mánudagur, 18. maí 2015

Lýðræði eða lýðskrum?

Það var aumkunarvert að horfa nýverið upp á Katrínu Jakobsdóttur, formann VG, mæla fyrir tillögu um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna um aðild að Evrópusambandinu. Enn fremur að hún skyldi segja að þar sé um að ræða prófstein á lýðræðið í landinu.

Þar talar Katrín annað hvort gegn betri vitund eða hún skilur ekki muninn á lýðræði og lýðskrumi. Þjóðaratkvæðagreiðsla er ekki endilega ávísun á lýðræði. Það ræðst af ýmsu. Það er t.d. frumskilyrði að kostirnir sem valið er um séu skýrir og báðir eða allir framkvæmanlegir. Þannig hlyti eina lýðræðislega atkvæðagreiðslan um þetta mál að snúast um viljann til að ganga í ESB eða ekki.

Þá þyrfti líka að liggja skýrt fyrir að fyrirvörum sem fylgdu þingsályktuninni um aðildarumsókn yrði vikið til hliðar og forræði þjóðarinnar yfir sjávarauðlindinni yrði gefið upp á bátinn. Sama á við um það skilyrði að setja skorður við innflutningi dýra- og landbúnaðarafurða til að koma í veg fyrir sjúkdóma og tryggja fæðuöryggi.

Þessi skilyrði komu fram bæði í greinargerð og nefndaráliti sem vísað er til í tillögunni sjálfri. Seint á árinu 2011 sigldu viðræðurnar við ESB í strand þar sem ESB neitaði að opna viðræður um sjávarútvegs- og landbúnaðarkaflann fyrr en fyrir lægi tímasett áætlum um aðlögun Íslands að stefnu ESB í málaflokkunum.

Það er tímabært að Katrín Jakobsdóttir og aðrir sem ákaft hafa reynt að blekkja þjóðina undanfarin misseri svari því hvort þeir vilja setja auðlindir Íslands á opinn evrópskan markað, koma á viðskiptahöftum við lönd utan ESB og lögfesta markaðsvæðingu allra innviða samfélagsins. Auk þess hangir margt fleira á spýtunni sem sumt kemur ekki í ljós fyrr en eftir mörg ár.

Ætlar Katrín og fylgjendur hennar kannski að sæta lagi til smokra sér fram hjá þeim fyrirvörum sem Alþingi setti við aðildarumsóknina svo lítið beri á, eða er meiningin að fyrirhugaðar viðræður verði eins konar störukeppni við ESB? Niðurstaða hennar yrði fyrirséð þar sem ESB hefur á að skipa her manna með langa reynslu af að stara.

Spurningin snýst um hvort við viljum ganga í ESB með því sem því fylgir en ekki um formsatriði eða óánægju með ríkisstjórnina. Með inngöngu í ESB yrðum við lokuð inni í ríkjasambandi sem mótaði allt líf okkar án þess að við gætum haft áhrif á hvert það þróast og það dylst fáum núorðið að það þróast á versta veg. Það er því kaldhæðnislegt að þeir sem þykjast tala fyrir lýðræði í þessu máli eru í raun að reyna að hjúpa það gerningaþoku og grafa þannig undan lýðræðinu. Ég krefst þess að minn lýðræðislegi réttur snúist um annað og meira en að greiða atkvæði um að afnema lýðræðið.

Þorvaldur Þorvaldsson
trésmiður og formaður Alþýðufylkingarinnar
þessi grein britist í Fréttablaðinu 11. maí 2015

mánudagur, 11. maí 2015

1. maí ávarp Alþýðufylkingarinnar 2015

Ályktuninni hér að neðan var dreift í flugriti í göngu og flutt í ávarpi á útifundi á Ingólfstorgi á baráttudegi verkalýðsins, 1. maí, í Reykjavík:

Nú á 1. maí stendur íslensk verkalýðsstétt frammi fyrir mestu áskorun um langt árabil. Fyrir 7 árum var kreppan notuð sem átylla til að herða sultarólina hjá alþýðunni undir því yfirskyni að allir þyrftu að taka á sig byrðar. En síðan hefur það komið æ skýrar í ljós að það taka ekki allir á sig byrðar. Þeir sem græddu í góðærinu hafa haldið áfram að maka krókinn í kreppunni og nú ætla þeir enn að bæta í og halda áfram að skerða kaupmátt alþýðunnar til að auka eiginn gróða.

Nú þegar góðærið hefur verið endurreist fyrir ríkasta fólkið í landinu heldur kreppan áfram að dýpka fyrir alþýðuna. Undanfarin ár hafa mörg þúsund manns verið rekin út á götuna til þess eins að borga himinháa húsaleigu. Og nú reynir auðstéttin að hindra að verkafólkið sem ber minnst úr býtum geti bætt sér upp launalækkanir kreppunnar með kjarabótum.

Eftir því sem þessi mynd verður skýrari hefur vaxið fram aukinn vilji til að draga fram verkfallsvopnið úr áratuga geymslu og brýna það. Öllu máli skiptir að það takist að skapa breiða samstöðu í komandi verkföllum til að knýja fram árangur í bættum kjörum og meiri jöfnuði.

Baráttan snýst ekki bara um fleiri krónur í umslagið um sinn heldur einnig um breytta stefnu sem breytir skiptingu gæðanna í samfélaginu. Ríkistjórnin beitir sér opinskátt fyrir vagn auðvaldsins og stjórnarandstaðan á þingi býður ekki upp á annað en aðild að Evrópusambandinu sem aðeins hefði þau áhrif að auka enn og festa í sessi ójöfnuð og misrétti landinu.

Alþýðufylkingin boðar baráttu gegn auðvaldinu á öllum sviðum með nýtt samfélag að leiðarljósi. Samfélag þar sem hagur alþýðunnar ræðst af lýðræðislegum rétti hennar til að halda sínum hlut og skipuleggja þjóðfélagið út frá hagsmunum heildarinnar.

Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar
1. maí 2015

föstudagur, 8. maí 2015

Ályktun til stuðnings Landvernd og gegn rányrkju

Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar tekur undir baráttu Landverndar og fleiri samtaka gegn rányrkju á íslenskri náttúru til orkuframleiðslu og sérstaka áherslu ber að leggja á baráttu gegn lagningu rafmagnssæstrengs til Skotlands. Slíkur strengur mundi auka þrýsting á að allt verði virkjað sem mögulegt er og auk þess er hefði hann í för með sér stórhækkun á orkuverði til íslenskra heimila.
Á fyrsta áratug aldarinnar var raforkuframleiðslan í landinu tvöfölduð og fyrir fáum árum hafði Íslandsbanki áform um að fjármagna aðra tvöföldun fram til 2024. Þar með væru allir möguleikar tæmdir og kannski gott betur.  Þessir tilburðir eru ekki til þess að uppfylla vaxandi orkuþörf heldur fyrst og fremst til að uppfylla þörf fjármagnseigenda og fjármálafyrirtækja til að koma fjármagni í ávöxtun. Fyrir því verður að verja íslenska náttúru með öllum ráðum.
8. maí 2015
Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar

föstudagur, 1. maí 2015

Ályktun um verkfallsrétt

Alþýðufylkingin varar við hugmyndum fjármálaráðherra um endurskoðun á verkfallsréttinum,sem eru ekkert annað en illa dulbúin ósk íhaldsaflanna um afnám þessa sama réttar. Minna má á að Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, hótaði flugumferðastjórum lögum á verkfallsréttinn árið 2001 og aðrar stéttir hafa fengið svipaðar hótanir gegnum árin.

Verkfallsrétturinn er eina vopnið, sem bítur í kjarabaráttu launafólks. Honum er aldrei beitt nema í neyð og bitna verkföll alltaf á báðum aðilum hvað svo sem formaður Sjálfstæðisflokksins heldur fram. Þá hljóta verkföll alltaf að bitna með beinum eða óbeinum hætti á ótengdum aðilum, enda getur hreinlega ekki hjá því farið að víðtækar verkfallsaðgerðir einnar eða fleiri stétta hafi víðtæk áhrif í þjóðfélaginu, enda væru verkföll þá til lítils ef þau hefðu ekki áhrif og mynduðu því ekki þrýsting úr sem flestum áttum á viðsemjendur, hverjir sem þeir eru.

Alþýðufylkingin
1. maí 2015