mánudagur, 28. september 2015

Ályktun Alþýðufylkingarinnar um mál flóttamanna

Alþýðufylkingin er þeirrar skoðunar að Ísland ætti að taka við eins mörgum flóttamönnum og mögulegt er. Bæði vegna þess að sjálfsagt er og rétt að hjálpa þeim sem þurfa á hjálp að halda og vegna þess að Ísland ber ákveðna ábyrgð á flóttamannstraumnum í gegnum stuðning við stríð sem hafa rekið fólk á flótta, og okkur ber því að axla þá ábyrgð. Eins og allir vita flýr fólk nú stríðsátök í milljónatali með von um tækifæri til að lifa eðlilegu lífi. Það er ekki hægt að skorast undan þeirri ábyrgð að veita þeim alla þá aðstoð sem við getum boðið. Það ástand sem skapast hefur í mörgum ríkjum Miðausturlanda er að mestu leyti afsprengi vestrænnar hernaðaríhlutunarstefnu auk þess sem hún hefur gert illt verra í þeim átökum sem ekki skrifast á hana beint.

Alþýðufylkingin fordæmir einnig þá stefnu sem ríkt hefur í málefnum flóttafólks hjá bæði stjórnvöldum Íslands og Evrópusambandsríkjunum. Nú þegar ekki er lengur hægt að hunsa vandann, ýta honum undan sér og að safna fólki saman í flóttamannabúðir í þeirri von að það hverfi, þegar vandinn hefur fengið að vinda upp á sig svo rækilega ekki var hægt að loka augunum fyrir honum lengur reyna stjórnvöld Evrópuríkja að koma sér saman um aðgerðir sem líklega reynast „of lítið, of seint“. Það er engan vegin boðlegt að taka við ákveðnum fjölda flóttafólks í eitt skipti og halda svo áfram þeirri stefnu að senda fólk úr landi til að safna þeim saman í flóttamannabúðum. Grundvallarstefnubreytingu er þörf ekki bara á Íslandi heldur í Evrópu. Stríðsátökunum sem fólkið flýr, með öllu því ofbeldi og upplausn sem þeim fylgir, virðist ekki vera að fara að ljúka neitt á næstunni.

Það er mikilvægt að tekið sé vel á móti því flóttafólki sem hingað kemur, það upplifi sig raunverulega velkomið og hafi öll sömu tækifæri, réttindi og skyldur og aðrir íbúar landsins. Þegar í hræðsluáróðri vísað er til „innflytjendavandamála“ í nágrannalöndum okkar er með yfirborðskenndum og villandi hætti vísað til félagslegra vandamála sem sköpuð eru og viðhaldið er fyrst og fremmst vegna jaðarsetningar og stéttskiptingar. Vandamálið er ójöfnuður, félagslegur og efnahagslegur, en ekki uppruni, menning eða trúarafstaða.

Við eigum að stela slagorðinu af fótstalli Frelsisstyttunnar og gera það að okkar: Gefið mér ykkar þreyttu, fátæku og kúguðu sem þrá að draga andann frjálsir!

Alþýðufylkingin 28. september 2015

fimmtudagur, 24. september 2015

Alþýðufylkingin fundar á Ísafirði næsta mánudag

Alþýðufylkingin í Edinborgarhúsinu á Ísafirði mánudag 28. sept kl. 20. Þorvaldur Þorvaldsson og Vésteinn Valgarðsson skýra stefnu flokksins og afstöðu til brýnna mála samtímans, og taka þátt í umræðum.

Alþýðufylkingin var stofnuð í ársbyrjun 2013 og bauð fram í Reykjavíkurkjördæmum í Alþingiskosningunum það ár og í borgarstjórnarkosningunum árið eftir. Flokkurinn stefnir nú að framboði í öllum kjördæmum í næstu kosningum og vill þannig tryggja að vinstrivalkostur verði í boði.

Stefna Alþýðufylkingarinnar byggir á því að auka beri vægi félagslegra lausna í hagkerfinu og í samfélaginu á kostnað markaðsvæðingar. Það sé frumskilyrði fyrir auknum jöfnuði og farsæld. Á fundinum verður fjallað um framtíðarsýn flokksins og leiðir að henni, en einnig hlustað á sjónarmið fundarmanna. Allir áhugasamir eru velkomnir.

mánudagur, 7. september 2015

Ályktun um málefni Rússlands og Úkraínu

Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar mótmælir harðlega stefnu ríkisstjórnar Íslands varðandi málefni Rússlands og Úkraínu.

Málið snýst ekki um viðskiptahagsmuni þeirra sem selja matvæli til Rússlands. Það er hins vegar forkastanlegt að ríki sem kennir sig við lýðræði og mannréttindi skuli án gagnrýni styðja ólöglega valdatöku fasista í Kænugarði í febrúar 2014.

Fasistastjórnin í Úkraínu gengur erinda heimsvaldasinna, með Evrópusambandið og Bandaríkin í fararbroddi, og brýtur mannréttindi á eigin borgurum, ekki síst þeim rússneskumælandi.

Viðskiptabann Evrópusambandsins og Bandaríkjanna gegn Rússlandi er óréttmætt og þjónar einungis þeim tilgangi að auka spennu og kynda undir átökum. Íslandi ber því að hætta stuðningi við viðskiptabannið og taka aftur upp eðlileg samskipti við Rússland, sem áratugum saman hefur sýnt Íslandi vinsemd.


Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar 3.9. 2015

Ályktun um verkalýðsmál

Alþýðufylkingin leggst eindregið gegn hugmyndum Samtaka atvinnulífsins og ASÍ-forystunnar um það sem þeir kalla „nýjar leiðir í kjarasamningum til að tryggja frið á vinnumarkaði og raunverulegar kjarabætur“.

Hið nýja „vinnumarkaðsmódel“, eins og það er kallað er ekkert annað en aðför atvinnurekenda að verkfalls- og samningsrétti launafólks, með fullum stuðningi verkalýðsforystunnar í landinu.

Alþýðufylkingin harmar að ASÍ-forystan skuli enn vera við „stétt-með-stétt“ heygarðshornið og skorar á forystu BSRB að láta ekki teyma sig út í fúafenið.
Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar 3.9. 2015