mánudagur, 28. september 2015

Ályktun Alþýðufylkingarinnar um mál flóttamanna

Alþýðufylkingin er þeirrar skoðunar að Ísland ætti að taka við eins mörgum flóttamönnum og mögulegt er. Bæði vegna þess að sjálfsagt er og rétt að hjálpa þeim sem þurfa á hjálp að halda og vegna þess að Ísland ber ákveðna ábyrgð á flóttamannstraumnum í gegnum stuðning við stríð sem hafa rekið fólk á flótta, og okkur ber því að axla þá ábyrgð. Eins og allir vita flýr fólk nú stríðsátök í milljónatali með von um tækifæri til að lifa eðlilegu lífi. Það er ekki hægt að skorast undan þeirri ábyrgð að veita þeim alla þá aðstoð sem við getum boðið. Það ástand sem skapast hefur í mörgum ríkjum Miðausturlanda er að mestu leyti afsprengi vestrænnar hernaðaríhlutunarstefnu auk þess sem hún hefur gert illt verra í þeim átökum sem ekki skrifast á hana beint.

Alþýðufylkingin fordæmir einnig þá stefnu sem ríkt hefur í málefnum flóttafólks hjá bæði stjórnvöldum Íslands og Evrópusambandsríkjunum. Nú þegar ekki er lengur hægt að hunsa vandann, ýta honum undan sér og að safna fólki saman í flóttamannabúðir í þeirri von að það hverfi, þegar vandinn hefur fengið að vinda upp á sig svo rækilega ekki var hægt að loka augunum fyrir honum lengur reyna stjórnvöld Evrópuríkja að koma sér saman um aðgerðir sem líklega reynast „of lítið, of seint“. Það er engan vegin boðlegt að taka við ákveðnum fjölda flóttafólks í eitt skipti og halda svo áfram þeirri stefnu að senda fólk úr landi til að safna þeim saman í flóttamannabúðum. Grundvallarstefnubreytingu er þörf ekki bara á Íslandi heldur í Evrópu. Stríðsátökunum sem fólkið flýr, með öllu því ofbeldi og upplausn sem þeim fylgir, virðist ekki vera að fara að ljúka neitt á næstunni.

Það er mikilvægt að tekið sé vel á móti því flóttafólki sem hingað kemur, það upplifi sig raunverulega velkomið og hafi öll sömu tækifæri, réttindi og skyldur og aðrir íbúar landsins. Þegar í hræðsluáróðri vísað er til „innflytjendavandamála“ í nágrannalöndum okkar er með yfirborðskenndum og villandi hætti vísað til félagslegra vandamála sem sköpuð eru og viðhaldið er fyrst og fremmst vegna jaðarsetningar og stéttskiptingar. Vandamálið er ójöfnuður, félagslegur og efnahagslegur, en ekki uppruni, menning eða trúarafstaða.

Við eigum að stela slagorðinu af fótstalli Frelsisstyttunnar og gera það að okkar: Gefið mér ykkar þreyttu, fátæku og kúguðu sem þrá að draga andann frjálsir!

Alþýðufylkingin 28. september 2015