miðvikudagur, 2. desember 2015

Kreppa auðvaldsins, heimsvaldastríð og nauðsyn byltingar (ályktun)

Almenn kreppa auðvaldins hefur nú farið dýpkandi um árabil og möguleikar þess til vaxtar og þróunar eru tæmdir. Að sama skapi verður afætueðli auðvaldsskipulagsins alls ráðandi og átök fara harðnandi milli stórvelda og bandalaga þeirra um auðlindir og áhrifasvæði. Í þeim átökum er mannslífum fórnað í stórum stíl og velferð fólksins um allan heim höfð að skiptimynt.

Auðvaldsskipulagið getur ekki lifað án þess að þenjast út efnahagslega þannig að gróðinn fari stigvaxandi frá ári til árs. Til að tryggja það er ráðist að kjörum almennings og velferð, og gróðanum safnað á æ færri hendur gegnum fjármálakerfið sem tekur til sín vaxandi hluta gróðans.

Vaxandi fátækt og minnkandi kaupmáttur almennings ýtir undir vítahring kreppunnar sem ógnar vistkerfum jarðarinnar og sjálfri siðmenningunni. Þverstæður kapítalismans verða stöðugt ljósari. Þrátt fyrir aukna tækni og margföldun á framleiðni vinnunnar þá eykst þrældómurinn, fátæktin og félagslegt óöryggi. Þrátt fyrir aukna þekkingu á umhverfi og náttúru eykst umhverfisvá á flestum sviðum, þannig að sífellt stærri svæði jarðarinnar verða óbyggileg, hlýnun af manna völdum er að fara úr böndunum og vistkerfum hrakar.

Að óbreyttu heldur áfram glundroði og upplausn samfélaga. Styrjaldir heimsvaldasinna magnast og leysa upp samfélagsinnviði heilla heimshluta.

Enn sem komið er hefur alþýðan lítið náð að spyrna við þessari þróun. Til að hindra að hún haldi áfram er hins vegar nauðsynlegt að fólkið taki til sinna ráða og sameinist um stefnu sem miðar að því að svipta auðstéttina sínum efnahagslegu og pólítísku yfirráðum í samfélaginu og endurreisa það á félagslegum forsendum. Pólitísk og félagsleg skipulagning með þetta markmið er lífnauðsyn fyrir íslenskt samfélag eins og alls staðar annars staðar. Framtíð mannkyns og siðmenningar er í húfi.


Landsfundur Alþýðufylkingarinnar 28.-29. nóvember 2015