föstudagur, 4. desember 2015

Húsnæðiskreppan (ályktun)

Stefna íslensku auðstéttarinnar er að nota húsnæðisþörf fólksins sem féþúfu sem gefur af sér hámarksgróða. Í meira en 30 ár hefur almenningur borgað margfalt fyrir íbúðir sínar með okurvöxtum.

Ríkisstjórnin sem sat kjörtímabilið 2009-2013 sá þá lausn helsta á skuldavanda almennings að reka þá fátækustu út á götuna og neyða þá til að borga himinháa húsaleigu m.a. með því að hindra aðgang að lánsfé nema til braskara.

Hlutfall leigjenda hefur hækkað úr um 15% í 25-30% á örfáum árum. Það er ekki vegna óska þessa fólks um að verða leigjendur heldur er það þvingað til þess svo hægt sé að féfletta það enn frekar.

Þannig er stór hluti þjóðarinnar fastur í fátæktargildru og ofurseldur leiguþrældómi. Ungt fólk getur ekki flutt úr foreldrahúsum. Þetta er ein meginástæða þess að fjöldi ungs fólks hefur flutt úr landi á þessu ári þó að margt af því hafi getað fengið vinnu hér.

Eina leiðin út úr húsnæðiskreppunni er sú sem Alþýðufylkingin hefur boðað, með félagsvæðingu fjármálakerfisins. Skref í þá átt gæti verið að allir geti fengið vaxtalaust lán að vissri upphæð af samfélagslegu eigin fé til húsnæðiskaupa.

Að sama skapi þarf að vera nægt framboð á félagslegu húsnæði án fjármagnskostnaðar til að uppfylla þörf fyrir leiguhúsnæði.


Landsfundur Alþýðufylkingarinnar 28.-29. nóvember 2015