miðvikudagur, 24. desember 2014

Jóla- og áramótakveðja Alþýðufylkingarinnar

Ég sendi félögum og stuðningsmönnum Alþýðufylkingarinnar bestu kveðjur í tilefni jóla og áramóta og óska þeim hins besta á komandi ári.

Það hafa skipst á skin og skúrir í starfi okkar á undaförnu ári. Því miður hafa allmargir félagar orðið viðskila við okkur og erfitt reynst að halda uppi samfelldri virkni í starfi. En á móti kemur að nokkrir nýir félagar hafa gengið til liðs við okkur og fleiri sýnt því áhuga.

Þátttaka okkar í sveitarstjórnarkosningunum í Reykjavík fékk mjög jákvæðar undirtektir í samfélaginu og vakti athygli margra á stefnu okkar. Þar kom líka skýrt fram hve skýrt stefna okkar sker sig úr stefnu allra annarra flokka. Það hefur bóstaflega komið í ljós að litlu sem engu er hægt að breyta til batnaðar í samfélaginu nema stefna okkar komi þar við sögu. Það er því ótvíræð og brýn þörf fyrir okkur og stefnu okkar en það er ekki sjálfgefið að hún komist í framkvæmd.

Þegar allt kemur til alls er Alþýðufylkingin aðeins summa félaganna og afl okkar ræðst af okkur sjálfum og hversu framarlega félagar Alþýðufylkingarinnar setja hana í forgangsröðinni.

Ég er þess fullviss að okkur tekst að efla starfsemi okkar og áhrif á komandi ári og hvet alla félaga til að leggjast á árarnar til að það rætist.

Þorvaldur Þorvaldsson, formaður Alþýðufylkingarinnar