mánudagur, 14. desember 2015

Sönghefti komið a netið!

Það er okkur sönn ánægja að tilkynna að sönghefti Alþýðufylkingarinnar er nú komið á internetið! Hægt er að finna það hérna:

Sönghefti Alþýðufylkingarinnar

...eða á samnefndum hlekk hér á spássíunni. Nú, við viljum endilega að sem flestir njóti þessara söngva með okkur og brýni sig á þeim fyrir baráttuna, þannig að gjörið svo vel!

fimmtudagur, 10. desember 2015

Skertur samningsréttur stéttarfélaga

Þann 4. nóvember fór formaður Verkalýðsfélags Akraness til Reykjavíkur til fundar um kjör starfsmanna Akranesskaupstaðar. Þar var honum tjáð að Samband íslenskra sveitarfélaga væri algjörlega skuldbundið því sem fram kæmi í rammasamkomulagi undirrituðu 27. okt. af svonefndum SALEK-hópi skipuðum fulltrúum aðila vinnumarkaðarins og ríkisins. Þar er m.a. kveðið á um hverjar hækkanir megi vera hjá hópum launþega sem ósamið er við, fram til ársins 2018.

Vilhjálmur verkalýðsforingi á Akranesi fann seinna út sér til hrellingar að í þeim samningum sem Sambandi íslenskra sveitarfélaga hefur gert við ýmis félög bæjarstarfsmanna undanfarið hefur svokallað SALEK- samkomulag FYLGT MEÐ sem viðhengi. Svo les ég í Morgunblaðinu 25. nóvember að Samband íslenskra sveitarfélaga hafi skrifað undir samkomulag við BSRB og SFR sem var „á svipuðum nótum og þeir samningar sem gerðir hafa verið á opinberum vinnumarkaði að undanförnu og taka mið af SALEK-samkomulaginu sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu í október.“

Skjótt og hávaðalaust er komin í notkun NÝ UMGJÖRÐ um kjaraviðræður í landinu. Rammi sem engar kröfur mega fara út fyrir liggur fyrir í upphafi viðræðna. Aldeilis tromp fyrir atvinnurekandann að slá í borðið með!

Við höfum reyndar haft óljósar fréttir af starfi þessa SALEK-hóps sem var stofnaður 2013, starfandi undir verkstjórn ríkissáttasemjara. Í vor og sumar gerði verkalýðshreyfingin meiri kröfur en venjulega, launadeilur urðu líka nokkuð víðtækar, einkum á opinbera markaðnum vissulega, en jafnvel Starfsgreinasambandsfélög á landsbyggðinni fóru í 2 daga verkfall. Slíkt hefur ekki gerst í stóru ASÍ-sambandi í marga áratugi. Mátti spyrja sig: er stéttasamvinnupólitíkin að bila? Seðlabankastjóri fór á yfirsnúning og Þorsteinn Víglundsson foringi SA sagði – vísandi sérstaklega til átakanna á sjúkrahúsum og hjá BHM – að „vinna við breytingar á vinnumarkaðsmódeli verði að hefjast ef ekki eigi að hljótast verra af.“

SALEK-hópur skilaði rammasamkomulagi 27. október sl. Helstu þættir þess eru: 1. Stofnun Þjóðhagsráðs sem skal greina stöðuna í efnahagsmálum  2. Sameiginleg launastefna til ársloka 2018, sameiginlegur kostnaðarrammi er fundinn 32%, að frádregnum áorðnum kostnaði.  3. Fram til ársloka 2018 skal þróa samningslíkan sem gilda skal við kjarasamninga á Íslandi. Ein „meginstoð“ í því líkani skal vera: Samkeppnis og útflutningsgreinar „semji fyrst og móti þannig það svigrúm sem til launabreytinga er.“

Í kynningu samkomulagsins í fjölmiðlum, sem var hreint ekki hávær, var breytingunni valin lokkandi yfirskrift: „NORRÆNT VINNUMARKAÐSLÍKAN“ sem fjölmiðlarnir tönnluðust á. Breytingin boðar skandinavísk kjör! Samkvæmt RÚV er eitt helsta markmiðið að „stöðva svokallað höfrungahlaup á vinnumarkaði“. Þorsteinn Víglundsson og Gylfi Arnbjörnsson útskýrðu að fara yrði nýjar leiðir í samningagerð til að „tryggja frið á vinnumarkaði og raunverulegar kjarabætur.“ Boðskapurinn er: „friðarstefna“ gagnast launafólki og samfélaginu best. 

Í kynningu innan verkalýðshreyfingarinnar – sem er rétt að hefjast – tala forustumennirnir helst um SALEK-samkomulagið sem „lausa hugmynd“, EKKI SÉ BÚIÐ AÐ ÁKVEÐA NEITT. En það stenst illa miðað við það að samkomulagið er þegar komið í fulla notkun og kaupákvæði þess notað sem óbrjótanlegur rammi!

Þess má geta að SA setti í apríl í vor fram hugmynd um Þjóðhagsráð – skipað fulltrúum ríkisstjórnar, seðlabankastjóra og aðila vinnumarkaðar – og ríkisstjórnin tók undir þá hugmynd. Varðandi mat Þjóðhagsráðsins á „sigrúminu“ má geta þess að Seðlabankinn hefur lengi reiknað út þetta „svigrúm“ og yfirleitt fundið tölu nálægt 3%. Mat Þjóðhagsráðs verður sjálfsagt mjög svipað, nema hvað nú (eftir 2018) verður aðilum vinnumarkaðar SKYLT að semja innan þess gefna ramma. Frjáls samningsréttur?


Eitt verkalýðsfélag hefur opinberlega gagnrýnt þetta nýja „líkan“, Verkalýðsfélag Akraness. Á vefsíðu þess segir að samkomulagið sé „skerðing á samningsrétti og frelsi stéttarfélaganna enda kemur fram í samkomulaginu að fyrirfram sé búið að ákveða hverjar launabreytingar eigi að vera“. Í ljósi þess hefur Akranesfélagið höfðað mál gegn Sambandi ísenskra sveitarfélaga fyrir Félagsdómi. Sambandið svarar nú af fullri hörku og krefst þess að félagið falli frá málinu og skrifi undir NÁKVÆMLEGA EINS SAMNING og hin félögin, með SALEK-samkomulagið sem viðhengi, að öðrum kosti fái félagið engan samning.

Þórarinn Hjartarson

mánudagur, 7. desember 2015

Hið þríeina stríð gegn borgaralegum mannréttindum og frelsi (ályktun)

Á undanförnum árum og áratugum hafa Bandaríkin lýst yfir stríði gegn fíkniefnum og hryðjuverkum og hafið stríð gegn internetinu án sérstakrar stríðsyfirlýsingar. Önnur lönd, sem höll eru undir bandarísk heimsyfirráð, hafa fylgt í kjölfarið en enn fremur taka mörg önnur lönd þátt í þessum sömu stríðum, hvert með sínum formerkjum og nægir þar að nefna þátttöku Rússlands og Kína í stríðinu gegn internetinu.

Stríðið gegn fíkniefnum drepur milljónir sjúklinga á hverju ári, stimplar neytendur sem glæpamenn og leyfir glæpaklíkum að einoka markaðinn, oft með skelfilegum afleiðingum fyrir saklausa borgara. Það er í nafni þessa stríðs sem íslensk ungmenni eru gerð ærulaus, finnist þau með korn af kannabis í fórum sínum.

Stríðið gegn hryðjuverkum drepur hundruð þúsunda saklausra borgara árlega, heldur þjóðum í herkví og takmarkar gróflega frelsi flugfarþega, sem eru meðhöndlaðir sem glæpamenn við vopnaleit. Það var í nafni þessa stríðs sem ráðamenn Íslands gerðust stríðsglæpamenn í Írak.

Stríðið gegn internetinu veldur því að fólk eins og Chelsea Manning situr í fangelsi, Edward Snowden er landflótta og Julian Assange má sig hvergi hræra af ótta við að verða framseldur til Bandaríkjanna - fyrir það eitt að leka upplýsingum. Í nafni öryggis, bannhyggju og forvarna er aðgangi almennings að upplýsingum eða að koma frá sér upplýsingum lokað eða reynt að loka víðsvegar í heiminum. Það er í nafni þessa stríðs þegar íslenskir ráðamenn ætla að loka fyrir aðgang almennings að hluta internetsins.

Öll þessi stríð ber að sama brunni: Að skerða borgaraleg réttindi. Þess vegna má líta á þessi þrjú stríð sem þrjár greinar á sama meiði, þ.e. stríð gegn frelsi borgaranna.

Alþýðufylkingin mun beita sér fyrir því að Ísland dragi sig út úr stríðinu gegn fíkniefnum og stríðinu gegn hryðjuverkum, m.a. með úrsögn úr NATO og gerbreyttri afstöðu til stefnu Vesturlanda í málefnum Miðausturlanda, og að á Íslandi verði sérstakt skjól fyrir upplýsingaveitur internetsins.


Landsfundur Alþýðufylkingarinnar 28.-29. nóvember 2015

föstudagur, 4. desember 2015

Ályktun um stríðið gegn fíkniefnum og áhrif þess á Íslandi

Bandaríkin voru fyrsta land heimsins, sem lýsti yfir stríði gegn fíkniefnum á 7. áratug síðustu aldar en önnur lönd fylgdu fljótlega á eftir. Á Íslandi voru sett lög um bann við fíkniefnum rétt fyrir 1970 en núverandi löggjöf byggir á heildarlögum nr. 65 frá 1974 með síðari tíma breytingum.

Nú eru 41 ár liðin frá því að núverandi fíkniefnalöggjöf var samþykkt á Alþingi og enn geisar fíkniefnastríðið sem aldrei fyrr. Á meðan fíkniefnaneytendur eru dæmdir glæpamenn um aldur og eilífð, og einhver versti HIV faraldur í Evrópu geisar meðal íslenskra sprautusjúklinga, er fíkniefnamarkaðurinn, bæði innflutningur, dreifing og sala, í höndum glæpalýðs, sem einskis svífst og veltir tugmilljörðum árlega - skattfrjálst!

Á sama tíma hafa nokkrar þjóðir, svo sem Hollendingar, Portúgalir og Svisslendingar tekið upp svokallaða skaðaminnkunarstefnu. Í þessum löndum og fleiri er litið á fíkniefnavandann sem heilbrigðismál en ekki glæpamál, t.d. eru sprautufíklar meðhöndlaðir sem sjúklingar en ekki glæpamenn, og ungmenni missa ekki æruna ævilangt þó að þau hafi í fórum sínum eitthvað lítilræði af t.d. kannabis.

Stríðið gegn fíkniefnum hefur á heimsvísu drepið fleiri og kostað skattborgarana meira en árásarstríð Bandaríkjanna í Afganistan og Írak samanlagt.

Stríðið gegn fíkniefnum minnir um margt á bannárin, bæði hérlendis og vestanhafs, þegar áfengi var bannað, með öllum þeim hörmungum sem banninu fylgdu.

Nýgengi HIV-smits á Íslandi hefur minnkað frá því að toppnum - eða botninum - var náð á árunum 2011-2012. Þetta á sennilega einnig við um nýgengi meðal sprautusjúklinga og er það m.a. afleiðing af skaðaminnkunarstarfi Rauða kross Íslands, sem skipulagði átakið Frú Ragnheiði án stuðnings og jafnvel í óþökk íslenskra heilbrigðisyfirvalda.

Þjóðfélag, sem lítur á sjúklinga sem glæpamenn, er þjóðfélag án mannúðar. Það verður að afglæpavæða neyslu fíkniefna og líta á fíkniefnavandann sem heilbrigðisvandamál. Alþýðufylkingin mun beita sér fyrir skaðaminnkun og mannúðarstefnu í fíkniefnamálum.


Landsfundur Alþýðufylkingarinnar 28.-29. nóvember 2015

Húsnæðiskreppan (ályktun)

Stefna íslensku auðstéttarinnar er að nota húsnæðisþörf fólksins sem féþúfu sem gefur af sér hámarksgróða. Í meira en 30 ár hefur almenningur borgað margfalt fyrir íbúðir sínar með okurvöxtum.

Ríkisstjórnin sem sat kjörtímabilið 2009-2013 sá þá lausn helsta á skuldavanda almennings að reka þá fátækustu út á götuna og neyða þá til að borga himinháa húsaleigu m.a. með því að hindra aðgang að lánsfé nema til braskara.

Hlutfall leigjenda hefur hækkað úr um 15% í 25-30% á örfáum árum. Það er ekki vegna óska þessa fólks um að verða leigjendur heldur er það þvingað til þess svo hægt sé að féfletta það enn frekar.

Þannig er stór hluti þjóðarinnar fastur í fátæktargildru og ofurseldur leiguþrældómi. Ungt fólk getur ekki flutt úr foreldrahúsum. Þetta er ein meginástæða þess að fjöldi ungs fólks hefur flutt úr landi á þessu ári þó að margt af því hafi getað fengið vinnu hér.

Eina leiðin út úr húsnæðiskreppunni er sú sem Alþýðufylkingin hefur boðað, með félagsvæðingu fjármálakerfisins. Skref í þá átt gæti verið að allir geti fengið vaxtalaust lán að vissri upphæð af samfélagslegu eigin fé til húsnæðiskaupa.

Að sama skapi þarf að vera nægt framboð á félagslegu húsnæði án fjármagnskostnaðar til að uppfylla þörf fyrir leiguhúsnæði.


Landsfundur Alþýðufylkingarinnar 28.-29. nóvember 2015

fimmtudagur, 3. desember 2015

Ályktun um heilbrigðis- og velferðarmál

Landsfundur Alþýðufylkingarinnar 2015 lýsir beiskri gremju yfir þeirri hörðu sveltistefnu sem íslenska heilbrigðiskerfið hefur verið rekið eftir um langt árabil og miðar að vaxandi einkavæðingu. Undirmönnunarstefnan: að þræla starfsfólkinu út við vinnu sem krefst vandvirkni og árvekni - sparar kannski aurinn, en kastar krónunni, því hún er þjóðinni dýrkeypt. Nirfilshátturinn: að endurnýja ekki tækjakost Landspítala og annarra sjúkrahúsa sem skyldi, heldur nota biluð og jafnvel úrelt tæki - er sama marki brennd. Niðurníðslustefnan: að spara í viðhaldi húsa - þýðir að sjúkrahúsin liggja undir skemmdum og miklu dýrara verður að laga þau heldur en ef þeim hefði verið við haldið samfellt. Áformin um að byggja fokdýrt, nýtt háskólasjúkrahús á óhentugum stað - áform sem líta út fyrir að vera óstöðvandi - virðast klikkuð, en skiljast þegar fjármögnunin er tekin með í reikninginn: að brasksjóðir atvinnurekenda- og verkalýðsaðalsins fái tækifæri til að fjárfesta í byggingum og leigja þær svo ríkinu með öruggum tekjum áratugi fram í tímann - það er hvöt sem við berum kennsl á. Þar ræður ágirnd og gróðafíkn fjármagnsins för, en ekki hagsmunir sjúklinga eða almennings.

Sjúkrahús verður ekki rekið án þess að hafa nóg af hæfu starfsfólki. Það hefur verið ótrúlegt að sjá aðfarir sitjandi ríkisstjórnar í kjaradeilum við heilbrigðisstéttir: lækna, hjúkrunarfræðinga, ljósmæður, geislafræðinga, sjúkraliða ásamt fleiri stéttum úr BHM, SFR og fleiri stéttarfélögum. Það þarf ekki glöggan skilning til að sjá að ríkisstjórn sem þrjóskast við að veita þessum stéttum tímabærar og verðskuldaðar launaleiðréttingar, sem setur lög á verkföll í heiðarlegri kjarabaráttu vinnandi fólks, sem hýrudregur ljósmæður og sjúkraliða í verkfalli, sem hikar ekki við að beita fyrir sig sjúklingum sem hún ber sjálf ábyrgð á, þegar öllu er á botninn hvolft, en er auk þess sem bíræfin að segja verkfallsfólk taka gísla, slík ríkisstjórn stjórnar í fullum fjandskap við hagsmuni alþýðunnar, hvort sem alþýðan er heilbrigðisstarfsfólk, sjúklingar, aðstandendur sjúklinga eða bara fólk sem vill hafa þokkalegt heilbrigðiskerfi í landinu.

Borgaralegir stjórnmálaflokkar tönnlast á því að endurreisa íslenska heilbrigðiskerfið. Ekki er þó sýnt að neinn þeirra sé líklegur til að gera það. Eftir stendur, að sú endurreisn er eitt mest aðkallandi hagsmunamál þjóðarinnar. Við höfum ekki efni á að láta heilbrigðiskerfið drabbast niður. Það þarf ekki bara að endurreisa Landspítalann, heldur líka hin sjúkrahúsin í landinu, ásamt heilsugæslunni - auk systurkerfis heilbrigðiskerfisins, velferðarkerfisins, þar sem aldraðir, öryrkjar og fleiri þjóðfélagshópar sem þurfa sérstakan stuðning, liggja óbættir hjá garði. Lykillinn að því að endurreisa þessa máttarviði þjóðfélagsins er félagsvæðing heilbrigðis- og velferðarkerfisins, sem og félagsvæðing fjármálakerfisins. Sú síðastnefnda losar um fjármagn, sem núna rennur úr opinberum sjóðum í óseðjandi hít gróðadrifins fjármálakerfis, og væri betur komið í þágu heilsu og velferðar. Félagsvæðing heilbrigðis- og velferðarkerfisins mundi beina fjármunum mest þangað sem þjónustunnar er mest þörf ásamt því að stórdraga úr einkarekstri í heilbrigðiskerfinu og skrúfa fyrir að hið opinbera borgi fyrir gróða sem er tekinn út úr einkarekinni starfsemi. Fyrsta flokks heilbrigðisþjónusta er mannréttindi, og á að vera í boði fyrir alla án endurgjalds.


Landsfundur Alþýðufylkingarinnar 28.-29. nóvember 2015

Verjum samningsrétt verkalýðsfélaganna (ályktun)

Nýlega bárust fréttir af svokölluðu rammasamkomulagi milli aðila vinnumarkaðarins um breyttar aðferðir við gerð kjarasamninga þar sem aukin miðstýring verði í forgrunni.

Samkvæmt lögum er samningsréttur verkafólks í höndum einstakra stéttarfélaga. Þetta samkomulag er lítt dulbúin árás á samningsrétt verkalýðsfélaganna og gróf tilraun til að grafa undan honum.

Það er ekki langsótt að halda því fram að samkomulag þetta sé brot á lögum um stéttafélög og vinnudeilur enda koma fram í því hugmyndir um breytingar á þeim lögum.

Allt er þetta gert undir því yfirskini að þannig megi ná betri árangri í bættum kjörum og betri hagstjórn. Reynslan sýnir hins vegar að stéttasamvinnustefnan hefur aldrei skilað neinum árangri til bættra kjara fyrir verkafólk. Það hefur aldrei náð neinu fram án baráttu. Við óbreytt ástand eru lágmarkskjör alþýðunnar hins vegar stillt við hungurmörk til að tryggja auðstéttinni hámarksgróða.

Sú breyting sem helst þarf að gera á vinnumarkaðsmódelinu er að losna við sjálftöku fjármálaauðvaldsins út úr raunhagkerfinu og styðja baráttu vinnandi fólks fyrir réttlátum hlut.


Landsfundur Alþýðufylkingarinnar 28.-29. nóvember 2015

miðvikudagur, 2. desember 2015

Kreppa auðvaldsins, heimsvaldastríð og nauðsyn byltingar (ályktun)

Almenn kreppa auðvaldins hefur nú farið dýpkandi um árabil og möguleikar þess til vaxtar og þróunar eru tæmdir. Að sama skapi verður afætueðli auðvaldsskipulagsins alls ráðandi og átök fara harðnandi milli stórvelda og bandalaga þeirra um auðlindir og áhrifasvæði. Í þeim átökum er mannslífum fórnað í stórum stíl og velferð fólksins um allan heim höfð að skiptimynt.

Auðvaldsskipulagið getur ekki lifað án þess að þenjast út efnahagslega þannig að gróðinn fari stigvaxandi frá ári til árs. Til að tryggja það er ráðist að kjörum almennings og velferð, og gróðanum safnað á æ færri hendur gegnum fjármálakerfið sem tekur til sín vaxandi hluta gróðans.

Vaxandi fátækt og minnkandi kaupmáttur almennings ýtir undir vítahring kreppunnar sem ógnar vistkerfum jarðarinnar og sjálfri siðmenningunni. Þverstæður kapítalismans verða stöðugt ljósari. Þrátt fyrir aukna tækni og margföldun á framleiðni vinnunnar þá eykst þrældómurinn, fátæktin og félagslegt óöryggi. Þrátt fyrir aukna þekkingu á umhverfi og náttúru eykst umhverfisvá á flestum sviðum, þannig að sífellt stærri svæði jarðarinnar verða óbyggileg, hlýnun af manna völdum er að fara úr böndunum og vistkerfum hrakar.

Að óbreyttu heldur áfram glundroði og upplausn samfélaga. Styrjaldir heimsvaldasinna magnast og leysa upp samfélagsinnviði heilla heimshluta.

Enn sem komið er hefur alþýðan lítið náð að spyrna við þessari þróun. Til að hindra að hún haldi áfram er hins vegar nauðsynlegt að fólkið taki til sinna ráða og sameinist um stefnu sem miðar að því að svipta auðstéttina sínum efnahagslegu og pólítísku yfirráðum í samfélaginu og endurreisa það á félagslegum forsendum. Pólitísk og félagsleg skipulagning með þetta markmið er lífnauðsyn fyrir íslenskt samfélag eins og alls staðar annars staðar. Framtíð mannkyns og siðmenningar er í húfi.


Landsfundur Alþýðufylkingarinnar 28.-29. nóvember 2015

Af landsfundi Alþýðufylkingarinnar

Landsfundur Alþýðufylkingarinnar var haldinn í Friðarhúsi um liðna helgi, 28.-29. nóvember.

Á honum voru eftirfarandi kosin í framkvæmdastjórn: Þorvaldur Þorvaldsson, Vésteinn Valgarðsson, Þóra Sverrisdóttir, Claudia Overesch, Andrés Rúnar Ingason, Björgvin Rúnar Leifsson og Guðmundur Arngrímsson.

Auk þeirra voru Tinna Þorvaldsdóttir, Ólafur Þ Jónsson, Jóhannes Ragnarsson og Elín Helgadóttir kosin í miðstjórn.