mánudagur, 22. febrúar 2016

Þorvaldur í viðtali í Harmageddon

Í liðinni viku fór Þorvaldur Þorvaldsson, trésmiður og formaður Alþýðufylkingarinnar, í viðtal í útvarpsþættinum Harmageddon. Hægt er að hlusta á þetta alveghreint ágæta viðtal með því að smella hérna.

miðvikudagur, 17. febrúar 2016

Alþýðufylking: Opinn fundur í Reykjavík nk. laugardag

Fréttatilkynning:
Hvað vill Alþýðufylkingin?
Opinn kynningarfundur í Friðarhúsi, Njálsgötu 87,
laugardaginn 20. febrúar kl. 13.

Eftir fundaröð Alþýðufylkingarinnar víðs vegar um landið, er röðin komin að Reykjavík. Alþýðufylkingin boðar til opins kynningar- og umræðufundar laugardaginn 20. febrúar kl. 13, í Friðarhúsi, Njálsgötu 87.

Þar gefst kostur á að ræða um stefnu og framtíðarsýn Alþýðufylkingarinnar. Afstaða til ýmissa mála verður reifuð og áform flokksins í náinni framtíð, meðal annars í næstu kosningum til Alþingis.

Allir eru velkomnir og geta lagt sitt til málanna.

Heitt verður á könnunni og í kolunum.

Nánari upplýsingar:
Vésteinn Valgarðsson, s.: 8629067, vangaveltur@yahoo.com
Þorvaldur Þorvaldsson, s.: 8959564, vivaldi@internet.is
Alþýðufylkingin.is / althydufylkingin@gmail.com


Alþýðufylkingin er vinstriflokkur sem leggur áherlu á að virkja alþýðuna til baráttu gegn alræði auðstéttarinnar. Lykillinn að breyttu samfélagi almenningi til hagsbóta er félagsvæðing fjármálakerfisins og annarra innviða samfélagsins.

miðvikudagur, 10. febrúar 2016

Þorvaldur Þorvaldsson svarar Katrínu Jakobsdóttur

Á Vísi í gær svaraði Þorvaldur Þorvaldsson, trésmiður og formaður Alþýðufylkingarinnar, svari Katrínar Jakobsdóttur til sín, um málefni Úkraínu og Rússlands og Íslands.

þriðjudagur, 9. febrúar 2016

TISA og lýðræði á undanhaldi

Nokkur umræða hefur vaknað um væntanlegan TISA-samning, en Ísland á aðild að samningsgerðinni. Stjórnmálasamtökin Dögun stóðu fyrir opnum fundi um málið fyrir skömmu og Ögmundur Jónasson tók það upp á Alþingi 4. febrúar. Það sem mest er gagnrýnt er leyndin yfir viðræðunum, enda samningsgerðin bak við luktar dyr. Aðferðina skortir allt lýðræði enda er markmiðið ekki styrking lýðræðis heldur þvert á móti, flutningur valds til fjölþjóðlegra auðhringa og risafyrirtækja. Frumkvæðið að TISA kemur frá auðhringunum en almenningi er haldið óupplýstum. Reiknað er með að samningurinn verði lagður fyrir þjóðþing, m.a. Alþingi á Íslandi, en bara til samþykktar eða höfnunar í heilu lagi og óumbreytanlegur. Þetta er víst ekki mál fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu og ekki heldur kosningamál. Gunnar Bragi Sveinsson blæs á gagnrýni og segir samningsgerðina eðlilega og væntanlegan samning hefðbundinn, saklausan viðskiptasamning. Það er fjarri sannleikanum.

TISA-viðræðurnar koma sem framhald GATT viðræðnanna. Fyrsti GATT-samningur varð til fyrir 1950 sem samningur um frjálsari verslun með VÖRUR á eftirstríðsárunum. GATT varð síðan verkfæri til „opnunar markaðanna“ og afnáms innflutningsverndar. Úrúgvæ-lotu GATT-samningsins lauk 1994 með stofnun WTO (Alþjóðaviðskiptastofnunin) og fól einkum í sér frelsun á flæði FJÁRMAGNS OG FJÁRFESTINGA. Frumkvæðið og þrýstingurinn til „opnunar“ kom alla tíð fá vestrænum, einkum bandarískum, auðhringum sem beittu sér fyrir „opnun“ og frjálsara flæði vöru og fjármagns yfir landamæri.TISA er þriðja stóra lotan: frelsun VIÐSKIPTA MEРÞJÓNUSTU. Úrúgvæ-lotan hafði fætt af sér svokallaðan GATS-samning sem einmitt tók til viðskipta með þjónustu. Hins vegar hafði markaðsvæðing þess sviðs stöðvast á miðri leið vegna andstöðu meðal þróunarríkja og ýmissa baráttusamtaka gegn hnattvæðingu (kennd við Seattle 1999). TISA er á sinn hátt framhald GATS, með TISA-viðræðunum tóku 50 þróuð ríki sig út úr, undir forustu Bandaríkjanna, til að búa til nýja samninga um frjálst flæði og stilla síðan öðrum ríkjum upp við vegg og bjóða þeim aðgang að fullmótuðum samningi eða standa úti.

TISA-samningurinn stefnir í það að gera þjónustu að alþjóðlegri verslunarvöru og fjarlægja pólitískar og félagslegar hindranir á „frjálsum viðskiptum “ á því sviði. Löndin skuldbinda sig til að OPNA ÞJÓNUSTUGEIRANN (heilsugæsla, öldrunarþjónusta, menntun, vatns- og orkuveitur, söfn, fjármálaþjónusta, menningarviðburðir...) og markaðsvæða hann á alþjóðlegum markaði. Hugmyndafræðin er frjálshyggja, afnám opinbers regluverks (deregulation). Markaðsvæðingin er jafnframt opnun til einkavæðingar. TISA-samningurinn meinar löndum að hygla að eigin starfsemi (rekstri/fyrirtækjum) á sviði þjónustu eða gera kröfur sem „mismuna“ aðilum, t.d. mismuna jákvætt í þágu neytendaverndar, vinnuverndar, heilsuverndar, umhverfis (sbr. umhverfistengd þjónustuviðskipti). Frjáls markaðslögmál á alþjóðavettvangi eiga að stjórna fjárfestingu í þjónustu og því hvernig þjónustan er veitt. Ljóst má vera af upptalningunni að þetta eru breytingar sem munu hafa geysivíðtæk áhrif á íslenskt samfélag eins og önnur. TISA-samningurinn er risaskref í löngu ferli sem felur í sér stöðuga VALDATILFÆRSLU FRÁ ÞJÓÐKJÖRNU VALDI TIL MARKAÐSAFLANNA. Stórum sviðum er kippt út af vettvangi stjórnmálanna og kosningar til þings og fulltrúasamkunda missa vægi sitt að sama skapi.

Mestar upplýsingar um TISA koma frá leka Wikileaks á nokkrum skjölum um viðræðurnar í júní 2015, sjá https://wikileaks.org/tisa/. Eftir þær afhjúpanir hefur gagnrýnin beinst að afleiðingum samningsins fyrir lýðræðið: hvernig hann breytir þjóðlegu fullveldi í átt að alræðisvaldi stórfyrirtækja. Bergsveinn Birgisson skáld skrifar um dómsvaldið og lögsöguna á sviði samningsins, fyrirbæri sem nefnist „Fjárfestingadómstóll“ (Investor State Dispute Settlement, ISDS): „Í þessum sem og öðrum fríverslunarsamningum er kveðið á um hvernig stórfyrirtæki geta rekið dómsmál gegn þjóðríkjum fyrir gerðardómi ef þeim finnst brotið á sér eða markaðslegt olnbogarými þeirra skert svo það bitni á gróða þeirra. Þessi gerðardómur er skipaður þremur lögfræðingum, hvar tveir þeirra eru oftast hallir undir hag fyrirtækisins, en einn frá landinu sem reynir að spyrna gegn hnattræna túrbó­kapítalismanum.“ Sjá: http://www.visir.is/tisa-samningurinn-og-lydraedi-a-utsolu/article/2015151129588
Arkítektinn á bak við TISA er Bandaríkin. Því landi er að mestu stjórnað af lobbýistum stórfyrirtækja, fulltrúi þeirra í þjónustugeiranum er The Coalition of Services Industries með flesta stærstu auðhringa Bandaríkjanna innanborðs. Hinn aðalaðili samningsins er ESB en auk þess eru rúmlega 20 náin fylgiríki Bandaríkjanna í Suður-Ameríku og Asíu með (m.a. Japan). Hins vegar eru hvorki Kína né sk. BRICS-ríki með (BRICS: Brasilía, Rússland, Indland, Kína og Suður-Afríka), þ.e. hinir uppvaxandi keppinautar gömlu iðnríkjanna á heimsmarkaðnum. TISA er hluti af viðskiptastríði.

Þetta er mikilvægt. TISA er beinlínis TEFLT GEGN framantöldum „nýmarkaðsríkjum“, og umfram allt Kína. TISA er hluti af stærri heild, samningurinn hangir náið saman við tvo aðra samninga sem hafa líka verið í mótun bak við luktar dyr á sama tíma: TTIP (Transatlantic Trade and Investment Partnership) sem er fríverslunarsamningur milli Bandaríkjanna og ESB, ennþá á samningsstigi, og TPP (Trans-Pacific Partnership) sem er skoðaður sem „systursamningur“ (companion agreement) og þar með fyrirmynd hins fyrrnefnda og var undirritaður af 12 Kyrrahafsríkjum þann 4. febrúar síðastliðinn. Daginn eftir kynnti RÚV samninginn og reyndi ekkert að dylja þetta stríðshlutverk hans: „Barack Obama segir samninginn veita Bandaríkjunum forskot á önnur efnahagsleg stórveldi, þá sérstaklega Kína.“ Sjá http://www.ruv.is/frett/friverslunarsamningur-undirritadur. Viðskiptastríðið og hernaðarútrás Vestursins eru tveir þættir í hnattrænu stríði gömlu heimsveldanna við þau nýju, og línur í stríðinu skýrast með þessum nýju samningum. Þess ber svo að geta að þegar TTIP- samningurinn lítur dagsins ljós tekur hann EINNIG GILDI Á íSLANDI gegnum EES-samninginn þótt Ísand sé ekki beinn aðili að honum.

Auðvaldið fer sínu fram meðan lítið mótvægi er frá virkri (hvað þá sósíalískri) verkalýðshreyfingu eða öflugum grasrótarhreyfingum. Og niðurstaðan er ört hopandi lýðræði.

Þórarinn Hjartarson

föstudagur, 5. febrúar 2016

Katrín Jakobsdóttir svarar Þorvaldi

Hér var fyrir stuttu birt opið bréf frá Þorvaldi Þorvaldssyni til Katrínar Jakobsdóttur.
Í byrjun þessarar viku birtist svar Katrínar: Bréf til Þorvalds.
Lesið og dæmið sjálf.

mánudagur, 1. febrúar 2016

Opið bréf til Katrínar Jakobsdóttur

Kæra Katrín. Mig langar að spyrja um álit þitt og VG á máli sem nokkuð hefur verið til umfjöllunar og skiptir talsverðu máli frá ýmsum sjónarhóli.

Undanfarið hefur viðskiptabann gagnvart Rússlandi, sem Ísland hefur tekið þátt í undir handarjaðri Evrópusambandsins, ratað á ný í fjölmiðla. Tilefnið er síðbúið andsvar Rússa sem hafa sett bann við innflutningi matvæla frá Íslandi og fleiri löndum. Útgerðarmenn og fiskútflytjendur bera sig illa og látið hefur verið í veðri vaka að þeirra hagsmunir séu einu rökin gegn viðskiptabanninu. Það sé borið uppi af óvéfengjanlegum málstað og andstaða gegn því feli í sér að selja sál sína fyrir peninga. Því er haldið fram að Rússar hafi brotið alþjóðalög í átökunum í Úkraínu og með innlimun Krímskagans. En málið er ekki svo einfalt.

Hver er þá hinn raunverulegi málstaður að baki viðskiptabannsins gagnvart Rússlandi? Í febrúar 2014 var rétt kjörinn forseti Úkraínu, Viktor Janukovitsj, hrakinn frá völdum í valdaráni fasista, sem helstu máttarvöld Evrópusambandsins og Bandaríkjanna stóðu á bak við. Valdaránsstjórnin hóf feril sinn með því að afnema stöðu rússnesku sem opinbers tungumáls og ógna rússneskumælandi íbúum á margan hátt. En drjúgur hluti landsmanna er rússneskumælandi, sérstaklega í austurhéruðunum og á Krímskaga þar sem Rússar eru í verulegum meirihluta. Enda tilheyrði Krím­skagi Rússlandi til ársins 1954 og innlimun hans í Úkraínu orkaði mjög tvímælis. Samkvæmt samningi frá uppskiptum Sovétríkjanna hafa Rússar haft aðstöðu fyrir flotastöð í Sevastopol á Krímskaga til að verja sig gegn flaugum NATO sem umkringja Svartahafið að mestu.

Niðurstaðan er sú að málstaður viðskiptabannsins sé stuðningur við ólöglega valdatöku fasista í Úkraínu og óhefta útþenslu NATO og Evrópusambandsins. En áhrifin eru vaxandi spenna og hatur. Hér heima fer utanríkisráðherrann mikinn og heldur því fram að samstaða sé á Alþingi um viðskiptabannið gegn Rússlandi.

Því langar mig að spyrja þig, Katrín, um afstöðu þína og þíns flokks til málsins og hvort þið styðjið viðskiptabannið eins og utanríkisráðherrann gefur í skyn. Ef svarið er já, óska ég eftir að helstu rök fyrir því fylgi með. Ef svarið er hins vegar nei er auðvitað gott að rökin fylgi einnig og jafnvel tillögur um baráttuaðferðir gegn því.

- Þorvaldur Þorvaldsson, trésmiður og formaður Alþýðufylkingarinnar
(Þessi grein birtist í Fréttablaðinu og á Vísi fyrir helgi.)