föstudagur, 4. desember 2015

Ályktun um stríðið gegn fíkniefnum og áhrif þess á Íslandi

Bandaríkin voru fyrsta land heimsins, sem lýsti yfir stríði gegn fíkniefnum á 7. áratug síðustu aldar en önnur lönd fylgdu fljótlega á eftir. Á Íslandi voru sett lög um bann við fíkniefnum rétt fyrir 1970 en núverandi löggjöf byggir á heildarlögum nr. 65 frá 1974 með síðari tíma breytingum.

Nú eru 41 ár liðin frá því að núverandi fíkniefnalöggjöf var samþykkt á Alþingi og enn geisar fíkniefnastríðið sem aldrei fyrr. Á meðan fíkniefnaneytendur eru dæmdir glæpamenn um aldur og eilífð, og einhver versti HIV faraldur í Evrópu geisar meðal íslenskra sprautusjúklinga, er fíkniefnamarkaðurinn, bæði innflutningur, dreifing og sala, í höndum glæpalýðs, sem einskis svífst og veltir tugmilljörðum árlega - skattfrjálst!

Á sama tíma hafa nokkrar þjóðir, svo sem Hollendingar, Portúgalir og Svisslendingar tekið upp svokallaða skaðaminnkunarstefnu. Í þessum löndum og fleiri er litið á fíkniefnavandann sem heilbrigðismál en ekki glæpamál, t.d. eru sprautufíklar meðhöndlaðir sem sjúklingar en ekki glæpamenn, og ungmenni missa ekki æruna ævilangt þó að þau hafi í fórum sínum eitthvað lítilræði af t.d. kannabis.

Stríðið gegn fíkniefnum hefur á heimsvísu drepið fleiri og kostað skattborgarana meira en árásarstríð Bandaríkjanna í Afganistan og Írak samanlagt.

Stríðið gegn fíkniefnum minnir um margt á bannárin, bæði hérlendis og vestanhafs, þegar áfengi var bannað, með öllum þeim hörmungum sem banninu fylgdu.

Nýgengi HIV-smits á Íslandi hefur minnkað frá því að toppnum - eða botninum - var náð á árunum 2011-2012. Þetta á sennilega einnig við um nýgengi meðal sprautusjúklinga og er það m.a. afleiðing af skaðaminnkunarstarfi Rauða kross Íslands, sem skipulagði átakið Frú Ragnheiði án stuðnings og jafnvel í óþökk íslenskra heilbrigðisyfirvalda.

Þjóðfélag, sem lítur á sjúklinga sem glæpamenn, er þjóðfélag án mannúðar. Það verður að afglæpavæða neyslu fíkniefna og líta á fíkniefnavandann sem heilbrigðisvandamál. Alþýðufylkingin mun beita sér fyrir skaðaminnkun og mannúðarstefnu í fíkniefnamálum.


Landsfundur Alþýðufylkingarinnar 28.-29. nóvember 2015