miðvikudagur, 18. mars 2015

Ályktun um viðræðuslit við ESB

Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar lýsir yfir stuðningi við að aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði slitið. Því fyrr, þess betra. Þótt við styðjum efnislega ákvörðun Gunnars Braga Sveinssonar, gagnrýnum við málsmeðferðina. Það hlýtur að teljast til meiriháttar utanríkismála að slíta aðildarviðræðum við ESB og því ætti ráðherra ekki að gera það einn. Málsmeðferðin hefur ekki bara þann galla að gera lýðræðislegt gildi ákvörðunarinnar hæpið, heldur mistekst fyrir vikið líka að kveða umsóknina niður í eitt skipti fyrir öll. Betur hefði farið á að lýsa því yfir fyrir kosningar að þetta stæði til. Fyrir síðustu Alþingiskosningar lýstu talsmenn Alþýðufylkingarinnar því yfir í viðtölum að við mundum umsvifalaust slíta viðræðunum ef við fengjum til þess fylgi. Íslenskir kjósendur geta treyst því í næstu kosningum, eins og þeim síðustu, að atkvæði greitt Alþýðufylkingunni er atkvæði fyrir fullveldi Íslands.

Framkvæmdastjórn Alþýðufylkingarinnar
18. mars 2015