mánudagur, 1. febrúar 2016

Opið bréf til Katrínar Jakobsdóttur

Kæra Katrín. Mig langar að spyrja um álit þitt og VG á máli sem nokkuð hefur verið til umfjöllunar og skiptir talsverðu máli frá ýmsum sjónarhóli.

Undanfarið hefur viðskiptabann gagnvart Rússlandi, sem Ísland hefur tekið þátt í undir handarjaðri Evrópusambandsins, ratað á ný í fjölmiðla. Tilefnið er síðbúið andsvar Rússa sem hafa sett bann við innflutningi matvæla frá Íslandi og fleiri löndum. Útgerðarmenn og fiskútflytjendur bera sig illa og látið hefur verið í veðri vaka að þeirra hagsmunir séu einu rökin gegn viðskiptabanninu. Það sé borið uppi af óvéfengjanlegum málstað og andstaða gegn því feli í sér að selja sál sína fyrir peninga. Því er haldið fram að Rússar hafi brotið alþjóðalög í átökunum í Úkraínu og með innlimun Krímskagans. En málið er ekki svo einfalt.

Hver er þá hinn raunverulegi málstaður að baki viðskiptabannsins gagnvart Rússlandi? Í febrúar 2014 var rétt kjörinn forseti Úkraínu, Viktor Janukovitsj, hrakinn frá völdum í valdaráni fasista, sem helstu máttarvöld Evrópusambandsins og Bandaríkjanna stóðu á bak við. Valdaránsstjórnin hóf feril sinn með því að afnema stöðu rússnesku sem opinbers tungumáls og ógna rússneskumælandi íbúum á margan hátt. En drjúgur hluti landsmanna er rússneskumælandi, sérstaklega í austurhéruðunum og á Krímskaga þar sem Rússar eru í verulegum meirihluta. Enda tilheyrði Krím­skagi Rússlandi til ársins 1954 og innlimun hans í Úkraínu orkaði mjög tvímælis. Samkvæmt samningi frá uppskiptum Sovétríkjanna hafa Rússar haft aðstöðu fyrir flotastöð í Sevastopol á Krímskaga til að verja sig gegn flaugum NATO sem umkringja Svartahafið að mestu.

Niðurstaðan er sú að málstaður viðskiptabannsins sé stuðningur við ólöglega valdatöku fasista í Úkraínu og óhefta útþenslu NATO og Evrópusambandsins. En áhrifin eru vaxandi spenna og hatur. Hér heima fer utanríkisráðherrann mikinn og heldur því fram að samstaða sé á Alþingi um viðskiptabannið gegn Rússlandi.

Því langar mig að spyrja þig, Katrín, um afstöðu þína og þíns flokks til málsins og hvort þið styðjið viðskiptabannið eins og utanríkisráðherrann gefur í skyn. Ef svarið er já, óska ég eftir að helstu rök fyrir því fylgi með. Ef svarið er hins vegar nei er auðvitað gott að rökin fylgi einnig og jafnvel tillögur um baráttuaðferðir gegn því.

- Þorvaldur Þorvaldsson, trésmiður og formaður Alþýðufylkingarinnar
(Þessi grein birtist í Fréttablaðinu og á Vísi fyrir helgi.)