föstudagur, 15. apríl 2016

Samstaða – um hvað?

Í Fréttablaðinu 7. apríl birtir Ögmundur Jónasson svar við grein frá mér tveimur dögum fyrr. Honum finnst sér greinilega misboðið. Hvor okkar talar niður til hins, læt ég liggja milli hluta. Ég játa að mér var óþarflega mikið niðri fyrir við skrifin, sem kannski stafar af því að ég hafði trú á Ögmundi og studdi hann um árabil.

Grein minni var ekki ætlað að fella dóm um persónuleg embættisverk Ögmundar heldur vísa til stefnu og áhrifa þeirrar ríkisstjórnar sem hann var lykilmaður í. Auðvitað hefur Ögmundur gert margt gott og þarft sem of langt væri að tíunda en það losar hann ekki undan ábyrgð á stefnu fyrrnefndrar ríkisstjórnar og orð hans verða eðlilega skilin í ljósi hennar að óbreyttu.

Áhrif síðustu ríkisstjórnar
Ögmundur kallar eftir því að ríkisstjórn síðasta kjörtímabils njóti sannmælis. Það þýðir varla eingöngu að bera skuli í bætifláka fyrir hana. Það er fyrst og fremst mikilvægt að meta erindi hennar og áhrif í heild. Með því að einkavæða bankana aftur og færa þá í hendur auðmönnum var í raun öllum leiðum lokað til neinna umbóta. Þegar bankarnir soga til sín öll verðmæti sem þeir koma höndum yfir út úr raunhagkerfinu verður lítið eftir til velferðar og annarra þarfa samfélagsins. Þess vegna fylgdi því blóðugur niðurskurður til velferðar. Um leið fengu bankarnir frítt spil til að reka þúsundir fátækra fjölskyldna út á gaddinn, sem ýmist hafa flúið land eða sligast nú undir hækkandi húsaleigu. „Eigendur“ tryggingafélaga sem fengu styrki frá ríkinu í stað þess að vera þjóðnýtt, eru nú aftur farnir að taka sér háar arðgreiðslur.

Þetta er ekki „eitthvað sem misfórst“. Þetta var kjarni stjórnarstefnunnar og almennir flokksmenn fengu engin tækifæri til að hafa áhrif á hana. Þannig var búið í haginn fyrir íhaldsstjórnina og vaxandi ójöfnuð sem enn heldur áfram. Enn fremur hafði þessi stjórn þau áhrif að ýta undir ranghugmyndir um vinstristefnu. Af hverju ætti Ögmundur ekki að svara fyrir þetta mikla tjón til að reyna að vinda ofan af því?

Það er nefnilega hárrétt hjá Ögmundi að undanfarna áratugi hefur fjarað mjög undan vinstrihreyfingunni undir áhrifum frá svokallaðri frjálshyggju. Ein ástæða þess er sú að vinstrihreyfingin hefur haft of marga leiðtoga sem tala í gátum eða segja eitt og gera annað án samráðs við eigin flokksfólk og stuðningsmenn. Þannig hafa orðið vonbrigði, upplausn og óvissa um hvað vinstristefnan felur í sér í raun og veru. Út úr því koma m.a. flokkar með „alls konar“. En hættan á fasisma lúrir einnig á næsta leiti.

Hvað stendur á fánanum?
Það er því ekki óeðlilegt þó spurt sé hvað stendur á félagshyggjufánanum sem Ögmundur vill draga að húni? Verður það um meiri betlipeninga frá fjármálaauðvaldinu, eða baráttu gegn arðráni og fyrir aukinni félagsvæðingu frá grunni? Stjórnmál eru ekki einkamál flokka og einstaklinga. Samstaða er þar lykilatriði. Til að hún skapist verður að vera samtal og skýrt hvað átt er við. Ef Ögmundi er alvara með að stuðla að slíku er skynsamlegt að bregðast líka við því sem aðrir segja, hvort sem þeir eru sérstakir handhafar sannleikans. Þó að honum finnist það kokhreysti sem jaðrar við aðhlátursefni þá hafa flestar hugmyndir um pólitíska endurreisn vinstrihreyfingarinnar komið fram í stefnu og sjónarmiðum Alþýðufylkingarinnar undanfarin ár. Að sniðganga þau sjónarmið dregur úr líkum á samstöðu.

Þorvaldur Þorvaldsson, trésmiður og formaður Alþýðufylkingarinnar.
Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu og á Vísi.