnsson í broddi fylkingar líklega hinn versta smánarsamning í allri 100 ára sögu sambandsins. Mig minnti að samið hefði verið um þrjú komma eitthvað prósent en þegar ég gáði að þessu á heimasíðu sambandsins kom í ljós að tímamótasamningurinn hljóðaði upp á 2,8%. 2,8%!

Auðvitað voru allir ánægðir. Atvinnurekendur þurftu varla að opna budduna. Seðlabankastjóri slapp við að hækka stýrivexti til að hamla gegn óðaverðbólgunni, sem allir vita að fylgir kjarasamningum. Og kratarnir sungu gamla sönginn um að litlar launahækkanir skiluðu mestum kaupmættinum og því meiri sem hækkanirnar eru minni. Ég velti því upp á Fésbók að skv. sömu röksemdafærslu mætti leiða líkur að því að þá fyrst yrði kaupmátturinn tryggður að launafólk tæki á sig launalækkun og fékk náttúrlega skömm í hattinn og var sakaður um útúrsnúning. Mig minnir meira að segja að einn kratinn hafi hent mér út sem fésbókarvini við það tækifæri. Bættur sé skaðinn.

Einhverra hluta vegna keyptu framhaldsskólakennarar ekki þessa röksemdafærslu. Þeir fóru í grimma kjarabaráttu vorið 2014 undir skömmum og svívirðingum frá atvinnurekendum, seðlabankastjóra og ASÍ forystunni. Skemmst er frá að segja að eftir langt og strangt verkfall náðu kennarar fram nánast öllu, sem þeir lögðu upp með og voru umsvifalaust sakaðir af forseta ASÍ um að hafa eyðilagt þær miklu kjarabætur, sem hann náði fram í desember árið áður.

Nú fóru aðrar stéttir að taka við sér. Allir með báðar heilafrumurnar starfandi sáu að það var eitthvað brogað við krataröksemdirnar. Hinir og þessir hópar leyfðu sér þá ósvífni að fara af stað með svo himinháar kröfur að bæði Gylfi og Már misstu örugglega margra nátta svefn fyrir vikið og verðbólgupúkinn á öxl þess síðarnefnda spriklaði af hrifningu. Og allt voru þettar svokallaðar hálaunastéttir, takið eftir því. Flugmenn, læknar, hjúkrunarfræðingar, alls konar BHM pakk og þaðan af skrýtnari þjóðfélagshópar. Ekki var minnst á strípuð byrjunarlaun hjá þessum hópum, vaktaálag og aðra slíka þætti. Ég man t.d. eftir því að fyrrum samkennari minn tjáði mér árið 2010 þegar hin svokallaða vinstristjórn, réttnefnd krataríkisstjórn, setti lög á verkfall flugvirkja, að þeir ættu ekki betra skilið fyrir að vera með heimtufrekju á svimandi launum. Þegar ég reyndi að malda í móinn og benti á að byrjunarlaun flugvirkja væru aðeins um 308 þúsund á mánuði sagði hann að það væri ekkert að marka því að þeir væru allir á vöktum, yfirvinnu og ég veit ekki hvað. Heldur sljákkaði í eðalkratanum þegar ég spurði á móti hvort við ættum þá ekki að gæta sanngirni og tala líka um heildarlaun framhaldsskólakennara en ekki strípuð byrjendalaun.

Ekki fengu flugmenn betri útreið en flugvirkjar. Einhverra hluta vegna láðist skoða árslaun t.d. flugmanna hjá Icelandair þegar menn hneyksluðust sem mest á mánaðarlaununum. Eins og allir vita dregur Icelandair saman seglin á veturna og segir þá upp slatta af flugmönnum og ætlast svo til að þeir séu klárir í bátana næsta vor. Leit á netinu með leitarstrengnum "uppsagnir flugmanna hjá Icelandair" leiðir ýmislegt forvitnilegt í ljós, m.a. að hið svokallaða tap Icelandair 2014, sem félagið ætlaði að taka á sig til að geta nú haldið áfram að selja krötum sem öðrum "ódýra" flugmiða, er nokkurn veginn sama tala og sparnaðurinn á veturna þegar stórum hluta flugmanna er sagt upp.

Að lokum sá þjóðlega aflandsríkisstjórnin sig knúna til að grípa í taumana. Sett voru lög á slatta af verkföllum. Öll voru þessi lög neyðarúrræði að sjálfsögðu, enda þjóðarhagsmunir í húfi eins og alltaf þegar ráðist er að verkfalls- og samningsréttinum. Forvitnilegust þótti mér þó heilög reiði krataflokkanna á alþingi, sem voru einhvern veginn alveg búnir að gleyma lögunum, sem þeir settu þó sjálfir á flugvirkja árið 2010.

Já, talandi um hagsmunaklisjuna. Það geta aldrei verið hagsmunir hinna vinnandi stétta að alþingi setji lög á verkföll og breytir þá engu hvað viðkomandi stétt hefur í laun, hvaða kröfur hún gerir eða hver áhrif verkfallsins eru. Lög á verkföll þjóna eingöngu hagsmunum auðvaldsins. Hér verður einnig að minnast á bullið um að það sé einhver nýlunda að verkföll bitni á þriðja aðila, svo sem almenningi, því að það hafa þau alltaf gert með beinum eða óbeinum hætti. Það getur hreinlega ekki hjá því farið að víðtækar verkfallsaðgerðir einnar eða fleiri stétta hafi víðtæk áhrif í þjóðfélaginu, enda væru verkföll þá til lítils ef þau hefðu ekki áhrif og mynduðu því ekki þrýsting úr sem flestum áttum á viðsemjendur, hverjir sem þeir eru.

Nei. Ef við föllumst á að það geti verið réttlætanlegt í einhverjum tilfellum að stöðva verkföll með lögum erum við komin út á virkilega hálan ís. Þá verðum við t.d. að ákveða hvar hin launalegu mörk liggja, þ.e. hvað má starfsstétt hafa í hámarkslaun til að hún geti leyft sér að fara í verkfall til að berjast fyrir kröfum sínum. Ef við föllumst á að einhverjir almannahagsmunir séu verkföllum ofar erum við um leið að segja að verkfallsrétturinn, eina leiðin sem launafólk hefur til að berjast fyrir kjörum sínum, sé ekki ómissandi og ekki hinn mikilvægasti allra almannahagsmuna. Ef við föllumst á þetta munum við vakna upp við það einn góðan veðurdag að einhver hægrisinnuð ríkisstjórn, t.d. núverandi ríkisstjórn, hafi með lagasetningu afnumið verkfalls- og samningsréttinn. Þá held ég að kratar með Gylfa og ASÍ forystuna í broddi fylkingar myndu bókstaflega ærast af fögnuði.

Vorið 2015 logaði allt í verkföllum og svo undarlegt sem það kann að virðast voru það einkum félög innan vébanda ASÍ, sem stóðu fyrir þeim. Einhvern veginn hafði það ekki gengið eftir að verðbólgan færi af stað eftir kjarasamninga framhaldsskólakennara og raunar held ég að forystumenn hinna ýmsu verkalýðsfélaga hafi verið búnir að fá nóg af undirlægjuhætti ASÍ forystunnar við auðvaldið. Það er skemmst frá því að segja að þessum aðgerðum lauk með glæstum sigri verkalýðsfélaga í landinu, sem náðu fram mestu af kröfum sínum. Í þessu sambandi verður að minnast sérstaklega á þátt verkalýðsfélagsins Framsýnar á Húsavík og Verkalýðsfélags Akraness en þessi tvö félög með Aðalsteinn Árna Baldursson annars vegar og Vilhjálm Birgisson hins vegar í broddi fylkingar rufu skörð í samstöðu Samtaka Atvinnulífsina með því að semja beint við atvinnurekendur í sínum umdæmum og náðu raunar betri samningum en heildarsamningarnir voru á endanum. Einhver laug því að mér einhvern tímann að Vilhjálmur þessi væri framsóknarmaður. Ég leyfi mér þá að vitna í Deng gamla og vona að ég fái ekki bágt fyrir að mér er sléttsama um litinn á kattarskömminni ef hún bara veiðir mýsnar. Sé það rétt að Vilhjálmur sé frammari er hann næstum örugglega eini alminlegi frammarinn í fjósinu.

Hvað gerði forysta ASÍ á meðan á öllum þessum ósköpum stóð? Dró hún vagninn? Ekki aldeilis! Hún drattaðist á eftir í bullandi fýlu og gekk meira að segja svo langt að saka Aðalstein og Vilhjálm um að rjúfa skörð í samstöðu verkalýðsins. Talandi um að snúa hlutunum á hvolf.

Ekki lét Gylfi og kó þar við sitja. Nei, nú var ráðist á frjálsan samningsrétt stéttarfélaganna í landinu með SALEK samkomulaginu. Það gengur náttúrlega ekki að einstaka verkalýðsfélög vogi sér að lúta ekki óskeikulli forystu stétt-með-stétt niðurrifsaflanna.

Áður en ég lýk þessari umfjöllun um kjarabaráttu síðustu ára er rétt að minnast á óvæntan en ánægjulegan dóm kjararáðs í BHM málinu. Ríkisstjórnin sparaði launagreiðslur í tvo mánuði áður en hún lét til skarar skríða en hafandi launahækkanir annarra stétta, svo sem framhaldsskólakennara, fyrir framan sig var kjararáði varla stætt á öðru en að dæma félögum í BHM umtalsverðar launahækkanir.

Það er vissulega undarlegt eftir alla þessa löngu og ströngu kjarabaráttu og allar þessar launahækkanir að ekki skuli allt vera komið úr böndunum. Verðbólgupúkinn og Már gráta á öxlum hvors annars og kaupmátturinn hefur batnað. Það skyldi þó aldrei vera að það sé eitthvað að kratahagfræðinni?

Nú vendi ég kvæði mínu í kross.

Í aflöndum er ekkert skjól
útum geima og heima,
enda munu íslensk fól
öllu búin að gleyma.

Í aflöndum er ekkert skjól,
ekkert nema mæða.
Ekki munu íslensk fól
á því nokkuð græða.

Auðmenn flestir erkifól,
á það vil ég minna:
Hurfu þeir í skattaskjól
með skattinn okkar hinna.

Frá hruni hefur mikið verið rætt um íslenska spillingu og hefur sú umræða náð nýju flugi með skattaskjólsafhjúpununum. Sumir, sem virðast vera í eins konar öfugum þjóðrembugír, virðast einskis óska fremur en að Ísland sé mest og best í öllu, þ.m.t. spillingunni. Látum það liggja milli hluta. Ég hef meiri áhyggjur af ýmiss konar skyndilausnum á spillingunni í boði hinna aðskiljanlegustu stjórnmálaafla. Sumir róa á mið fasismans og reyna í skjóli þjóðrembunnar að kveikja hræðslu og þar með hatur í garð allra, sem ekki eru ljóshærðir, hvítir og kristnir aríar. Sérstaklega eru flóttamenn frá stríðshrjáðum múslimalöndum einkar hættulegir að mati þessa fólks. Því miður er hér ekki um að ræða lítinn, einangraðan hóp í Þjóðfylkingunni því að þessar skoðanir leynast víða í þjóðfélaginu. Gegn fasismanum verðum við að berjast með öllum tiltækum ráðum hvar sem er og hvenær sem er því að þessi ógn er mjög raunveruleg í allri Evrópu um þessar mundir.

Sem betur fer eru ekki öll stjórnmálaöfl á þessum miðum. Má þar m.a. nefna pírata og Dögun. Báðir þessir flokkar vilja umbætur og báðir vilja ráðast gegn spillingunni og er það lofsvert og ekki skal ég efast um að þar fylgir hugur máli. Vandinn er hins vegar að það skal allt gert undir formerkjum hins kapítalíska hagkerfis og er þá viðbúið að minna verði úr en efni standa til. Það þekkjum við af reynslunni. Þó að píratar vilji helst ekki kenna sig við vinstri né hægri eru lausnir þeirra í rauninni enn ein greinin á hinum kratíska meiði. Tökum einstaklingsframboð sem dæmi. Sumir yfirlýstir stuðningsmenn pírata vilja ganga svo langt að öll framboð til setu á aþingi séu á einstaklingsgrunni og jafnvel að banna listakosningar stjórnmálaflokkanna. Nú hef ég í sjálfu sér ekkert á móti einstaklingskjöri til alþingis og tel það í rauninni aukið lýðræði en mér er ómögulegt að sjá að spillingin í þjóðfélaginu minnki eitthvað við síkt fyrirkomulag, hvað þá að meina fólki að bjóða sig fram í nafni stjórnmálaflokka, sem getur varla kallast mjög lýðræðileg aðgerð.

Nú hefur formaður Samfylkingarinnar boðað alveg nýja stefnu. Flokkurinn á að vera róttækur umbótaflokkur, sem sækir inn á miðjuna. Þetta þykja mér kúnstug tíðindi og er e.t.v. eitthvað fyrir höfunda næsta áramótaskaups að moða úr. Það breytir engu á hvað mið krataflokkarnir róa, hvort sem þeir eru stórir eða smáir, á þingi eða utan. Umbætur á hinu kapítalíska kerfi innan hins kapítalíska kerfis eru fullreyndar. Það verður að fara aðrar leiðir. Kapítalisminn snýst um einkavæðingu fjármagnsins og velferðarkerfisins. Jafnvel í hinum svokölluðu norrænu velferðarríkjum er þrýstingurinn í átt til einkavæðingar.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í grein eftir Þorvald Þorvaldsson, formann Alþýðufylkingarinnar, þar sem hann rifjar upp nokkur afrek krataríkisstjórnarinnar:

"Með því að einkavæða bankana aftur og færa þá í hendur auðmönnum var í raun öllum leiðum lokað til neinna umbóta. Þegar bankarnir soga til sín öll verðmæti sem þeir koma höndum yfir út úr raunhagkerfinu verður lítið eftir til velferðar og annarra þarfa samfélagsins. Þess vegna fylgdi því blóðugur niðurskurður til velferðar. Um leið fengu bankarnir frítt spil til að reka þúsundir fátækra fjölskyldna út á gaddinn, sem ýmist hafa flúið land eða sligast nú undir hækkandi húsaleigu. „Eigendur“ tryggingafélaga sem fengu styrki frá ríkinu í stað þess að vera þjóðnýtt, eru nú aftur farnir að taka sér háar arðgreiðslur.
Þetta er ekki „eitthvað sem misfórst“. Þetta var kjarni stjórnarstefnunnar og almennir flokksmenn fengu engin tækifæri til að hafa áhrif á hana. Þannig var búið í haginn fyrir íhaldsstjórnina og vaxandi ójöfnuð sem enn heldur áfram. Enn fremur hafði þessi stjórn þau áhrif að ýta undir ranghugmyndir um vinstristefnu."

Mig langar að biðja ykkur um að rifja upp í huganum hvaða flokkar sendu frá sér ályktanir um stuðning við kjarabaráttu undangenginna ára og gegn stéttasamvinnunni, svo sem SALEK samkomulaginu. Eftir því sem ég best veit var það aðains einn flokkur. Hér eru nokkur dæmi um ályktanir Alþýðufylkingarinnar frá síðasta ári:

Fyrst er hér Ályktun um verkfallsrétt:

"Alþýðufylkingin varar við hugmyndum fjármálaráðherra um endurskoðun á verkfallsréttinum, sem eru ekkert annað en illa dulbúin ósk íhaldsaflanna um afnám þessa sama réttar. Minna má á að Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, hótaði flugumferðastjórum lögum á verkfallsréttinn árið 2001 og aðrar stéttir hafa fengið svipaðar hótanir gegnum árin.
Verkfallsrétturinn er eina vopnið, sem bítur í kjarabaráttu launafólks. Honum er aldrei beitt nema í neyð og bitna verkföll alltaf á báðum aðilum hvað svo sem formaður Sjálfstæðisflokksins heldur fram. Þá hljóta verkföll alltaf að bitna með beinum eða óbeinum hætti á ótengdum aðilum, enda getur hreinlega ekki hjá því farið að víðtækar verkfallsaðgerðir einnar eða fleiri stétta hafi víðtæk áhrif í þjóðfélaginu, enda væru verkföll þá til lítils ef þau hefðu ekki áhrif og mynduðu því ekki þrýsting úr sem flestum áttum á viðsemjendur, hverjir sem þeir eru."

Þá kemur Ályktun um verkföll:

"Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar lýsir yfir fullum stuðningi við boðun verkfalla hjá verkalýðsfélögunum í landinu og hvetur til að þeim verði fylgt eftir til sigurs.
Efnahagslegur og félagslegur ójöfnuður í landinu hefur vaxið jafnt og þétt undanfarna áratugi og er orðinn algerlega óþolandi. Þar vegur ekki þyngst mismunur milli starfsgreina heldur ójöfnuður milli vinnandi fólks og auðstéttarinnar sem mergsýgur samfélagið. Nýlegir atburðir varpa skýru ljósi á viðhorf auðstéttarinnar til þeirra sem skapa henni auðinn. Sannleikurinn er hins vegar sá að hún kemst ekki af án verkafólksins en við komumst betur af án auðstéttarinnar.
Í því ljósi ættu öll verkalýðsfélög í landinu að sameinast í baráttu fyrir stórfelldum launahækkunum þeirra lægst launuðu og miklu átaki til aukins jafnaðar. Eignarhald HB Granda og annarra auðfyrirtækja á atvinnutækjum og uppsöfnuðu auðmagni er ekki sjálfgefið."

Að lokum tvær ályktanir um SALEK.

"Alþýðufylkingin leggst eindregið gegn hugmyndum Samtaka atvinnulífsins og ASÍ-forystunnar um það sem þeir kalla „nýjar leiðir í kjarasamningum til að tryggja frið á vinnumarkaði og raunverulegar kjarabætur.
Hið nýja „vinnumarkaðsmódel“, eins og það er kallað er ekkert annað en aðför atvinnurekenda að verkfalls- og samningsrétti launafólks, með fullum stuðningi verkalýðsforystunnar í landinu.
Alþýðufylkingin harmar að ASÍ-forystan skuli enn vera við „stétt-með-stétt“ heygarðshornið og skorar á forystu BSRB að láta ekki teyma sig út í fúafenið."

Því miður reyndist forysta BSRB leiðitöm

"Nýlega bárust fréttir af svokölluðu rammasamkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins um breyttar aðferðir við gerð kjarasamninga þar sem aukin miðstýring verði í forgrunni.
Samkvæmt lögum er samningsréttur verkafólks í höndum einstakra stéttarfélaga. Þetta samkomulag er lítt dulbúin árás á samningsrétt verkalýðsfélaganna og gróf tilraun til að grafa undan honum. Það er ekki langsótt að halda því fram að samkomulag þetta sé brot á lögum um stéttafélög og vinnudeilur enda koma fram í því hugmyndir um breytingar á þeim lögum.
Allt er þetta gert undir því yfirskini að þannig megi ná betri árangri í bættum kjörum og betri hagstjórn. Reynslan sýnir hins vegar að stéttasamvinnustefnan hefur aldrei skilað neinum árangri til bættra kjara fyrir verkafólk. Það hefur aldrei náð neinu fram án baráttu. Við óbreytt ástand eru lágmarkskjör alþýðunnar hins vegar stillt við hungurmörk til að tryggja auðstéttinni hámarksgróða. Sú breyting sem helst þarf að gera á vinnumarkaðsmódelinu er að losna við sjálftöku fjármálaauðvaldsins út úr raunhagkerfinu og styðja baráttu vinnandi fólks fyrir réttlátum hlut."

Tilvitnunum lýkur.

Svarið við stéttasamvinnu er stéttabarátta. Það er aðeins einn flokkur á Íslandi, sem stendur óskorað með vinnandi fólki í kjarabaráttu. Það er Alþýðufylkingin.

Svarið við einkavæðingu er aðeins eitt: Félagsvæðing. Félagsvæðing bæði fjármálakerfisins og ekki síður að vinda ofan af einkavæðingu velferðarkerfisins, sem aðeins verður gert með því fyrrnefnda. Og það er aðeins einn flokkur á Íslandi með þessa stefnu. Það er Alþýðufylkingin.

Kjörorð Stefnu, félags vinstri manna, sem heldur þennan baráttufund, eru:
* Kosningar breyta ekki landslaginu – aðeins samtakabarátta alþýðu dugir!
* Vekjum stéttarfélögin – endurheimtum kaupmáttinn!
* Vinna handa öllum er mannréttindi!
* Verjumst árásunum á velferðarkerfið!
* Félagsvæðum fjármálakerfið!
* Verndum sjálfsákvörðun og lýðræði – burt með ESB-umsókn!
* Enga aðild að innrásarstríðum – Ísland úr NATO!
* Gegn vestrænum íhlutunum í Sýrlandi og Íran!
* Jafnrétti kynjanna!
* Auðvaldskreppa, auðvaldsrányrkja og auðvaldsstríð... Svarið er sósíalismi!

Það er aðeins einn flokkur á Íslandi, sem hefur öll þessi kjörorð í stefnu sinni. Það er Alþýðufylkingin.

Alþýðufylkingin lofar ekki að hennar stefna muni sjálfkrafa leiða til upprætingar allrar spillingar á Íslandi. Alþýðufylkingin lofar heldur ekki neinum patentlausnum. Það er hins vegar kominn tími á að reyna aðrar leiðir en leið einkavæðingarinnar, leið kapítalismans. Ég skora á alla, sem eru búnir að fá upp í kok af kratískum lausnum á kapítalismanum að koma til liðs við Alþýðufylkinguna. Ég skora á ykkur öll að hjálpa okkur að bjóða fram í öllum kjördæmum landsins í næstu alþingiskosningum.