fimmtudagur, 3. desember 2015

Ályktun um heilbrigðis- og velferðarmál

Landsfundur Alþýðufylkingarinnar 2015 lýsir beiskri gremju yfir þeirri hörðu sveltistefnu sem íslenska heilbrigðiskerfið hefur verið rekið eftir um langt árabil og miðar að vaxandi einkavæðingu. Undirmönnunarstefnan: að þræla starfsfólkinu út við vinnu sem krefst vandvirkni og árvekni - sparar kannski aurinn, en kastar krónunni, því hún er þjóðinni dýrkeypt. Nirfilshátturinn: að endurnýja ekki tækjakost Landspítala og annarra sjúkrahúsa sem skyldi, heldur nota biluð og jafnvel úrelt tæki - er sama marki brennd. Niðurníðslustefnan: að spara í viðhaldi húsa - þýðir að sjúkrahúsin liggja undir skemmdum og miklu dýrara verður að laga þau heldur en ef þeim hefði verið við haldið samfellt. Áformin um að byggja fokdýrt, nýtt háskólasjúkrahús á óhentugum stað - áform sem líta út fyrir að vera óstöðvandi - virðast klikkuð, en skiljast þegar fjármögnunin er tekin með í reikninginn: að brasksjóðir atvinnurekenda- og verkalýðsaðalsins fái tækifæri til að fjárfesta í byggingum og leigja þær svo ríkinu með öruggum tekjum áratugi fram í tímann - það er hvöt sem við berum kennsl á. Þar ræður ágirnd og gróðafíkn fjármagnsins för, en ekki hagsmunir sjúklinga eða almennings.

Sjúkrahús verður ekki rekið án þess að hafa nóg af hæfu starfsfólki. Það hefur verið ótrúlegt að sjá aðfarir sitjandi ríkisstjórnar í kjaradeilum við heilbrigðisstéttir: lækna, hjúkrunarfræðinga, ljósmæður, geislafræðinga, sjúkraliða ásamt fleiri stéttum úr BHM, SFR og fleiri stéttarfélögum. Það þarf ekki glöggan skilning til að sjá að ríkisstjórn sem þrjóskast við að veita þessum stéttum tímabærar og verðskuldaðar launaleiðréttingar, sem setur lög á verkföll í heiðarlegri kjarabaráttu vinnandi fólks, sem hýrudregur ljósmæður og sjúkraliða í verkfalli, sem hikar ekki við að beita fyrir sig sjúklingum sem hún ber sjálf ábyrgð á, þegar öllu er á botninn hvolft, en er auk þess sem bíræfin að segja verkfallsfólk taka gísla, slík ríkisstjórn stjórnar í fullum fjandskap við hagsmuni alþýðunnar, hvort sem alþýðan er heilbrigðisstarfsfólk, sjúklingar, aðstandendur sjúklinga eða bara fólk sem vill hafa þokkalegt heilbrigðiskerfi í landinu.

Borgaralegir stjórnmálaflokkar tönnlast á því að endurreisa íslenska heilbrigðiskerfið. Ekki er þó sýnt að neinn þeirra sé líklegur til að gera það. Eftir stendur, að sú endurreisn er eitt mest aðkallandi hagsmunamál þjóðarinnar. Við höfum ekki efni á að láta heilbrigðiskerfið drabbast niður. Það þarf ekki bara að endurreisa Landspítalann, heldur líka hin sjúkrahúsin í landinu, ásamt heilsugæslunni - auk systurkerfis heilbrigðiskerfisins, velferðarkerfisins, þar sem aldraðir, öryrkjar og fleiri þjóðfélagshópar sem þurfa sérstakan stuðning, liggja óbættir hjá garði. Lykillinn að því að endurreisa þessa máttarviði þjóðfélagsins er félagsvæðing heilbrigðis- og velferðarkerfisins, sem og félagsvæðing fjármálakerfisins. Sú síðastnefnda losar um fjármagn, sem núna rennur úr opinberum sjóðum í óseðjandi hít gróðadrifins fjármálakerfis, og væri betur komið í þágu heilsu og velferðar. Félagsvæðing heilbrigðis- og velferðarkerfisins mundi beina fjármunum mest þangað sem þjónustunnar er mest þörf ásamt því að stórdraga úr einkarekstri í heilbrigðiskerfinu og skrúfa fyrir að hið opinbera borgi fyrir gróða sem er tekinn út úr einkarekinni starfsemi. Fyrsta flokks heilbrigðisþjónusta er mannréttindi, og á að vera í boði fyrir alla án endurgjalds.


Landsfundur Alþýðufylkingarinnar 28.-29. nóvember 2015