mánudagur, 11. maí 2015

1. maí ávarp Alþýðufylkingarinnar 2015

Ályktuninni hér að neðan var dreift í flugriti í göngu og flutt í ávarpi á útifundi á Ingólfstorgi á baráttudegi verkalýðsins, 1. maí, í Reykjavík:

Nú á 1. maí stendur íslensk verkalýðsstétt frammi fyrir mestu áskorun um langt árabil. Fyrir 7 árum var kreppan notuð sem átylla til að herða sultarólina hjá alþýðunni undir því yfirskyni að allir þyrftu að taka á sig byrðar. En síðan hefur það komið æ skýrar í ljós að það taka ekki allir á sig byrðar. Þeir sem græddu í góðærinu hafa haldið áfram að maka krókinn í kreppunni og nú ætla þeir enn að bæta í og halda áfram að skerða kaupmátt alþýðunnar til að auka eiginn gróða.

Nú þegar góðærið hefur verið endurreist fyrir ríkasta fólkið í landinu heldur kreppan áfram að dýpka fyrir alþýðuna. Undanfarin ár hafa mörg þúsund manns verið rekin út á götuna til þess eins að borga himinháa húsaleigu. Og nú reynir auðstéttin að hindra að verkafólkið sem ber minnst úr býtum geti bætt sér upp launalækkanir kreppunnar með kjarabótum.

Eftir því sem þessi mynd verður skýrari hefur vaxið fram aukinn vilji til að draga fram verkfallsvopnið úr áratuga geymslu og brýna það. Öllu máli skiptir að það takist að skapa breiða samstöðu í komandi verkföllum til að knýja fram árangur í bættum kjörum og meiri jöfnuði.

Baráttan snýst ekki bara um fleiri krónur í umslagið um sinn heldur einnig um breytta stefnu sem breytir skiptingu gæðanna í samfélaginu. Ríkistjórnin beitir sér opinskátt fyrir vagn auðvaldsins og stjórnarandstaðan á þingi býður ekki upp á annað en aðild að Evrópusambandinu sem aðeins hefði þau áhrif að auka enn og festa í sessi ójöfnuð og misrétti landinu.

Alþýðufylkingin boðar baráttu gegn auðvaldinu á öllum sviðum með nýtt samfélag að leiðarljósi. Samfélag þar sem hagur alþýðunnar ræðst af lýðræðislegum rétti hennar til að halda sínum hlut og skipuleggja þjóðfélagið út frá hagsmunum heildarinnar.

Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar
1. maí 2015