föstudagur, 6. maí 2016

1. maí ávarp Alþýðufylkingarinnar 2016

Nú eru 100 ár síðan Alþýðusamband Íslands var stofnað í miðri heimsstyrjöld, og enn eru viðsjárverðir tímar. Kreppa auðvaldsins dýpkar um allan heim þó hið gagnstæða sé látið í veðri vaka. Byrðunum er enn sem fyrr velt yfir á herðar alþýðunnar með vaxandi ójöfnuði. Verkalýðshreyfingin hefur ekki búist til varnar sem skyldi enda hefur forysta hennar bundið trúss sitt við lausnir auðvaldskerfisins og metur meira hagsmuni fjárfesta en félagslegar lausnir í þágu alþýðunnar.  


Auðstéttin herðir tökin stöðugt og flytur ýmist framleiðsluna eða verkafólkið heimshorna á milli til að geta nýtt sér ódýrasta vinnuafl sem býðst. Heimsvaldasinnar fara dólgslega um lönd og álfur og hafa þegar lagt heilu heimshlutana í rúst með hernaði. Milljónir eru hraktar á flótta og sæta vaxandi ofsóknum í flestum löndum. Á sama tíma er flóttafólk notað til að ýfa upp innbyrðis átök meðal alþýðunnar. 


Fasisminn er vaxandi ógn um allan heim. Hann þrífst ekki bara á hatri í garð flóttafólks og annarra útlendinga heldur einnig á gjaldþroti hvers konar krataflokka og uppgjöf verkalýðsforingjanna, sem hafa í raun gengið auðstéttinni á hönd. Fasistarnir fara með lýðskrumi og þykjast geta leyst öll þau vandamál sem krata-flokkarnir hafa gefist upp á. En loforð þeirra eru innantóm og ekkert stendur á bak við tal þeirra um bætt kjör aldraðra og öryrkja eða 300.000 króna persónuafslátt. Enda hafa þeir ekkert sagt um hvernig þeir ætla að ná því fram. 


Fasisminn má ekki fá að skjóta rótum hér á landi. Við verðum að sameinast til að koma í veg fyrir það. Fyrir áttatíu árum gerðu fasistar uppreisn gegn ungu lýðveldi á Spáni. Þar var Alþýðufylkingin til varnar og barðist fyrir sameiningu þjóðarinnar gegn uppreisn fasista og fyrir málstað lýðveldisins. Þó að spænska þjóðin lyti í lægra haldi fyrir sameinuðum fasistaöflum Evrópu, varð barátta hennar að lýsandi dæmi fyrir málstað sem aldrei deyr. 


Alþýðufylkingin á Íslandi mun sömuleiðis beita sér hlífðarlaust fyrir auknu lýðræði og gegn hvers konar tilhneigingum til fasisma. Við munum einnig beita okkur fyrir því að Alþýðusambandið verði á ný það sameiningarafl um hagsmuni alþýðustéttarinnar sem stofnað var til fyrir 100 árum.


Þessu ávarpi var dreift í dreifibréfi Alþýðufylkingarinnar á 1. maí.