föstudagur, 1. apríl 2016

Skipt um þjóð

Frá árinu 2000 hafa 10.499 Íslendingar flutt af landi brott umfram Íslendinga sem hafa flust til landsins. Á sama tíma fjölgar erlendum ríkisborgurum á vinnumarkaði og eru orðnir fleiri en árið 2007 eða 17.700 manns.

Slæm kjör almennings eru helsta orsök þess að fólk flýr land. Nær ómögulegt er fyrir ungt fólk að kaupa húsnæði. Okurleiga er viðvarandi og ekkert gert til að stemma stigu við henni. Verkalýðshreyfingin gerir ótrúlega litlar kröfur á atvinnurekendur. Í síðustu samningum var samið um að lágmarkslaun næðu 300 þúsundum 2018 á sama tíma og velferðarráðuneytið gefur út að lágmarksframfærsla einstaklings sé kr. 236.581 á mánuði og hjóna með 2 börn er 507.908 án húsnæðiskostnaðar. Þess ber að geta að 300 þúsundin eru laun fyrir skatt og gjöld.

Iðnaðarmenn fóru sérlega illa út úr hruninu. Fjöldi manna missti vinnu þegar byggingaframkvæmdir stöðvuðust. Öðrum var gefinn kostur á lágmarkslaunum sem nú rétt slefa yfir 300 þúsund á mánuði fyrir fulla vinnu. Iðnaðarmenn fluttu í stórum hópum til Noregs og annarra Norðurlanda þar sem þeir eru eftirsótt vinnuafl vegna þekkingar sinnar, dugnaðar og menntunar. Þessir iðnaðarmenn eru ekki að koma heim því launum er markvisst haldið hér niðri með innfluttu vinnuafli eins og tölurnar hér að ofan sýna.

Það er verið að skipta út íslenskum iðnaðarmönnum fyrir suður- og austur-evrópska verkamenn, færanlegt vinnuafl. Nú fjölgar aftur starfsmönnum sem hingað koma á vegum svonefndra starfsmannaleiga og kallast það þjónustukaup af Evrópska efnahagssvæðinu.

Hvaða menntun hefur það fólk sem hingað er leigt eða ræður sig hér í störf iðnaðarmanna? Þeir eru ekki iðnsveinar og hafa í fæstum tilfellum tilskilin réttindi eins og krafist var hér og við þekkjum frá nágrannalöndum. Því miður er menntun flestra líkari því sem sagt er frá í Grimms-ævintýrum, þ.e.a.s. einhver takmörkuð verkþekking en lítil sem engin skólaganga eða önnur nauðsynleg grunnmenntun.

Ýmis samtök, t.d. Samtök verslunar og þjónustu, hafa sótt stíft og lagt til við stjórnvöld að afnema lögverndun iðngreina. Iðnlöggjöfin og lögverndun iðngreina hefur verið þyrnir í augum þeirra sem vilja eyðileggja iðnmenntun í landinu.

Skipt út fyrir ódýrt vinnuafl
Íslenskum launþegum sem vilja sanngjarnan skerf af kökunni er nú skipt út fyrir erlent ódýrt vinnuafl sem ekki gerir kröfur.

Á Reykjavíkursvæðinu er skóli einn þar sem 75% nemenda eru af erlendum uppruna og hafa annað mál en íslensku að móðurmáli. Skóli þessara krakka kemur endurtekið afar illa út úr svonefndum PISA-könnunum og samræmdum prófum. Brottfall unglinga af erlendum uppruna úr framhaldsskólum er allt að 90%, og ný kynslóð ódýrs vinnuafls vex úr grasi.
Svona er íslenskt samfélag í dag þegar bankar og stórfyrirtæki mergsjúga almenning í landinu með samþykki stjórnvalda. Arði af auðlindum þjóðarinnar og fyrirtækjum í eigu ríkisins hefur verið komið á fárra hendur sem kreppast fast utan um aurinn, þegar stór hluti þjóðarinnar býr við fátækt og innviðir samfélagsins eru í molum. Svona er þrælahaldið endurvakið í breyttri mynd og svona eru vistarböndin endurvakin með eiginlegu eignarhaldi fyrirtækja á erlendu vinnuafli og fjölskyldum þeirra sem ekki þora eða geta ekki sótt rétt sinn.

Koma verður í veg fyrir að gróðabraskarar geti nýtt sér eymd fólks frá löndum þar sem allt aðrar kröfur eru til almennra lífsgæða á sama tíma og grafið er undan þeim ávinningi sem almenningur hér á landi hefur barist fyrir áratugum saman.

Guðmundur Sighvatsson byggingafræðingur og félagi í Alþýðufylkingunni
Þessi grein birtist áður á Vísi og í Fréttablaðinu 11. mars 2016